Verður kjarasamningum sagt upp?

Boðað hefur verið til formannafundar á vegum ASÍ í dag kl. 13:00. Til stóð að fulltrúar frá Þingiðn, Framsýn og Verkalýðsfélagi Þórshafnar færu á fundinn en vegna veðurs í morgun komust þeir ekki suður og munu því ekki taka þátt í fundinum. Á formannafundinum verður farið yfir forsendur kjarasamninganna og hvort ástæða sé til að segja þeim upp eins og heimilt er að gera enda hafi forsendur ekki staðist. Ljóst þykir að forsendurnar hafi ekki staðist vegna vanefnda stjórnvalda. Við munum vera með fréttir af fundinum síðar í dag eða á morgun. 

Í gær stóð svo Starfsgreinasamband Íslands fyrir fjörugum formannafundi. Í lok fundar var eftirfarandi ályktun samþykkt sem lýsir vel andrúmsloftinu á fundinum: 

 „Formannfundur Starfsgreinasambands Íslands haldinn þann 18. janúar 2012 lýsir yfir miklum vonbrigðum með vanefndir ríkisstjórnarinnar á loforðum sem gefin voru í tengslum við undirritun kjarasamninga. Aðilar vinnumarkaðarins hafa staðið við öll ákvæði samninga en það er ólíðandi að kjarasamningar skuli vera í uppnámi vegna vanefnda ríkisstjórnarinnar. Það er ámælisvert að ríkisstjórnin skuli enn ekki hafa staðið við fyrirheit sín og að íslenskt verkafólk geti ekki treyst yfirlýsingum hennar. Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands  krefst þess að ríkisstjórnin efni loforð sín tafarlaust.“

Deila á