SA svertir aðra fyrir eigin verk

Framsýn, stéttarfélag Þingeyinga og Verkalýðsfélag Akraness hafa samþykkt að senda frá sér sameiginlega ályktun til að mótmæla auglýsingaherferð Samtaka atvinnulífsins í miðjum kjaraviðræðum sem vakið hefur upp hörð viðbrögð hjá launþegum víða um land. Ályktunin er eftirfarandi:

Ályktun
Samtök atvinnulífsins, hafið skömm fyrir! 

„Stéttafélögin Framsýn og Verkalýðsfélag Akraness fordæma harðlega ósmekklega auglýsingaherferð Samtaka atvinnulífsins er miðar að því að gera lítið úr kröfum verkafólks um hækkun lægstu launa. 

Samtök atvinnulífsins!  „þið berið fyrst og fremst ábyrgð á því launaskriði sem verið hefur á íslenskum vinnumarkaði, ekki íslenskt lágtekjufólk. Lítið því í eigin barm í stað þess að sverta aðra fyrir ykkar eigin verk!“ 

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er launaskriðið 54% hærra en umsamdar almennar launahækkanir frá gerð síðustu kjarasamninga verkafólks. Þetta er minnisvarðinn sem þið reistuð ykkur til heiðurs og berið ábyrgð á skuldlaust. 

Framsýn og Verkalýðsfélag Akraness skora á Samtök atvinnulífsins að ganga í takt með launafólki  í stað þess að slá ryki í augu almennings. Himinháum auglýsingakostnaði Samtaka atvinnulífsins er án efa betur varið í vasa launafólks en í hræðsluáróður í fjölmiðlum.“ 

Húsavík/Akranes 22. nóvember 2013 

Verkalýðsfélag Akraness
Framsýn, stéttarfélag Þingeyinga

Þessir verkamenn þurfa að veiða sér til matar enda ekki á sambærilegum launum og þeir aðilar innan stjórnar SA sem vara við hækkun til verkafólks sem eru í dag með um 200 þúsund krónur á mánuði meðan þeirra laun telja í milljónum á mánuði. Svo eru menn að tala um að við séum að komast upp úr ruglinu sem varð til þess að þjóðarskútan strandaði árið 2008. Já, miklir menn hjá Samtökum atvinnulífsins.

Deila á