Óþolandi framkoma

Töluvert hefur verið um í sumar að starfsfólk í ferðaþjónustu á félagsvæði Framsýnar hafi leitað til Skrifstofu stéttarfélaganna eftir aðstoð þar sem brotið hefur verið á þeirra réttindum. Í sumum tilvikum mjög alvarlega.  Sérstaklega er varðar kjaramál, aðbúnaðarmál og ákvæði um vinnu- og hvíldartíma. Því miður hefur orðið töluverð aukning á brotamálum milli ára. Sem betur fer eru flest fyrirtæki í ferðaþjónustu með sín mál í lagi en samt sem áður eru alltof mörg fyrirtæki sem fara ekki eftir skráðum reglum. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Á. Baldursson, telur það óþolandi með öllu og blett á ferðaþjónustunni sem miklar vonir eru bundnar við. Í því sambandi muni Framsýn standa vörð um réttindi og kjör starfsmanna með það að leiðarljósi að fyrirtæki komist ekki upp með neitt annað en að virða gildandi kjarasamninga og lög. Þá segir Aðalsteinn að reglulega berist ábendingar til skrifstofunnar frá ferðaþjónustuaðilum sem séu með sín mál í lagi um að félagið vakti þau fyrirtæki í ferðaþjónustu sem séu ekki að standa sig. Þar eru forsvarsmenn fyrirtækjanna að vitna til samkeppnissjónamiða því óeðlilegt sé að ferðaþjónustuaðilar sitji ekki við sama borð varðandi það að standa skil á launum og þeim gjöldum sem fylgja því að vera með fólk í vinnu. Aðalsteinn segir að Framsýn taki þessum ábendingum alvarlega og fullur vilji sé til þess innan félagsins að vinna með Samtökum ferðaþjónustuaðila, Starfsgreinasambandi Íslands og Ríkisskattstjóra gegn svartri atvinnustarfsemi og brotum á réttindum starfsmanna.

Deila á