Ágúst Óskarsson með þjóðhátíðarræðuna á Húsavík

Okkar maður, Ágúst Óskarsson starfsmaður Skrifstofu stéttarfélaganna, var með hátíðarræðinuna á Húsavík á þjóðhátíðardaginn. Þema dagsins var 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar. Hér má lesa ræðuna:

Ágætu Húsvíkingar, Þingeyingar og aðrir hátíðargestir.

Það er mér sannur heiður að fá að ávarpa ykkur hér á sextugustu og áttundu lýðveldishátíðinni sem haldin er á Húsavík. Árið 1944, fyrir 67 árum, þegar óöld ríkti í hinum vestræna heimi, ákváðu Íslendingar í þjóðaratkvæðagreiðslu að losa sig undan konungssambandi við Danmörku og stofna lýðveldið Ísland. Á þessum tíma höfðu Íslendingar haft erlendan þjóðhöfðingja sem æðsta leiðtoga þjóðarinnar samfellt frá árinu 1262  þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd með samþykkt Gamla sáttmála. Þá töpuðum við sjálfstæði okkar vegna græðgi og eiginhagsmuna nokkurra einstaklinga og sundurlyndis valdastéttarinnar. Fólkið í landinu sat uppi með skaðann. Með þrautsegju þjóðarinnar og talsmanna hennar tókst að fá einveldi Danakonungs aflétt árið 1848, nýja stjórnarskrá árið 1874, fullveldi innan Danska konungsdæmisins árið 1918 og fullt lýðræði árið 1944. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 1944 samþykktu rúmlega 97% landsmanna að segja upp sambandslagasamningnum. Sett var ný stjórnarskrá sem fól í sér að íslenskur forseti varð þjóðhöfðingi okkar í stað dansks konungs. Við stöndum í þakkarskuld við það fólk sem háði baráttuna til sjálfstæðis og frelsis fyrir íslensku þjóðina. Tákngerfingur og sporgöngumaður þessarar baráttu er Jón okkar Sigurðsson. Í dag minnumst við þess að 200 ár eru frá fæðingu hans. Jón Sigurðsson var oft nefndur forseti. Hann var þó aldrei forseti í þeim skilningi sem við almennt þekkjum. Forsetatignin vísar til forsetu hans í Bókmenntafélaginu til fjölda ára. Hann fæddist við Hrappseyri við Arnarfjörð árið 1811. Elstur þriggja systkina. Uppvaxtarsaga hans er líkt og annarra Íslendinga á þessum tíma og síðar, lýginni líkust, hann stundaði störf í sveitinni sem barn og hóf sjómennsku 13 ára. Strax sást að þar var efnispiltur á ferð, drengur sem ekki lét troða á réttindum sínum. Strax á fyrsta ári sjómennskunnar krafðist hans fulls kaups, í stað hálfra launa eins og tíðkaðist með unga menn. Knappur fjárhagur fjölskyldunnar hefur eflaust haft þau áhrif að faðir hans kenndi honum heima til stúdentsprófs. Námsefnið var það sama og í Bessastaðaskóla, aðaláherslan var á latínunámið.  Árið 1829 fór hann til Reykjavíkur og tók stúdentsprófið hjá Dómkirkjuprestinum og vann í verslun frænda síns.  Árið 1833 trúlofaðist hann Ingibjörgu Einarsdóttur, áður en hann fór einn til náms og starfs í málvísundum í Kaupmannahöfn.  Jón var kjörin á Alþingi árið 1844 og sat á því til ársins 1877, á þeim tíma starfaði það í nokkrar vikur á ári.  Jón og kona hans höfðu ávallt fasta búsetu í Kaupmannahöfn.  Jón Sigurðsson taldi að Ísland hefði alla burði til að sjá um sín eigin málefni. Til þess að svo mætti verða og landinu ætti að farnast vel, þyrftu Íslendingar að öðlast fullt löggjafarvald, eigin stjórnarskrá og fjárhag, jafnrétti og innlenda stjórn. Reynslan hefði sýnt að það væri ómögulegt að stjórna Íslandi frá Danmörku. Þekking Jóns Sigurðssonar á sögu, bókmenntum, atvinnuháttum og aðstæðum Íslendinga og ást hans á íslensku fólki, máli þess og menningu, auðveldaði honum að verða sá foringi sem hann og varð. Hann var bardagamaður, einarður og ósérhlífinn, fylginn sér og harðsnúinn. En hann barðist hvorki með byssu né sverði heldur var orðsins brandur og söguleg rök helstu vopn hans.  Með röksemi, bréfa- og blaðaskrifum og virkri þátttöku í samfélaginu í Kaupmannahöfn og Íslandi í 40 ár, beit hvass vöndur hans á dönsku valdastéttina og konunginn og Íslendingar uppskáru aukin lýðréttindi. Barátta hans og annarra að hans kynslóð varð þeim sem á eftir komu innblástur til frekari afreka sem endaði með fullu sjálfstæði og stofnun Lýðveldisins Íslands árið 1944.  Í umfjöllun um þennan merkilegasta baráttumann þjóðarinnar verður ekki hjá því komið að rifja upp hans aðal vörumerki, ef svo má að orði komast:

VÉR MÓTMÆLUM ALLIR hljómaði í háróma kór þjóðfundarmanna árið 1851 sem tóku undir með foringja sínum, þegar fulltrúar Danakonungs ætlaðu að fá þá til að samþykkja stjórnskipun sem tók að litlu leiti mið af skoðunum og hagsmunum Íslendinga.

 Jón og Ingibjörg kona hans féllu frá árið 1879.  Á okkur hvílir sú ábyrgð að njóta þess sjálfstæðis og frelsis sem okkur var fært með baráttu forfeðranna og gæta þess að misnota það ekki eða glata í fljótræði.  Íslendingar hafa gert samninga við samtök þjóða bæði vestan og austanhafs sem takmarka það frelsi og fullveldi sem áunnist hafði. Við þurfum að gæta okkar í hverju skrefi sem við stígum í þessu sambandi, en vera jafnframt reiðubúin að nýta okkur tækifæri sem felast í samvinnu þjóðanna.  Eiginhagsmunagæsla, græðgi og sundurlindi þeirra sem eiga að teljast fulltrúar okkar, má ekki verða til þess að glötum aftur sjálfstæðinu og yfirráðum yfir landi okkar.  Höldum vörð um frelsi okkar og hugsum af virðingu til Jóns Sigurðssonar, sjálfstæðishetju okkar, hann beitti huga, hönd og rödd sinni en tók aldrei upp sverð.  

Ágætu hátíðargestir, til hamingju með daginn og góða skemmtun.

Deila á