Kynningarfundur um nýjan kjarasamning á Húsavík

Í gær var haldinn félagsfundur í fundarsal stéttarfélaganna á Húsavík um nýgerðan kjarasamning Framsýnar við Samtök atvinnulífsins.  Fundurinn var einn af mörgum í fundaherferð félagsins um kjarasamninginn og innihald hans.  Á annað hundrað manns hafa mætt á félags- og vinnustaðafundi um samninginn sem haldnir hafa verið víða um félagssvæðið.  Auk kynninga á fundunum hefur  félagsmönnum boðist að kjósa um kjarasamninginn að loknum fundum.

Skiptar skoðanir hafa verið um samninginn og orðið miklar umræður á fundunum um ágæti hans.  Fyrr í gær var kynningarfundur í Mývatnssveit  og lýkur fundaherferðinni í kvöld með kynningu á Breiðumýri klukkan 20:00.  Skorað er á félagsmenn í Framsýn til að mæta á fundinn til að kynna sér kjarasamninginn og kjósa um hann.  Einnig er hægt að kjósa á skrifstofu félagsins á Húsavík.

Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar fór yfir efni kjarasamningsins og svaraði spurningum fundarmanna um samninginn.

Fundarmenn spurðu ítarlega um samninginn og urðu á köflum fjörugar umræður á fundinum.

Deila á