Sambandsleysi stjórnvalda og ASÍ óþolandi

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar sem jafnframt er samninganefnd félagsins kom saman til fundar í gær til að ræða forsendur gildandi kjarasamninga. Að mati félagsins eru forsendurnar löngu brostnar og því blasir við uppsögn samninga nema Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld sýni ábyrgð og komi til móts við kröfur verkalýðshreyfingarinnar um breytingar á gildandi kjarasamningum. Þá liggur fyrir að stjórnvöld verða að koma að málinu með aðgerðum. Framsýn telur því ólíðandi að Alþýðusambandið hafi slitið samstarfi við stjórnvöld. Það sé ekki leiðin til að skapa stöðuleika í þjóðfélaginu sem sé verkafólki sérstaklega mikilvægur um þessar mundir.  Fundurinn taldi mikilvægt að álykta um málið. 

Ályktun
Um stöðu kjaramála 

„Í ljósi stöðunnar sem liggur fyrir, það er að forsendur gildandi kjarasamninga séu brostnar, telur Framsýn- stéttarfélag mikilvægt að viðsemjendur og stjórnvöld leiti allra leiða til að koma í veg fyrir að þeir falli úr gildi í lok janúar. 

Leiðin til þess er að atvinnurekendur komi til móts við verkalýðshreyfinguna og hækki laun umfram 3,25% umsamdar launahækkanir 1. febrúar. Jafnframt því sem stöðuleiki verði skapaður í þjóðfélaginu með aðkomu stjórnvalda. Launþegar hafa ekkert að gera með launahækkanir sem fara beint út í verðlagið með hækkandi verðbólgu. Það er að pissa í skóinn sinn.  

Framsýn hvetur Alþýðusamband Íslands til að leita allra leiða til sættast við núverandi stjórnvöld. Forsendan fyrir því að hægt verði að bæta stöðu félagsmanna Alþýðusambandsins er ekki síst gott samstarf við stjórnvöld á hverjum tíma. Það þjónar ekki hagsmunum verkafólks að stjórnvöld og ASÍ tali ekki saman um málefni er snerta alþýðu landsins, það kennir sagan okkur.“

Deila á