Nokkur orð um stuðning við uppbyggingu á Bakka

Í ljósi umræðunnar sem verið hefur um hugsanlega uppbyggingu á Bakka telur heimasíða stéttarfélaganna rétt að birta hér grein sem Steingrímur J. Sigfússon skrifar um málið og varpar ljósi á það rétta í málinu. Sjá grein:

Misskilnings hefur gætt í opinberri umræðu um efni tveggja frumvarpa sem undirritaður lagði fyrir Alþingi og tengjast fyrirhugaðri uppbyggingu iðnaðarsvæðis í landi Bakka við Húsavík. Annars vegar er þar um að ræða að ríkið mun koma að og fjármagna hluta af nauðsynlegri innviðafjárfestingu á þessu nýja svæði, eins og jafnan hefur verið gert í fyrri hliðstæðum tilvikum. Hins vegar er aflað heimilda til að gera svonefndan ívilnunarsamning við þýska iðnfyrirtækið PCC sem hyggst reisa kísilver á Bakka. Ívilnunarsamningurinn byggir að uppistöðu til á nýlegum og reyndar nú nýbreyttum rammalögum um gerð slíkra samninga. Í tveimur tilvikum f.o.f. er þó gengið nokkru lengra í skattalegum ívilnunum á fyrstu 10 árum starfseminnar en rammalögin rúma. Fyrir því eru góð og gild rök sem betur verður komið að hér á eftir. Fyrir daga rammalöggjafar um slíka samninga vegna nýfjárfestingaverkefna voru sett sérlög um hvert og eitt stóriðjuverkefni og þá iðulega gengið mun lengra en nú stendur til, jafnvel þannig að ívilnanir stóðu í 20 til 40 ár.

Iðnaðargöng og höfn
Innviðarfjárfestingin samanstendur af þrennu:
                  (i)              Hafnarframkvæmdum á Húsavík; dýpkun, stækkun og byggingu stálþils
                  (ii)            Uppbyggingu vegtengingar frá iðnaðarlóð að höfn (ríflega 1 km löng jarðgöng)
                  (iii)           Þátttöku í kostnaði við grófjöfnun iðnaðarlóðar PCC á Bakka

Samtals nema útgjöld ríkisins við þessa innviðarfjárfestingu um 3,4 milljörðum króna og dreifast á nokkur ár á uppbyggingartímanum. Lang stærstur hluti þessara fjárfestinga snúa að hafnargerð og vegtengingu sem mun nýtast, ekki aðeins kísilveri PCC heldur, öllum þeim fyrirtækjum sem ákveða í framtíðinni að byggja upp starfsemi á svæðinu. Um er að ræða nauðsynlegan stofnkostnað, einskiptis fjárfestingu til framtíðar sem fleiri munu njóta góðs af. Raunar er líklegt að þegar fyrsta fyrirtækið hefur riðið á vaðið og ákveðið að hefja starfsemi á Bakka þá fylgi fleiri fljótlega í kjölfarið.

Að hálfu stjórnvalda og Landsvirkjunar hefur verið lögð áhersla á að orkan í í Þingeyjarsýslum verði nýtt til atvinnuuppbyggingar í héraði. Þeir virkjanakostir sem um ræðir eru allir flokkaðir í nýtingarflokk í nýsamþykktri Rammaáætlun. Landsvirkjun metur það svo að um leið og ísinn hefur verið brotinn og starfsemi hafin þá verði svæðið með áhugaverðari kostum fyrir minni og meðalstór iðnfyrirtæki. Á bakvið er orka háhitasvæðanna í Þingeyjarsýslum með þann augljósa kost að hægt er að auka framleiðsluna í áföngum í samræmi við þarfir hvers og eins.

Mikil fjárfesting
Áformuð fjárfesting PCC í kísilveri á Bakka, þ.e. fyrri áfanga uppá 33 þúsund tonna framleiðslu, er áætluð 170 milljónir evra eða um 28 milljarðar króna. Á uppbyggingartíma, sem er um þrjú ár, verða um 400 starfsmenn við vinnu. Einnig verða til fjölmörg störf við byggingu vegtengingar og stækkun hafnarinnar. Þá verða umtalsverðar framkvæmdir og umsvif tengd byggingu virkjana og línulagna. Starfsmannafjöldi kísilversins verður í upphafi um 120 -130 manns en fjölgar í hátt í 200 við tvöföldun framleiðslunnar sem er áformuð fljótlega eftir að rekstur fyrri áfanga hefst. Ljóst er því að veruleg umsvif munu fylgja allri þessari uppbyggingu í Þingeyjarsýslum á næstu árum. Þá munu bæði ríki og sveitarfélagið njóta góðs af auknum umsvifum í formi tekjuskatts og útsvars og óbeinna skatta, sem engin afsláttur er veittur af, og þannig fá upphafsstuðning sinn við verkefnið margfalt til baka.

Kalt svæði
Fyrir liggur að íbúum hefur fækkað í Þingeyjarsýslum á síðustu árum og atvinnumöguleikar eru víða fábrotnir þótt t.d. ferðaþjónusta að sumri sé víða blómleg nú seinni árin. Mikið áhyggjuefni er hversu meðalaldur hefur hækkað á svæðinu og víða fækkað í grunn- og framhaldsskólum, þó frá því séu sem betur fer undantekningar. Í byggðalegu tilliti má því segja að Þingeyjarsýslur séu kalt svæði og fyrirhuguð uppbygging á Bakka er því mikilvæg í því ljósi eins og fram kemur í sérstakri greinargerð frá Byggðastofnun. Þar er strax komin veigamikil röksemd fyrir því að styðja við verkefnið með ívilnunarsamningi. Önnur er sú að hér er ný tegund iðnaðar að koma inn í landið og verið að opna upp nýtt svæði og þar með fjárfesta í fjölbreyttari þróunarmöguleikum fyrir iðnaðaruppbyggingu í landinu til framtíðar litið. Svæðið liggur langt frá núverandi þungamiðjum slíkrar starfsemi í landinu, á Suðvesturhorninu og Austfjörðum, og við slíkar aðstæður þarf oft nokkuð til að brjóta ísinn. Samkvæmt evrópskum reglum sem Ísland hefur undirgengist um slíkar ívilnanir eða opinberan stuðning er horft til byggðakortsins svonefnda þegar lagt er mat á hversu langt er heimilt að ganga. Stuðningurinn við uppbyggingu á Bakka er langt innan leyfilegra marka en um leið eru fyrir því góð og gild rök að ganga ívið lengra en þörf er á að gera annars staðar til að koma uppbyggingunni af stað eins og hér hefur verið rökstutt. Loks er þess að geta að þjóðhagslega hefur fjárfesting af þessari stærðargráðu umtalsverð jákvæð og vel merkjanleg áhrif. Gert er ráð fyrir að landsframleiðsla aukist um a.m.k. 0,3% sem ætti að vera flestum fagnaðarefni, ekki síst þeim sem mikið kvarta undan ónógri fjárfestingu. 

Steingrímur J. Sigfússon

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis

Deila á