Úthlutun orlofshúsa að ljúka

Nú ættu flestir þeir sem sóttu um orlofshús hjá stéttarfélögunum í sumar að vera búnir að fá bréf eða símtal um stöðu þeirra umsókna.  Alls bárust ríflega 130 umsóknir um orlofshús og var ásóknin mest í orlofshúsin um verslunarmannahelgina.

Þeir sem fengu úthlutun hafa þegar fengið sent bréf þess efnis og hafa þeir frest til 20. maí til að ganga frá greiðslu og staðfesta þar með að þeir hyggist nýta sér orlofshúsið eða semja um greiðslufrest.  Öðrum umsækjendum býðst að nýta sér þær vikur sem eftir standa ef það hentar þeim.

Félagsmenn í Framsýn geta nýtt sér 100 ára afmælisgjöfina sína upp í greiðslu á orlofshúsi í sumar og hafa nokkrir félagsmenn þegar nýtt sér þann kost.  Þeim, sem hyggjast nýta sér gjöfina, er bent á að láta vita á skrifstofu stéttarfélaganna í síma 464-6600 eða senda tölvupóst þess efnis á nina@framsyn.is.

Starfsfólk stéttarfélaganna mun á næstu dögum klára úthlutunina.  Í framhaldinu verður þeim sem sóttu um orlofshús, en fengu ekki úthlutun, boðið að velja úr þeim vikum sem standa eftir.  Verði enn lausar vikur eftir það munu þær verða auglýstar á heimasíðunni.