Fræðslumál

Starfsmenntunarsjóður S.T.H. starfar innan Starfsmannafélags Húsavíkur. Markmið sjóðsins er að styrkja félagsmenn til náms og endurmenntunar svo þeir geti á hverjum tíma tileinkað sér tæknibreytingar og tekist á við vandasamari störf.
Um úthlutanir fer eftir reglugerð sjóðsins.  Launagreiðendur greiða framlag í sjóðinn í samræmi við kjarasamninga á hverjum tíma.

Stjórn sjóðsins er skipuð þrem mönnum, þeim Helgu Þuríði Árnadóttur og Guðrún Guðbjartsdóttir frá Starfsmannafélagi Húsavíkur og Sif Jóhannesdóttir frá Norðurþingi.

Allar nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Helgu Þuríði Árnadóttur formanni S.T.H. sími 464-1982 og Skrifstofu stéttarfélaganna sími 464-6600. Þar er einnig hægt að nálgast umsóknareyðublað.

R e g l u g e r ð

fyrir Starfsmenntunarsjóð Starfsmannafélags Húsavíkur

1. grein

Nafn sjóðsins

Sjóðurinn heitir Starfsmenntasjóður Starfsmannafélags Húsavíkur og starfar hann með skipulagi og markmiði sem segir í reglum þessum. Sjóðurinn er eign Starfsmannafélags Húsavíkur. Heimili sjóðsins og varnarþing er á Húsavík.

2. grein

Markmið sjóðsins

Markmið sjóðsins er að styrkja félagsmenn í Starfsmannafélagi Húsavíkur til náms og starfsmenntunar, sem gerir þá hæfari til að sinna störfum sínum og undirbúa sig til að takast á við örar breytingar í störfum og á vinnumarkaði.

Til að ná markmiðum sínum mun sjóðurinn:

– styrkja nám og námskeið félagsmanna sem tengist starfi þeirra
– styrkja önnur námskeið sem tengjast tómstundum félagsmanna
– styrkja nám og námskeið á vegum félagsins um starfs- og félagstengd málefni
– með samstarfi við launagreiðendur, önnur stéttarfélag og fræðslustofnanir

3. grein

Tekjur sjóðsins, reikningsskil og ávöxtun

Tekjur sjóðsins eru:
a) Samningsbundin iðgjöld launagreiðenda skv. kjarasamningum.
b) Vaxtatekjur.
c) Námskeiðsgjöld.
d) Aðrar tekjur.

Bókhald sjóðsins skal fært sem sérstök deild í bókhaldi Starfsmannafélags Húsavíkur og skulu öll gögn er varða fjárhag sjóðsins vera aðgengileg fyrir stjórn.
Endurskoðendur reikninga sjóðsins skulu vera þeir sömu og endurskoðendur reikninga félagsins.
Ársreikningur sjóðsins skal staðfestur af aðalfundi Starfsmannafélags Húsavíkur.
Laust fé skal að jafnaði ávaxtað í banka eða sparisjóði, eða á annan tryggilegan og viðurkenndan hátt, þannig að það njóti ávallt sem bestrar ávöxtunar. Heimilt er stjórninni að lána það um skemmri tíma til annarra verkefna á vegum félagsins, enda komi þá til samþykktar stjórnar sjóðsins og félagsfundar.

4. grein

Stjórn sjóðsins

Stjórn sjóðsins skal skipuð þremur mönnum og tveim til vara. Tveir aðalmenn og einn varamaður skulu kosnir af aðalfundi Starfsmannafélags Húsavíkur ár hvert og einn aðalmaður og einn varamaður kosnir af Sveitarstjórn Norðurþings til fjögurra ára. Stjórn skiptir sjálf með sér verkum.
Stjórnin skal halda gerðabók og rita í hana allar samþykktir sínar. Til að stjórnarsamþykkt sé lögleg þarf meirihluti stjórnarmanna að greiða henni atkvæði.
Stjórn tekur ákvarðanir um fræðslustyrki úr sjóðnum og greiðslu annars hefðbundins rekstrarkostnaðar. Allar meiriháttar ákvarðanir sem kunna að hafa veruleg áhrif á fjárhag sjóðsins skulu hljóta staðfestingu félagsfundar Starfsmannafélags Húsavíkur.
Skrifstofa Starfsmannafélags Húsavíkur annast daglegan rekstur sjóðsins, bókhald og greiðslur fræðslustyrkja í samræmi við ákvarðanir stjórnar sjóðsins.

5. grein

Fræðslustyrkir

Stjórn sjóðsins veitir fræðslustyrki í samræmi við 2. grein um markmið sjóðsins að teknu tilliti til fjárhags sjóðsins á hverjum tíma.
Rétt til styrks hafa þeir sem verið hafa félagsmenn í Starfsmannafélagi Húsavíkur í sex mánuði og eru virkir félagsmenn við lok náms/námskeiðs. Sjóðsstjórn er heimilt að gera samning um gagnkvæma réttindaávinnslu við önnur stéttarfélög og starfsmenntunarsjóði.

Námskeiðsstyrkir eru skv. eftirfarandi:
a) Styrkir til félagsmanna vegna starfstengdra námskeiða:
Námskeiðsgjald/námskostnaður er greiddur að fullu.
Útlagður ferða- og gistikostnaður er greiddur að fullu.
Hámarkstyrkur kr. 110.000,- á ári.

b) Styrkir til félagsmanna vegna annarra námskeiða sem tengjast tómstundum þeirra:
Námskeiðsgjald/námskostnaður er greiddur að hálfu.
Hámarksstyrkur kr. 30.000,- á ári.

c) Styrkir til félagsmanna vegna tungumálanámskeiða erlendis:
Námskeiðsgjald/námskostnaður greiddur að fullu.
Útlagður ferða- og gistikostnaður greiddur að fullu.
Hámarksstyrkur kr. 250.000 á þriggja ára fresti.

d) Styrkir til Starfsmannafélags Húsavíkur vegna starfs- eða félagstengdra námskeiða:
Heimilt er að styrkja félagið að fullu vegna námskostnaðar.

e) Styrkir vegna samstarfs við launagreiðendur, önnur stéttarfélög eða fræðslustofnanir:
Heimilt er að taka þátt í kostnaði á móti launagreiðanda, öðrum stéttarfélögum, fræðslustofnunum o.fl. samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins hverju sinni sem umsóknir berast.

f) Viðbótarstyrkir til félagsmanna:
Stjórn sjóðsins getur ákvarðað félagsmönnum hærri styrki, vegna þátttöku á starfstengdum námskeiðum, sem nemur allt að áttföldu iðgjaldi launagreiðanda sbr. grein 3.a. vegna þeirra s.l. 12 mánuði. Heildarstyrkur félagsmanns verður þó aldrei hærri en kr. 160.000,- á ári.(Háskólamenntaðir starfsmenn sveitarfélaga)

Sjóðnum er ekki heimilt að taka þátt í tekjutapi félagsmanna vegna námskeiða eða námsdvalar, fæðiskostnaði eða kostnaði sem launagreiðanda greiðir í samræmi við ákvæði kjarasamninga.

Skv. grein 10.3.1.1 í kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Samflots f.h. STH skal greiða 0,22% af heildarlaunum starfsmönnum í starfsmenntunarsjóð.  Framlag vegna starfsmanna ríkisins er því mun lægra en annarra starfsmanna sem eru félagar í STH.  Því er réttur þeirra félagsmanna sem starfa hjá ríkisstofnunum til fræðslustyrkja 30% af fullum styrk skv. 5. grein.

Félagar sem vinna hluta úr ári fá styrk sem nemur að hámarki fimmföldu félagsgjaldi síðustu 12 mánuði.

6. grein

Umsóknir og afgreiðsla

Þeim sem æskja styrks úr sjóðnum skulu senda stjórn sjóðsins umsókn þar að lútandi á sérstökum eyðublöðum sem fást á skrifstofu félagsins. Í umsókn skal koma fram lýsing á því námi eða námskeiði, sem styrkurinn skal renna til, áætlun um kostnað, hvenær fyrirhugað er að stunda námið, svo og aðra þær upplýsingar er sjóðstjórn kann að telja nauðsynlegar. Á grundvelli þessara upplýsinga tekur sjóðstjórn ákvörðun um, hvort og hve háan styrk viðkomandi umsækjandi skuli fá.

Þegar umsækjandi hefur lokið námskeiði er styrkur greiddur út gegn framvísun reikninga fyrir samþykktum kostnaði. Reikningar skulu númeraðir og innihalda upplýsingar um námskeið og nafn og kennitölu námskeiðshaldara.

7. grein

Breytingar á reglugerð

Breytingar á reglugerð þessari má aðeins gera á aðalfundi Starfsmannafélags Húsavíkur, og ná þær því aðeins samþykki, að 2/3 hlutar greiddra atkvæða séu þeim fylgjandi.
Reglugerðarbreytingar skulu háðar samþykki sveitarstjórnar Norðurþings.
Reglugerð þessi tekur við af fyrri reglugerð sem sett var samkvæmt ákvæðum sérkjarasamnings við Húsavíkurkaupstað 29/5 1984.
Reglugerð þessi tekur gildi 1. janúar 2010 á fellur þá samhliða úr gildi eldri reglugerð.
Reglugerðin þannig samþykkt á aðalfundi Starfsmannafélags Húsavíkur  10 /12   2009.
Staðfest af sveitarstjórn Norðurþings    xx / xx   2009.