Hlaupahátíð í Fnjóskadal – Fjögurra skóga hlaupið

 

Margt skemmtilegt og áhugavert er á döfinni í Þingeyjarsýslum þessa dagana. Eitt af því er mikil hlaupahátíð í Fnjóskadal og Vaglaskógi, þegar hið árlega „Fjögurra skóga hlaup“ verður haldið laugardaginn 27. júlí n.k..

Hlaupið sem fram fer í Fnjóskadal. Þar er hlaupið er eftir skógivöxnum hlíðum dalsins, eftir göngustígum, troðningum og malarvegum, yfir mela og lyngmóa, eftir bökkum Fnjóskár sem liðast silfurtær eftir dalnum endilöngum.

Fjögurra skóga hlaupið fer fram í suðurhluta Fnjóskadals 27. júlí 2013. Hægt verður að velja um fjórar vegalengdir 4.3 km., 10.3 km., 17.6 km. og 30.6 km. Öll hlaupin enda á sama stað, á íþróttavelli Umf. Bjarma sem staðsettur er við þjóðveg 1 (við Vaglaskóg) austan brúarinnar yfir Fnjóská. Keppendur mæta á Bjarmavöllinn þar sem boðið verður uppá akstur á upphafsstaði hlaupanna.

Ræst verður í hlaupin á mismunandi tíma, lengstu vegalengdina fyrst. Allar vegalengdirnar sameinast við gróðrarstöðina í Vaglaskógi síðustu 4.3 km. Í 30.6. km hlaupið er brottför af Bjarmavelli kl. 9.00. Ræsing kl. 9.45. Í 17.6. km. hlaupið er brottför af Bjarmavelli kl.10.30. Ræsing kl. 10.50. Í 10.3 km. hlaupið er brottför af Bjarmavelli kl.11.10. Ræsing kl.11.30. Í 4.3 km. hlaupið er brottför af Bjarmavelli kl. 12.00. Ræsing kl.12.20.

Þeir skógar sem hlaupið er eftir eru: Vaglaskógur , Lundsskógur, Þórðarstaðaskógur og Reykjaskógur.

Skráning í hlaupið fer fram á www.hlaup.is og lýkur föstudagskvöldið 26. júlí. Fyrir þá sem vilja frekari upplýsingar eða skrá sig hjá skipuleggjendum hafa samband við Ósk í síma 862-6073 eða netfangið okkah@hotmail.com. Heimasíða hlaupsins er http//thinghlaup.wordpress.com.

Keppnisgjald er hóflegt kr. 1.500 – 4.900. Innifalið í skráningargjaldinu er þátttökupeningur, verðlaun fyrir fyrstu sætin, flutningur keppanda á upphafsstaði, drykkir á stöðvum, tímataka og númer, brautarmerking, öryggisgæsla á leiðinni. Boðið verður upp á drykki á leiðarenda, auk þess sem við bjóðum öllum keppendum í kakó og kleinur að hlaupi loknu.

Ágóði af hlaupinu mun renna til Björgunarsveitarinnar Þingeyjar til kaupa á búnaði til sveitarinnar.

Deila á