Formanni FFSÍ svarað í Morgunblaðinu

Í Morgunblaðinu í dag er grein eftir Aðalstein Á. Baldursson formann Framsýnar sem svarar formanni FFSÍ vegna skrifa hans um kjarasamning starfsfólks við hvalaskoðun sem Framsýn gekk frá við Samtök atvinnulífsins í ágúst. Hér má lesa greinina: 

Barist við vindmillu 

Árni Bjarnason formaður FFSÍ heldur áfram að skrifa um samkomulag Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins vegna starfsmanna við hvalaskoðun á Húsavík. Penninn hans Árna er í miklum ham og svífst einskis í grein í Morgunblaðinu 28. ágúst. Hvalaskoðun sem atvinnugrein er áfram töluð niður og þá ræðst hann að þeim sem þetta skrifar með sérstökum hætti og reyndar alvarlegum ósannindum, væntanlega til að gera meira úr eigin verkum. 

Hver notaði í raun copy/paste-skipunina?
Árni skrifar: “Fyrir skömmu skrifuðu SSÍ, FFSÍ og VM undir kjarasamning vegna sjómanna á smábátum. Sjómannasamband Íslands hafði veg og vanda af gerð kjarasamningsins, en í því tilviki hélt Aðalsteinn samningsumboðinu sínu heima í héraði og gerði þann samning að sínu verki með því einu að nota copy/paste-skipunina á tölvunni sinni og skreytti sig þar með með stolnum fjöðrum, fengnum með ærinni vinnu annarra. Sama er upp á teningnum hjá verkalýðsleiðtoganum í samningum við húsvísk hvalaskoðunarfyrirtæki.” 

Málflutningur á brauðfótum
Greinilegt er að Árni er ráðþrota þar sem hann fellur í þá gryfju að hagræða sannleikanum með grófum hætti samanber yfirlýsingu framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeiganda frá 30. ágúst vegna skrifa Árna í Morgunblaðið.  Hægt er að nálgast yfirlýsinguna í heild sinni inn á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda, www.smabatar.is  Meðal þess sem þar kemur fram er eftirfarandi: „Vegna þessa þykir undirrituðum rétt að greina frá því að eftir að SSÍ ákvað 9. október 2009 að hafna áframhaldandi viðræðum við LS um gerð kjarasamnings hóf Klettur (svæðisfélag LS Ólafsfjörður – Tjörnes) viðræður við Framsýn. Formenn félaganna héldu fjölmarga fundi og tók undirritaður þátt í nokkrum þeirra. Í mars 2011 var vinnan komin á það stig að drög að fullgerðum samningi voru kynnt félagsmönnum Kletts á Húsavík. Á þessum tíma gætti töluverðrar ókyrrðar hjá sjómönnum á smábátum og voru uppi raddir um stofna sér félag. Þeir kröfðust þess að gerður yrði kjarasamningur við þá. Við þessar aðstæður ákvað SSÍ að hefja aftur viðræður við LS. Klettur og Framsýn ákváðu þá að gera hlé á viðræðum sínum þar sem báðir aðilar vildu að samningur næðist um milli heildarsamtakanna, sem tókst með undirritun hjá ríkissáttasemjara fyrir réttu ári, þann 29. ágúst 2012. Það er skoðun undirritaðs að viðræður Framsýnar og Kletts og öll sú vinna sem aðilar lögðu þar á sig hafi átt stóran þátt í að heildarsamtök sjómanna ákváðu að hefja aftur viðræður við Landssamband smábátaeigenda sem lauk með gerð kjarasamnings.“ 

Ástæða til að biðjast afsökunar
Í ljósi þessar yfirlýsingar hvet ég Árna Bjarnason að biðjast afsökunar á ummælum sínum í minn garð og Framsýnar þar sem þau eiga ekki við rök að styðjast og eru afar ósanngjörn svo ekki sé meira sagt. Eins og yfirlýsingin ber með sér var Framsýn í samningaviðræðum við talsmenn smábátaeigenda um gerð kjarasamnings svo mánuðum skipti. Kjarasamningur milli aðila var klár á borðinu þegar SSÍ, FFSÍ og VM undirrituðu sinn kjarasamning og hafði þá þegar verið kynntur  fyrir smábátaeigendum á félagssvæði Kletts eins og fram kemur í yfirlýsingu framkvæmdastjóra LS. 

Hvað Árni á við með setningunni: “Sama er upp á teningnum hjá verkalýðsleiðtoganum í samningum við húsvísk hvalaskoðunarfyrirtæki”er eins og annað í grein Árna, gjörsamlega óskiljanlegt. Hvaða samningi var stolið þar sem þetta er fyrsta samkomulagið sem gert er fyrir starfsmenn við hvalaskoðun á Íslandi?  Árni hefði betur lesið yfir greinina áður en hún birtist undir hans nafni. Ég trúi því ekki að Árni hafi viljandi ákveðið að fara með rangt mál samanber yfirlýsingu Landssambands smábátaeigenda sem er mikill álitshnekkir fyrir hann og hans störf. Hugsanlega er honum alveg sama miðað við þessi skrif. 

Tek ekki þátt í leðjuslag
Ég sé ekki ástæðu til að taka frekar þátt í þessum leðjuslag Árna Bjarnasonar og mun því ekki skrifa ótilneyddur fleiri greinar um þetta mál á þessum vettvangi enda skrif hans utan vegar. Þess í stað mun ég einbeita mér að því að undirbúa kröfugerð fyrir félagsmenn Framsýnar vegna væntanlegra kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins í haust. Án efa ætti formaður FFSÍ að snúa sér að því líka en miðað við skrif hans er hann sáttur við stöðuna hjá fiskimönnum sem hafa verið samningslausir í nokkur ár. Markmið hlýtur hins vegar að vera að þétta raðir sjómanna þannig að hægt verði að koma í veg fyrir að framkomnar hugmyndir útgerðarmanna um verulegar skerðingar á kjörum sjómanna nái fram að ganga. Að sjálfsögðu kemur ekki til greina að LÍÚ komist upp með að rýra kjör sjómanna, það á heldur ekki að líðast að sjómenn séu samningslausir svo árum skiptir.

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Á. Baldursson, skrifar grein í Morgunblaðið í dag. Þar svarar hann Árna Bjarnasyni formanni FFSÍ sem fór með rangt mál í grein sem hann skrifaði í Morgunblaðið 28. ágúst og varðar kjarasamning fyrir smábátasjómenn sem Framsýn gekk frá á síðasta ári. Skrif Árna eru með miklum ólíkindum.

Deila á