Reiði efst í huga fólks

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum, Framsýn, Þingiðn og Verkalýðsfélag Þórshafnar hafa nú lokið formlegum kynningum á nýgerðum kjarasamningum. Alls er búið að halda tíu kynningarfundi um samninginn. Atkvæðagreiðslu lýkur á þriðjudaginn hjá Framsýn. Atkvæðagreiðslu er lokið hjá Verkalýðsfélagi Þórshafnar og á mánudaginn lýkur atkvæðagreiðslunni hjá Þingiðn.

Niðurstaða fundanna er eftirfarandi:

  Megn óánægja er með kjarasamninginn.

  Megn óánægja er með Alþýðusamband Íslands, ekki síst forseta sambandsins, sem leiddi viðræðurnar á lokastigi.

 Megn óánægja er með samstöðuleysi aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands sem fylgdu ekki eftir samþykktri kröfugerð og ályktun þings sambandsins frá því í október um kjaramál.

  Megn óánægja er með ákvörðun stjórnvalda um að lækka ekki skatta á lágtekjufólki sem hefur tekjur innan við 250.000 krónur á mánuði.

 Megn óánægja er með framlagðar tillögur Alþýðusambands Íslands í skattamálum þar sem viðmiðið varðandi breytingar á tekjuskatti eru þær sömu og ríkistjórnarinnar er varðar þá tekjulægstu.

 Megn óánægja er með allar þær verðhækkanir sem dynja á fólki þrátt fyrir samkomulag ríkistjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins. Hækkun verðlags er á fullri ferð auk gjaldskrárhækkana hjá sveitarfélögum og ríki.

Í ljósi þessa eru líkur á að kjarasamningarnir verða felldir meðal félagsmanna stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum, það er ef félagsmenn fylgja eftir þeirri sannfæringu sem komið hefur sterkt fram á fundunum. Þess ber þó að geta að hópur fólks sem ekki hefur sótt kynningarfundina hefur kosið, hugsanlega greiða þeir atkvæði með öðrum hætti. Það mun koma í ljós þegar talið verður upp úr kjörkössunum eftir helgina.

 Fjöldi félagsmanna hefur komið á kynningarfundina sem stéttarfélögin hafa staðið fyrir á félagssvæðinu.

Deila á