Vonbrigði með fjárfestingarform stjórnvalda

Miðstjórn Samiðnar sem Þingiðn á aðild að harmar að fjárfestingaráform ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð síðustu kjarasamninga hafi ekki gengið eftir og lítur á það sem brot á samkomulagi að enn sé dráttur á að framkvæmdir hefjist. Ályktun miðstjórnarfundar Samiðnar haldinn 24. og 25. september 2012 á Akureyri er svohljóðandi:

„Miðstjórn Samiðnar lýsir yfir miklum vonbrigðum með að áform stjórnvalda um fjárfestingar hafi ekki gengið eftir og telur það brot á samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar sem gert var í tengslum við síðustu kjarasamninga.
Miðstjórnin skorar á ríkisstjórnina og Alþingi að ljúka nú þegar ákvörðunartöku og undirbúningi fyrir byggingu nýs Landspítala og nýs fangelsis svo hægt verði að hefja framkvæmdir strax á nýju ári. Nú þegar verði bygging Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur boðin út. Hafnar verði framkvæmdir í vegagerð m.a. á suðvesturlandi og lokið verði við fjármögnun Vaðlaheiðarganga. Miðstjórn ítrekar jafnframt áskorun sína til Alþingis að afgreiða rammaáætlun fyrir áramót og tryggja að ekki verði um flokkpólitísk inngrip í hana.
Þá skorar miðstjórn Samiðnar á velferðaráðherra að ljúka nú þegar endurskoðun á lögum um húsnæðisstuðning og skapa þar með ungu fólki möguleika á öruggu húsnæði.
Ljúki Alþingi og ríkisstjórn ekki afgreiðslu þessara mála fyrir áramót er ljóst að framkvæmdir dragast fram á árið 2014. Slíkur seinagangur væri ábyrgðarleysi sem mun leiða til verri lífskjara launafólks og hægja á þeim efnahagsbata sem gert var ráð fyrir þegar núverandi kjarasamningar voru samþykktir.“

Deila á