Kostnaður vegna debetkorta töluverður

Töluverður verðmunur er á þeim gjöldum sem bankar og sparisjóðir innheimta fyrir þjónustu sína. Viðskiptavinir greiða há þjónustugjöld fyrir marga þjónustuliði og innheimt er gjald ef stafsmenn bankans sjá um að framkvæma verk sem viðskiptavinir geta sjálfir gert í heimabanka eða þjónustusíma. MP banki er með viðskiptagjald 900 kr./mán. ef viðskipti viðskiptavinar eru undir viðmiðunarmörkum bankans. Þetta kemur fram í samanburði sem verðlagseftirlit ASÍ hefur gert á helstu þjónustugjöldum vegna debetkortareikninga í bönkum og sparisjóðum. 

Almennt debetkort
Flestir eru með eitt eða jafnvel fleiri debetkort. Margar tegundir eru í boði með misjöfnum kjörum eftir umfangi viðskipta. Í þessari samantekt er almennt debetkort skoðað nánar.  Af almennu debetkorti er innheimt árgjald sem er á bilinu 0-3.500 kr. mishá milli banka. Auk þess er innheimt gjald fyrir hverja færslu sem fer í gegnum posa í verslun og er ódýrasta posafærslan á 15 kr. hjá sparisjóðunum en dýrust á 30 kr. hjá MP banka. Sé farið í bankann og tekinn út peningur án þess að vera með kortið meðferðis er færslan ódýrust á 50 kr. hjá Íslandsbanka, Arion banka og sparisjóðunum, hún kostar 54 kr. í Landsbankanum en er dýrust á 350 kr. hjá MP banka. MP banki er eini bankinn sem býður upp á almennt debetkort án árgjalds en þá kostar posafærslan 30 kr. í stað 17 kr. sem bankinn innheimtir ef greitt er árgjald.  

Ýmiss annar kostnaður getur fylgt almennum debetkortareikningum. Sé t.d. innistæðulaus færsla á debetkorti kostar það  að lámarki 750 kr. fyrir hverja færslu  sé hún lægri en 5.000 kr. hjá Landsbankanum, sé færslan á bilinu 5.001-10.000 kr. er kostnaðurinn að lágmarki 1.410 kr. og fer svo stighækkandi eftir því sem upphæð innistæðulausu færslunnar hækkar. Það sama á við um aðrar fjármálastofnanir nema sparisjóðina, hjá þeim kostar innistæðulausa færslan alltaf 1.450 kr. Það kostar 500 kr. að fá nýtt pin númer sótt eða sent heim hjá öllum. Ódýrast er að fá nýtt kort hjá Íslandsbanka og Landsbanka eða 1.000 kr. en dýrast á 1.500 kr. hjá sparisjóðunum og MP banka.   

Tökum dæmi af debetkortaeiganda sem notar kort sitt að meðaltali 500 sinnum á ári, fer tvisvar sinnum yfir heimild á reikningi, tvisvar sinnum á ári fer hann til gjaldkera í banka og tekur út pening, fær eitt auka yfirlit sent heim á ári og einnig hringir hann í bankann fjórum sinnum á ári til að fá uppgefna stöðu reiknings. Þjónustugjöld vegna þessa eru á bilinu 7.485–29.785 kr. hjá MP banka, en þar er 900 kr./mán. gjald ef viðskiptavinur uppfyllir ekki kröfur bankans um umfang viðskipta. Hjá Íslandsbanka kostar þjónustan 12.135 kr., hjá Arion banka 12.095 kr., Landsbankanum 11.198 kr. og hjá sparisjóðunum 11.685 kr. 

Ekki er tekið tillit til úttekta í hraðbanka, en bankarnir rukka ekki viðskiptavini sína um úttektargjald, en rukka viðskiptavini annarra banka. Til að lækka kostnað við debetkort mælir verðlagseftirlitið með að viðskiptavinir fari í sinn viðskiptabanka og taki út pening með kortinu, en með því að nota seðla losnar viðskiptavinur undan því að greiða posagjald í hvert skipti sem hann verslar. 

Námsmannakort 18+
Ekkert árgjald er á námsmannakortum auk annarra fríðinda. En sem dæmi um fríðindi eru 150 fríar færslur hjá Íslandsbanka, Landsbanka og sparisjóðunum en Arion banki er með 50% afslátt á posagjaldinu, það fer úr 17 kr. í 8 kr. MP banki býður ekki upp á sérstakt námsmannakort.

Tökum dæmi af námsmanni sem notar kortið að meðaltali 500 sinnum á ári, fer 10 sinnum á ári til gjaldkera í banka og tekur út pening,  hringir í bankann 2 sinnum á ári til að fá uppgefna stöðu og fer yfir heimild á reikningi 4 sinnum á ári. Fyrir hann er debetkortið ódýrast á 9.250 kr. hjá Arion banka en dýrast á 11.900 kr. hjá sparisjóðunum.  

Sjá nánar niðurstöður í töflu

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði eða fríðindi þjónustunnar. 

Óheimilt er að vitna í þessa könnun í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ. (Heimild www.asi.is)

Deila á