Glæsileg Torgarahátíð framundan

Átthagafélag Torgara hefur ákveðið að blása til hátíðar 19. – 20. ágúst. Hér má sjá glæsilega dagskrá sem verður í boði á Torgarahátíðinni:

Áttagafélag Torgara
640 Húsavík

5. tbl. Enn betri árgangur, gjört samdægurs um klukkan 1700
Hönnun, prentun og litgreining: Prentverk Torgara©™

 HUNDADAGAGLEÐI ÁTTHAGAFÉLAGS TORGARA 2011

 Föstudagur 19. ágúst: Sagnaþing Torgara hefst

Kl. 20:00 Þingsetning á Ingólfstorgi
Sagnameistarar, allt frá landnámi Garðars Svavarssonar, rifja upp gamlar og sannar sögur af minnistæðum Torgurum.

Frjálsar samræður um sagnahefð þar sem því verður velt upp hvort ekki sé full ástæða til  að innleiða sagnahefð í grunnskóla landsins.

 Ljúf harmónikutónlist frá miðöldum verður leikin í bland við þjóðlega íslenska tónlist milli atriða á Sagnaþinginu.

 Því næst verður gengið til náða.

 Laugardagur 20. ágúst:      Torgarahátíðin 2011

Kl. 10:00                  Fánar dregnir að húni á Rauðatorginu og víðar um héruð.

Kl. 16:00                  Kröfuganga um Torgið, safnast saman við Árholt.

Kl. 16:30                  Safnast saman við Ingólfstorg.

Fánahylling – hátíðin sett – Torgaraóðurinn sunginn – nýir Torgarar teknir í söfnuðinn – leikir- ratleikur um Torgið og víðlendur þess.

Kl. 17:30  Kappleikur í knattspyrnu milli miðbæinga og Torgara. Liðstjóri miðbæinga verður Helgi Helgason frá Grafarbakka.  Heyrst hefur að miðbæingar þori ekki að mæta ofjörlum sínum af Torginu. Mikil spenna er því í loftinu.

Kl. 19:00   Kvöldverður. Grillað verður við Vilpu og Sólvelli 6. Torgarar sjá sjálfir um matföng og drykki. Grill verða á staðnum.

Kl. 20:00   Hátíðarsamkoma í Skrúðgarðinum:             

                   Torgarasöngurinn – framkomnar ályktanir bornar upp og samþykktar – ávarp gesta – heimþrá Torgara – ávarp nýbúa – framtíðarsýn Torgara –  dansiball – dagskrárlok verða kl 24:00.

Milli dagskráliða verður boðið upp á  frábær tónlistaratriði sem enginn hefur séð áður og  sem verða ekki endurtekin á þessari öld. Heimsviðburðir gerast nefnilega á Torginu við Búðarána. 

 Kæru samborgarar!

Nú er komið að fimmtu Torgarahátíðinni okkar.  Eins og fram kemur hér að framan ætlum við að hita upp strax á föstudagskvöldið með Sagnaþingi.  Aðaldagskráin verður svo að sjálfsögðu á laugardeginum.  Undirbúningsnefnd Átthagafélags Torgara þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lagt hafa málefninu lið og stuðlað að því að gera þessa hátíð mögulega fyrir þeirra framlag.

 Hér að framan er dagskráin eins og hún liggur fyrir að hálfu undirbúningsnefndar.  Hins vegar viljum við taka það skýrt fram að dagskráin getur breyst því Torgarar eru óútreiknanlegir og hver og einn getur átt óvænta innkomu þegar minnst varir og raskað þar með dagskránni.  Enda er dagskráin sem slík ekki aðalatriðið.  „Maður er manns gaman“ stendur þar og það er aðalatriðið.  Við ætlum að hittast og eiga sameiginlega samverustund, rifja upp gömlu góðu stemminguna og skemmta hver öðrum í bland við þátttöku góðra gesta.  Það eitt er nægjanleg ástæða til að hittast á Torgarahátíð.

 Nokkrir þarflegir punktar:

  1. Tilmæli til íbúa Torgsins sem eiga flaggstangir. Dragið íslenska fánann að húni kl. 10, laugardaginn 20. ágúst.
  2. Tilmæli til fólks sem býr utan Torgs.  Bílastæði eru við Grænuvelli.
  3. Við vekjum athygli á því að Torgið og Skrúðgarðurinn, það svæði sem hátíðin fer fram á, er einn fegursti hluti bæjarins.  Brýnt er því að fólk gangi vel um svæðið og hendi rusli í þar til gerða sorppoka sem verða á svæðinu.
  4. Minjagripir verða seldir á laugardag við upphaf skrúðgöngunnar frá  Árholti.
  5. Við viljum benda fólki á að taka með sér sólstóla og borð á hátíðina.
  6. Þá er velþegið að menn hafi með sér kröfuspjöld í kröfugönguna.

 Átthagafélag Torgara

Deila á