Mikil vonbrigði með fjárlagafrumvarpið

Miðstjórn ASÍ lýsir yfir vonbrigðum með áherslur nýrrar ríkisstjórnar eins og þær birtast í fjárlagafrumvarpinu. Frumvarpið ber þess merki að fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar var að rýra verulega tekjustofna ríkisins. Þannig var veiðileyfagjald útgerðarinnar lækkað um milljarða á sumarþingi og virðisaukaskattur á ferðaþjónustuna lækkaður. Þá er boðað að afnema eigi auðlegðarskatt á árinu 2015 og að draga eigi úr tekjujöfnun skattkerfisins til framtíðar með því að falla frá þrepaskiptu skattkerfi. Samtals er hér um að ræða milljarða króna skattalækkun fyrir velstæð fyrirtæki og einstaklinga. Til að mæta þessu tekjutapi er skorið niður í okkar mikilvægustu velferðarstofnunum á borð við spítala, heilsugæslu, framhaldsskóla og símenntamiðstöðvar og í stuðningi við þá sem hafa verið án atvinnu lengi.

Jöfnuður í fjármálum ríkisins er mikilvægur vegna þess að við getum ekki leyft okkur að senda reikninginn fyrir viðvarandi hallarekstri á börnin okkar og ójöfnuður í fjármálum ríkisins kemur einnig í veg fyrir að hægt sé að ná stöðugleika í efnahagsmálum. Miðstjórn ASÍ áréttar hins vegar að til þess að ná slíkum stöðugleika þurfa allir þættir okkar þjóðlífs að hanga saman og þar skiptir félagslegur og tekjulegur jöfnuður og traust velferðarkerfi miklu máli. Til þess að sátt verði um stefnuna í ríkisfjármálum verður ríkisstjórnin að sýna það í verki að byrðum aðhaldsins sé réttlátlega skipt. Það er ekki gert í þessu frumvarpi til fjárlaga. Miðstjórn ASÍ kallar því eftir stefnubreytingu og leggur áherslu á mikilvægi þess að haldið verði áfram því mikilvæga verkefni að endurreisa velferðar- og menntakerfið.

Það eru mikil vonbrigði að ný ríkisstjórn virðist ekkert ætla að gera til þess að auka fjárfestingar og fjölga þannig störfum. Fjárfestingar ríkisins eru í sögulegu lágmarki og því kemur það verulega á óvart að falla eigi frá áformum um fjárfestingar sem ákveðnar höfðu verið.

Deila á