Reglugerð fyrir Fræðslusjóð Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum

Starfsreglur Fræðslusjóðs Þingiðnar

  1. Félagsmaður sem unnið hefur fullt starf í a.m.k. 6 mánuði af síðustu 24 og greitt til félagsins á þeim tíma á rétt á stuðningi til starfsnáms. Greitt er hlutfallslega fyrir fólk í hlutastörfum.
  2. Við ákvörðun upphæðar er miðað við greidd félagsgjöld síðustu 12 mánaða. Félagsgjald af lágmarkslaunum iðnaðarmanna í 100% starfi eða meira gefur fulla styrkupphæð.
  3. Fylla þarf út umsóknareyðublað og skila ásamt reikningi/kvittun til skrifstofu félagsins. Umsókn þarf að berast viðkomandi stéttarfélagi innan 12 mánaða frá dagsetningu reiknings.
  4. Sá sem hverfa þarf tímabundið af vinnumarkaði af ástæðum sem valda því að ekki ber að skila tryggingagjaldi af launum hans, heldur í allt að tuttugu og fjóra mánuði þeim rétti til starfsmenntunarstyrks sem hann hafði áunnið sér hjá sjóðnum. Að tuttugu og fjórum mánuðum liðnum, frá því hann hvarf af vinnumarkaði, fellur réttur hans að fullu niður.
  5. Foreldrar í fæðingar- eða foreldraorlofi geta nýtt sér áunnin rétt skv. 1. gr. ef þeir velja að greiða stéttarfélagsgjöld á meðan á orlofi stendur.
  6. Félagsmenn í atvinnuleit halda áunnum rétti sínum eins og hann var við starfslok ef þeir velja að greiða stéttarfélagsgjöld af atvinnuleysisbótum.

Hve mikið er greitt ?

Greitt er að hámarki kr. 130.000.- á ári. Miða skal við almanaksárið. Aldrei er þó greitt meira en sem nemur 90% af námskostnaði.

Breyting á starfsreglum

Reglur þessar taka breytingum samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins hverju sinni sem og upphæð styrkja sem eru uppfærðir reglulega samkvæmt samþykkt sjóðsins.

Þannig samþykkt á aðalfundi Þingiðnar 16. maí 2018.

Önnur fræðslumál

Deila á