Magnað framtak

Skákfélagið Goðinn-Mátar hafa ákveðið hvernig félagið ætlar að halda upp á Íslenska skákdaginn 26 janúar nk. á Húsavík.  Við munum taka höndum saman við Velferðarsjóð Þingeyinga og safna peningum fyrir sjóðinn. 

Söfnunin fer þannig fram að félagsmenn Goðans-Máta munu vera í anddyri Kaupfélagshússins á Húsavík, framan við matvörubúðina Kaskó. Þar geta gestir og gangandi teflt við félagsmenn hraðskákir og greitt fyrir það að lágmarki 500 kr fyrir skákina. Eins geta þeir sem vilja greitt meira. Allt fé sem safnast með þessum hætti mun renna til velferðarsjóðsins. 

Goðinn-Mátar mun senda völdum einstaklingum, í Þingeyjarsýslu og á Húsavík áskorun, stimplaða af sýslumanni Þingeyinga Svavari Pálssyni, um þátttöku í þessari söfnun.

Verði þeir ekki við áskoruninni verða þeir sóttir af fulltrúa sýslumanns.

Ef svo ólíklega fari að einhver gestur vinni einhvern félagsmann verður viðkomandi umsvifalaust innlimaður í félagið og fær fyrsta árgjaldið að félaginu fellt niður með sýslumannsúrskurði. 

Þessar upplýsingar koma fram í Fréttatilkynningu sem Hermann Aðalsteinsson formaður Goðans skrifar undir. Hægt er að hafa samband við hann í eftirfarandi síma 4643187 eða 8213187.

Skáfélagið Goðinn hefur verið að gera frábæra hluti í öflugu félagsstarfi. Nú hafa þeir ákveðið að safna til styrktar Velferðarsjóði Þingeyinga. Frábært framtak hjá félaginu. Skorað er á sem flesta að taka þátt í verkefninu og safna þannig penningum til styrktar góðu málefni.

Deila á