Athugasemdir gerðar við skrif Árna Bjarnasonar

Að undanförnu hafa birst í Morgunblaðinu greinar eftir Árna Bjarnason formann FFSÍ og Aðalstein Árna Baldursson formann Framsýnar.  Í grein Árna 28. ágúst sl. er vikið að kjarasamningi LS við SSÍ, FFSÍ og VM.   Vegna þess sem þar kemur fram ákvað framkvæmdastjóri LS,  Örn Pálsson að senda frá sér svohljóðandi yfirlýsingu um helgina.

„Að undanförnu hafa birst í Morgunblaðinu greinar eftir Árna Bjarnason formann FFSÍ og Aðalstein Árna Baldursson formann Framsýnar. Í grein Árna 28. ágúst sl. er vikið að kjarasamningi LS og SSÍ, FFSÍ og VM um launakjör sjómanna á smábátum. Þar segir eftirfarandi: 

„Sjómannasamband Íslands hafði veg og vanda af gerð kjarasamningsins, en í því tilviki hélt Aðalsteinn samningsumboði sínu heima í héraði og gerði þann samning að sínu verki með því einu að nota copy/paste-skipunina á tölvunni sinni og skreytti sig þar með með stolnum fjöðrum, fengnum með ærinni vinnu annarra.“ 

Vegna þessa þykir undirrituðum rétt að greina frá því að eftir að SSÍ ákvað 9. október 2009 að hafna áframhaldandi viðræðum við LS um gerð kjarasamnings hóf Klettur (svæðisfélag LS Ólafsfjörður – Tjörnes) viðræður við Framsýn. Formenn félaganna héldu fjölmarga fundi og tók undirritaður þátt í nokkrum þeirra. Í mars 2011 var vinnan komin á það stig að drög að fullgerðum samningi voru kynnt félagsmönnum Kletts á Húsavík.  

Á þessum tíma gætti töluverðrar ókyrrðar hjá sjómönnum á smábátum og voru uppi raddir um stofna sér félag. Þeir kröfðust þess að gerður yrði kjarasamningur við þá. Við þessar aðstæður ákvað SSÍ að hefja aftur viðræður við LS. Klettur og Framsýn ákváðu þá að gera hlé á viðræðum sínum þar sem báðir aðilar vildu að samningur næðist um milli heildarsamtakanna, sem tókst með undirritun hjá ríkissáttasemjara fyrir réttu ári, þann 29. ágúst 2012. 

Ferli þetta verður ekki nánar rakið hér. 

Það er skoðun undirritaðs að viðræður Framsýnar og Kletts og öll sú vinna sem aðilar lögðu þar á sig hafi átt stóran þátt í að heildarsamtök sjómanna ákváðu að hefja aftur viðræður við Landssamband smábátaeigenda sem lauk með gerð kjarasamnings. 

Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda“

(Sjá frekar inn á smabatar.is)

Deila á