Fundir stóðu yfir í allan dag um kjaramál

Fulltrúar Framsýnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar funduðu í dag með Samtökum atvinnulífsins um sérmál, fiskvinnslufólks, starfsfólks í kjötvinnslum og í ferðaþjónustu. Þá funduðu þeir einnig með fulltrúum Launanefndar sveitarfélaga sem eru m.a. með umboð sveitarfélaganna í Þingeyjarsýslum til kjarasamningsgerðar. Fundirnir voru vinsamlegir og miðar viðræðum áfram. Launaliðurinn var ekki til umræðu í dag nema hvað fulltrúar stéttarfélaganna ítrekuðu kröfur þeirra um 200 þúsund króna lágmarkslaun strax. Fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness tóku einnig þátt í fundinum í dag með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins en Framsýn, VÞ og VA vinna náið saman í kjarasamningsgerðinni. Næstu fundir aðila hafa ekki verið ákveðnir en viðræðum verður væntanlega fram haldið eftir helgina.

Deila á