Stórkostlegum áfanga náð

Fyrr í dag skrifuðu fulltrúar Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins undir samkomulag um kjör, tryggingar og réttindi starfsmanna við hvalaskoðun á Húsavík. Samtök atvinnulífsins höfðu umboð hvalaskoðunarfyrirtækjanna til að ganga frá samningi við Framsýn en þrjú fyrirtæki stunda hvalaskoðun frá Húsavík.

Samningurinn markar tímamót þar sem ekki hefur verið til heildstæður samningur fram að þessu um kaup og kjör fólks sem starfar við þessa ört vaxandi atvinnugrein á Íslandi. Með samningnum sýna því Húsvíkingar ákveðið frumkvæði hvað varðar að hafa þessi þýðingarmiklu mál í lagi.

Starfsfólk hvalaskoðunarfyrirtækjanna á Húsavík hafa lengi krafist þess að komið yrði á samningi um kjör þeirra sem nú hefur tekist. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Á. Baldursson, segist ánægður með samkomulagið sem verði kynnt starfsmönnum í næstu viku.  Samkomulagið byggir á kjarasamningi sjómanna og fólks í ferðaþjónustu og hefur sama gildistíma og kjarasamningar á almenna vinnumarkaðinum.

Þess má geta að samningaviðræður hafa staðið yfir í marga mánuði með hléum, nú síðast óskaði Framsýn eftir aðkomu Ríkissáttasemjara að málinu sem unnið hefur að því með Samtökum atvinnulífsins og Framsýn að ná samkomulagi í deilunni.

Faldur sem er einn af hvalaskoðunarbátum sem gerðir eru út frá Húsavík kom í höfn í dag á svipuðum tíma og samkomulag um kjör starfsmanna var undirritað í höfuðstöðvum Samtaka atvinnulífsins í Reykjavík. Þetta eru miklar gleðifréttir. Hægt verður að sjá samkomulagið hér á heimsíðunni strax eftir helgina.

Deila á