Megn óánægja með vinnubrögð Vinnumálastofnunar

Þó nokkrir fyrrverandi atvinnuleitendur hafa haft samband við Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík síðustu daga vegna óánægju með bréf sem þeim hafa borist frá Greiðslustofu Vinnumálastofnunar. Í bréfinu sem stílað er 7. janúar 2013 kemur m.a. fram:

„Vinnumálastofnun tilkynnir hér með að skuldir sem urðu til hjá atvinnuleitendum á árum 2009 og 2010 hafa að hluta verið felldar niður. Um er að ræða skuldir sem mynduðust vegna minnkaðs starfshlutfalls, vegna tekna í hlutastarfi, vegna tilfallandi tekna og í afmörkuðum tilfellum vegna ákvarðana stofnunarinnar.“  

Þá kemur jafnframt  fram að ofgreiddar atvinnuleysisbætur verði innheimtar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 52/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Eðlilega er megn óánægja hjá þeim atvinnuleitendum sem eiga í hlut en þeim er gert að greiða til baka töluverðar upphæðir. Þeir töldu sig vera skuldlausa við Vinnumálastofnun enda gengu þeir frá öllum sínum málum við stofnunina þegar þeir sóttu um bætur á sínum tíma vegna samdráttar. Ekki síst þeir sem voru á hlutabótum á þessum tíma á móti atvinnutekjum vegna samdráttar í atvinnulífinu. Á þessum árum voru fyrirtæki hvött af stjórnvöldum til að segja ekki upp starfsmönnum, þess í stað var þeim tilmælum beint til þeirra að lækka frekar starfshlutfallið samkvæmt ákveðnum reglum, þannig að starfsmennirnir héldu vinnunni og fengju á móti hlutabætur hjá Atvinnuleysistryggingasjóði.

Þeir aðilar sem hafa haft samband höfðu ekki hugmynd um að þeir skulduðu Greiðslustofu Vinnumálastofnunar ofreiknaðar atvinnuleysisbætur og þá vekur jafnframt furðu þeirra, að nú þremur árum síðar sé verið að innheimta „skuld“  sem varð til vegna ársins 2009.

Framsýn mun taka málið til skoðunar fyrir félagsmenn í samstarfi við lögmenn félagsins.

Deila á