Gleði í Karphúsinu í dag

Rétt í þessu var skrifað undir kjarasamning milli Framsýnar- stéttarfélags og Landssambands smábátaeigenda vegna sjómanna á smábátum að 15 brúttótonnum í húsnæði Ríkissáttasemjara.  Kjarasamningurinn nær yfir félagsvæði Framsýnar, það er þrjá útgerðarstaði; Húsavík, Kópasker og Raufarhöfn. Samningurinn gildir til 31. janúar 2014.

Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar sagðist í samtali við heimasíðuna vera mjög ánægður með samninginn. Viðræður hefðu staðið milli aðila undanfarna mánuði með hléum. Um tímamótasamning væri um að ræða þar sem félagsmenn Framsýnar hefðu fram að þessu, líkt og aðrir smábátasjómenn á Íslandi, ekki haft kjarasamning um  sín kjör og réttindi. Kjarasamningurinn væri í anda þess samnings sem Sjómannasambandið hefði gengið frá við Landssamband smábátaeigenda í vikunni. Þess ber að geta að Framsýn eitt félaga innan Sjómannasambandsins ákvað að veita sambandinu ekki samningsumboð f.h. félagsmanna og fór félagið því sjálft með samningsumboðið.

Að sögn Aðalsteins verður samningurinn kyntur fyrir félagsmönnum á næstu vikum auk þess sem hann fer í atkvæðagreiðslu meðal sjómanna á smábátum. Hann sagðist vonast til að samningurinn yrði samþykktur.  Niðurstaða úr atkvæðagreiðslunni  mun liggja fyrir í byrjun október. Aðalsteinn taldi rétt að þakka Samninganefnd Landssambands smábátaeigenda og Ríkissáttasemjara Magnúsi Péturssyni fyrir samstarfið við gerð samningsins sem hefði verið ánægjulegt. Að sjálfsögðu hefðu menn tekist á en vinnan hefði skilað tímamóta kjarasamningi.

Formaður Framsýnar og Haukur Hauksson smábátasjómaður og stjórnarmaður í Sjómannadeild Framsýnar skrifuðu undir kjarasamninginn í dag fyrir hönd félagsins eftir marga mánaða vinnu með hléum.

Það var öflug sveit frá Landssambandi smábátaeigenda sem tókst á við fulltrúa Framsýnar um kjarasamning fyrir smábátasjómenn. Pétur Sigurðsson, Örn Pálsson og Arthur Bogason eru hér að yfirfara samningsdrögin í dag.

Magnús Pétursson fer yfir samninginn áður en samningsaðilar skrifuðu undir hann.

Haukur Hauksson skrifar undir samninginn fh. sjómanna innan Framsýnar.

 

Vöfflurnar gerðar klárar eftir undirskriftina eins og hefð er fyrir. Örn Pálsson og Magnús Pétursson hjálpuðust að við baksturinn.

 Rosalega eru vöfflurnar góðar hjá strákunum.

Deila á