Orlofsmál og ferðir

Sumarhús, orlofsíbúðir, hótel og fleira - fjölbreyttir orlofskostir fyrir félagsmenn.

Samstarf félaganna – fjölbreyttir möguleikar

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum; Framsýn, Þingiðn, Starfsmannafélag Húsavíkur og Verkalýðsfélag Þórshafnar bjóða félagsmönnum sínum upp á sameiginlega orlofskosti í sumar eins og undanfarin ár. Félagsmönnum bjóðast orlofshús, íbúðir, gistiávísanir á Gistihúsi Keflavíkur og Hótel Keflavík, KEA Hótel, Lamb Inn Öngulsstaðir, Foss- og Edduhótelum, gisting á farfuglaheimilum og endurgreiðsla á gistikostnaði á tjaldsvæðum og vegna kaupa á útilegukortum. Hótel Keflavík, Gistihús Keflavíkur, Bed&Breakfast Keflavík, Fosshótel Barón í Reykjavík, Fosshótel Lind í Reykjavík, Hótel Kea, Hótel Norðurland, Lamb Inn og nokkur Farfuglaheimili eru opin allt árið og gildir afsláttur til félagsmanna þar einnig yfir vetrarmánuðina. Ekkert puntakerfi er við lýði hjá stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum.  Leitast er við að sem flestir félagsmenn sem sækja um orlofshús fái úthlutað orlofshúsi.

Umsóknareyðublað 2014 – umsóknarfrestur til 4. apríl 2014

Kostir í boði:
Orlofshús og -íbúðir
Gistiávísanir á Fosshótelum
Gistiávísanir á Edduhótelum
Gisting á Gistihúsi Keflavíkur
Gisting á Hótel Keflavík
Gisting Ráðhúsið íbúðarhótel Akureyri
Gisting á Lamb Inn Eyjafjarðarsveit
Gisting á Hótel Norðurland

Gisting á Hótel Kea
Gisting á Reykjavík Lights í Reykjavík
Gisting á farfuglaheimilum
Endurgreiðsla á gistikostnaði á tjaldsvæðum

Orlofshús og -íbúðir
Líkt og undanfarin ár bjóða félögin upp orlofshús og íbúðir. Ákveðið hefur verið að leigugjald fyrir orlofshús og íbúðir verði kr. 24.000 á viku í sumar og leigugjald fyrir orlofsíbúðirnar verði kr. 4.000 fyrir nóttina.  Almennir skiptidagar eru föstudagar.  Á umsóknareyðublaði sem fylgir fréttabréfinu kemur fram hvaða vikur orlofshúsin eru í boði.  Í sumar standa félagsmönnum til boða eftirtalin orlofshús og íbúðir:

• Orlofsíbúðir Þorrasölum 1-3, Kópavogi

Stéttarfélögin bjóða félagsmönnum sínum upp á gistingu í fjórum orlofsíbúðum við Þorrasali 1-3 í Kópavogi. Íbúðirnar eru í næsta nágrenni við íþróttamannvirki og útivistarsvæði auk þess sem stutt er í verslanir og verslanakjarna. Hver íbúð inniheldur tvö svefnherbergi, hjónaherbergi (með skiptanlegu rúmi) og annað herbergi með tveimur einstaklingsrúmum og tveimur aukadýnum. Þá eru ferðabarnarúm í hverri íbúð.  Á 1. hæð er íbúð nr. 102 (80 m2). Á 2. hæð er íbúð nr. 202 (80 m2) auk þess sem þar er einnig íbúð nr. 201 (100 m2) sem er eins og hinar íbúðirnar nema örlítið rýmri. Á 3. hæð er svo íbúð 302.
Hér er upplýsingasíða fyrir Þorrasali 1-3,  þar sem m.a. er myndband frá Þorrasölum.

• Orlofsíbúð Asparfelli, Reykjavík
Asparfell

Í Breiðholtinu er boðið upp á íbúð á 1. hæð í fjölbýlishúsi. Í íbúðinni er 1 svefnherbergi með hjónarúmi, tvíbreiður svefnsófi er í stofu og tvær aukadýnur. Í Asparfellinu eru stutt í þjónustu, t.d. er fjöldi verslana rétt við íbúðina.

Orlofsíbúð Starfsmannafélags Húsavíkur í Sólheimum 23, Reykjavík

Til að leigja þessa íbúð þarf að hafa samband við Norðurþing, og þá Ásu Gísladóttur, 464-6103.  Íbúðin er með tveimur svefnherbergjum auk svefnsófa í stófu (svefnstæði fyrir 7 til 8 manns auk smábarnaferðarúms) og þess utan búin öllu því nauðsynlegasta. Íbúðinni og leigunni fylgja sængurföt. Bannað er að vera með gæludýr með sér í íbúðinni, einnig eru reykingar stranglega bannaðar.
Hér er upplýsingasíðu Sólheima 23 með nákvæmari upplýsingum og myndum frá íbúðinni.

• Bjarkarsel – Flúðum

.
Orlofshúsið er staðsett í Ásabyggð á Flúðum, ca 100 km frá Reykjavík. Húsið sem er 52 fm skiptist í forstofu, 2 svefnherbergi með sængum og koddum og baðherbergi með sturtu. Svefnpláss fyrir fjóra í tveimur tvíbreiðum rúmum.  Stofan er með sjónvarpi, dvd og útvarpi og fullbúið eldhús. Stór sólpallur er við húsið og þar er heitur pottur í góðu skjóli með gasgrilli. Mikill trjágróður er umhverfis með útiverusvæði fyrir börnin. Mikið er af merktum gönguleiðum í nágrenningu. Stutt er í hraðbanka, verslun, golfvelli, sundlaug, veitingastaði og fleira. Skammt frá Flúðum er Gullfoss, Geysir, Háifoss, Gjáin og Þjórsárdalur svo eitthvað sé nefnt. Nánari upplýsingar: www.bustadur.is.

• Flókalundur – Barðaströnd

Húsið sem er 42 fm. stendur í Orlofsbyggðinni í Flókalundi sem er rómað svæði fyrir fegurð og stórbrotið landslag enda á Vestfjörðum. Húsið er með 2 svefnherbergjum, stofu og borðstofu með eldhúskrók. Svefnpláss og sængur eru fyrir 6 manns og hægt er að fá lánaða dýnu hjá umsjónarmanni.

• Orlofshús Kjarnaskógi
Kjarnaskógur

Í Kjarnaskógi við Akureyri er boðið upp á vel búið 53 m2 orlofshús. Í húsinu er þrjú svefnherbergi, eitt með hjónarúmi og tveim aukadýnum og hin tvö með koju. Við húsið er góð verönd og heitur pottur.

Orlofshús Illugastöðum

Illugastaðir

Í boði er nýlegt 48 m2 orlofshús í orlofsbyggðinni Illugastöðum í Fnjóskadal. Byggðin er staðsett á milli Húsavíkur og Akureyrar. Í húsinu er tvö svefnherbergi, annað með hjónarúmi og hitt með tveim kojum. Í stofu er svefnsófi. Við húsið er góð verönd með nýjum heitum potti. Á Illugastöðum er gott leiksvæði fyrir alla fjölskylduna og sundlaug með heitum pottum.

Hér má sjá myndband frá Illugastöðum (fyrir neðan myndbandið frá Þorrasölum).

• Orlofshús Öxarfirði
Öxarfjörður

Í Dranghólaskógi við Lund bjóða félögin upp á orlofshús allan ársins hring. Húsið er vel búið með þrem svefnherberjum, einu með hjónarúmi og hinum með kojum. Í húsinu eru tvær aukadýnur. Í ár verður húsið í leiguskiptum frá 31. maí til 30. ágúst en hægt er að fá húsið leigt utan þess tíma.

• Orlofshús Eiðum - MIKIÐ ENDURBÆTT

Í orlofsbyggðinni Eiðum, sem er 14 km norðan við Egilsstaði, er boðið upp á 54 m2 orlofshús með tveimur svefnherbergjum. Í öðru herberginu er hjónarúm og dýna en hjónarúm og koja í hinu. Miklar endurbætur hafa verið unnar á húsinu og í nágrenni þess.  Aðgengi að húsinu hefur verið bætt verulega. Húsið stendur við Eiðavatn og fylgir því aðgangur að árabát.

• Orlofshúsið Mörk Grímsnesi

Mörkin

Orlofshúsið er um 52 m2 að stærð með þremur svefnherberjum. Í einu þeirra er hjónarúm og efri koja en í hinum eru kojur. Við húsið er góð verönd og heitur pottur. Húsið er vel staðsett um 15 km frá Selfossi, vestarlega í Grímsnesinu við Sogið. Orlofshúsið Mörk stendur í hverfinu Skjólborgum við götuna Fljótsbakka 20.

• Orlofshúsið Lyngás 8 Grímsnesi

Útgarður

Í boði er nýtt stórt orlofshús, um 100 m2 (svefnloft innifalið). Í húsinu eru tvö svefnherbergi með hjónarúmum og í öðru þeirra er aukarúm. Auk þess er í húsinu 28 m2 svefnloft með tveim rúmum og einu einbreiðu rúmi.
Við húsið er góð verönd og heitur pottur. Húsið er vel staðsett um 18 km frá Selfossi, vestarlega í Grímsnesinu skammt frá Sogsvirkjunum. Athugið, myndin er ekki af rétta orlofshúsinu sem stéttarfélögin eru með á leigu en það er mjög svipað húsinu á myndinni.

• Orlofshús Ölfusborgum
Ölfusborgir

Í boði er orlofshús í orlofsbyggðinni Ölfusborgum við Hveragerði. Húsið er 55 m2 þrjú svefnherbergi. Í einu þeirra er hjónarúm en í hinum eru kojur. Góð verönd og heitur pottur er við húsið.

• Orlofshús á Einarsstöðum

Sumarhúsin að Einarsstöðum eru í um 11 kílómetra fjarlægð frá Egilsstöðum en þar er hægt að sækja alla almenna þjónustu, sundlaug, heita potta, matvöruverslanir, flugsamgöngur, lyfjaverslun o.fl. Heitur pottur er við bústaðinn. Stærð bústaðarins er 45 fm sem skiptast í þrjú svefnherbergi, stofu, eldhús og baðherbergi með sturtu. Svefnaðstaða er fyrir 8 manns. Í tveimur herbergjum eru tvíbreið rúm og koja yfir en í þriðja herberginu eru kojur. Búnaður: Borðbúnaður, pottar, pönnur, sængur og koddar fyrir átta manns fylgja. Lín fylgir ekki en hægt er að fá það leigt fyrir 1000 kr. á rúmið og 300 fyrir baðhandklæði, (sækja og greiða þarf línið hjá umsjónarmanni).

• Orlofshús á Gunnarsstöðum

Félagsmönnum stéttarfélaganna býðst að fara í lítið sumarhús í Þistilfirði, staðsett í landi  Gunnarsstaða. Húsið er 28 m²  bjálkahús með dagstofu þar sem er eldhúsborð, stólar og lítið eldhús. Auk þess er baðherbergi og hjónaherbergi  með efri  koju fyrir einn og svefnloft fyrir þrjá til fjóra.
Húsið er leigt frá föstudegi til föstudags. Hægt verður að fá aðgengi að húsinu frá 1. júní til 30. September 2014. Leiguverð fyrir vikuna er aðeins kr. 15.000 fyrir félagsmenn. Ýmislegt er í boði á svæðinu s.s. gæsaveiði, aðgengi að hestum, veiði í Hafralónsá, aðgengi að bát og fylgdarmanni á dorgveiðar í Þistilfirði. Þá er mikið og gott berjaland í landi Gunnarsstaða og áhugaverðar gönguleiðir.  Sumt af þessu er frítt meðan greiða þarf smá gjald t.d. fyrir silungaveiði í Hafralónsá. Umsóknarfrestur er til 4. apríl 2014. Frekari upplýsingar er hægt að fá á Skrifstofu stéttarfélaganna.

• Reykingar og húsdýr

Fyrir nokkrum árum var ákveðið að banna reykingar í sumarhúsum og orlofsíbúðum á vegum félaganna. Þetta var gert til að verða við óskum fjölda félagsmanna sem reykja ekki og kæra sig illa við að vera í tóbaksreyk. Félagsmenn eru hvattir til að virða þetta bann. Húsdýr eru ekki leyfð í orlofshúsum og íbúðum.


Hótelgisting á Fosshótelum

Félagsmönnum stéttarfélaganna býðst gisting á Fosshótelum sem staðsett eru víða um land:

 • Fosshótel Lind, Rauðarárstígur 18, 101 Reykjavík
 • Fosshótel Baron, Barónstígur 2, 101 Reykjavík

Sumar:

 • Fosshótel Reykholt, 320 Reykholt
 • Fosshótel Húsavík, Ketilsbraut 22, 640 Húsavík
 • Fosshótel Dalvík, Skíðabraut 18, 620 Dalvík
 • Fosshótel Núpar , Núpar , 880 Kirkjubæjarklaustur
 • Fosshótel Vatnajökull, Lindarbakka, 781 Hornafjörður
 • Fosshótel Laugar, 650 Laugar
 • Fosshótel Vestfirðir , Aðalstræti 100 , 450 Patreksfjörður
 • Fosshótel Austfirðir , 750 Fáskrúðsfjörður

Í boði er tveggja manna uppábúið herbergi með baði og morgunmat. Félagsmenn sjá sjálfir um að bóka gistinguna og kaupa síðan gistiávísun á Skrifstofu stéttarfélaganna.

 • Almennt verð fyrir gistinóttina er kr. 7.000 með niðurgreiðslu.
 • Frítt er fyrir eitt barn undir 12 ára aldri í herbergi með foreldrum.
 • Aukarúm kostar kr. 5.500 með morgunmat.
 • Frá 1. júní til 31. ágúst þarf að greiða með 2 gistimiðum fyrir hverja nótt á Fosshótelum sem gerir kr. 14.000.

Miðar gilda ekki á Menningarnótt, Fiskideginum mikla á Dalvík og á Mærudögum á Húsavík.

Hótel Edda

Hótelgisting á Eddu

Félagsmönnum býðst gisting á 12 Edduhótelum sem staðsett eru um allt land.  Hótelin eru: ML Laugarvatni, IKI Laugarvatni, Skógar, Nesjaskóli, Neskaupsstaður, Egilsstaðir, Akureyri, Stórutjarnir, Vík, Laugarbakki, Sælingsdalur og Ísafjörður.   Félagsmenn kaupa gistiávísun á Skrifstofu stéttarfélaganna fyrir uppbúið tveggja manna herbergi með handlaug og bóka sér síðan gistingu þar sem þeir kjósa. Heimilt er að hafa með sér börn án sérstaks aukagjalds ef viðkomandi hefur með sér rúmföt fyrir þau. Hótelið leggur til dýnur. Félagsmenn fá góðan afslátt og að auki niðurgreiða stéttarfélögin hverja nótt um kr. 2.250,-. Athugið að morgunverður er ekki innifalinn og misjafnt framboð er hjá einstökum hótelum eftir tímabilum. Nánari upplýsingar á www.hoteledda.is

Gisting á Gistihúsi Keflavíkur / Bed & Breakfast

Stéttarfélögin hafa samið við Gistihús Keflavík/ Bed&Breakfast um afslátt af gistingu fyrir félagsmenn.  Auk þess niðurgreiða félögin hverja gistinótt um kr. 2.000,- fyrir hvern fullgildan félagsmann. Gistihús Keflavíkur er góður valkostur fyrir þá sem eru að ferðast til og frá Íslandi en aðeins 6 mínútna akstur er að Flugstöð Leifs Eiríkssonar.  Boðið er upp á morgunverð frá klukkan 04:30 alla daga.  Akstur til og frá Keflavíkurflugvelli innifalin í verði. Nánari upplýsingar á www.bbkeflavik.com

Hótel Keflavík

Hótel Keflavík

Félagsmönnum býðst ódýr gisting á Hótel Keflavík, sem er góður kostur fyrir þá sem eru að ferðast um Keflavíkurflugvöll. Félagsmenn kaupa gistiávísun á skrifstofu stéttarfélaganna og bóka gistingu á hótelinu. Í boði er einmennings-, tveggja manna- og fjölskylduherbergi en hótelið hefur staðið í umfangsmiklum endurbótum og hefur hótelið algjörlega verið flísalagt að utan ásamt því að flest hótelherbergi hafa verið tekið í gegn. Félögin niðurgreiða einnig gistinóttina um kr. 2.000 fyrir hvern fullgildan félagsmann.

Glæsilegur morgunverður er veittur árla morguns fyrir gesti hótelsins sem þurfa að fara snemma í flug og er þeim síðan boðinn akstur á flugstöðina og geymsla á bílnum meðan dvalið er erlendis endurgjaldslaust.

Nánari upplýsingar á www.hotelkeflavik.is

Ráðhúsið – Íbúðarhótel Akureyri – Ráðhústorgi

Félagsmönnum býðst ódýr gisting og morgunverður á RÁÐHÚSIÐ APARTMENT HOTEL, sem er góður kostur fyrir þá sem dvelja tímabundið á Akureyri.  Félagsmenn kaupa gistiávísun á skrifstofu stéttarfélaganna og bóka gistingu á hótelinu.  Nánari upplýsingar á www.radhusid.is s. 571 7201 .

Vetrarverð 2014-15 til félagsmanna er:

Brekkugata 1b – Ráðhústorgi Akureyri

Til 31. desember 2014

 • Eins manns herbergi með morgunverði kr. 6.500,- pr.nótt.
 • Tveggja manna herbergi með morgunverði kr. 8.000,- pr.nótt.
 • Eins svefnherbergja íbúð fyrir 4 gesti án morgunverðar kr. 13.000,- pr nótt.
 • Tveggja svefnherbergja íbúð fyrir 6 gesti án morgunverðar kr. 17.000,- pr nótt.

Til 31. desember 2014

 • Eins manns herbergi með morgunverði kr. 7.000,- pr.nótt.
 • Tveggja manna herbergi með morgunverði kr. 9.000,- pr.nótt.
 • Eins svefnherbergja íbúð fyrir 4 gesti án morgunverðar kr. 15.000,- pr nótt.
 • Tveggja svefnherbergja íbúð fyrir 6 gesti án morgunverðar kr. 21.000,- pr nótt.

Bjarmastígur 4 – við miðbæ Akureyrar

 • Lúxus þriggja svefnherbergja íbúð fyrir 6 gesti með arinn án morgunverðar kr. 56.000,- pr nótt
 • Stúdíó íbúð fyrir 2 fullorðna og 2 börn án morgunverðar kr. 17.000,- pr nótt

Lamb Inn Öngulsstaðir

Félagsmönnum býðst ódýr gisting og morgunverður á Lamb inn á Öngulsstöðum, sem er góður kostur fyrir þá sem dvelja tímabundið í Eyjafirði.  Félagsmenn kaupa gistiávísun á skrifstofu stéttarfélaganna og bóka gistingu á hótelinu.  Nánari upplýsingar á www.lambinn.is Vetrarverð 2014-15 til félagsmanna er:

 • Eins manns herbergi með morgunverði kr. 6.500,- pr.nótt.
 • Tveggja manna herbergi með morgunverði kr. 8.000,- pr.nótt.
 • Fjögurra manna herbergi með morgunverði kr. 13.000,- pr. nótt.

Hótel Norðurland

Hótel Norðurland

Félagsmönnum býðst ódýr gisting og morgunverður á Hótel Norðurlandi, sem er góður kostur fyrir þá sem dvelja tímabundið á Akureyri.  Félagsmenn kaupa gistiávísun á skrifstofu stéttarfélaganna og bóka gistingu á hótelinu.  Nánari upplýsingar á www.keahotels.is. Vetrarverð 2014-15 til félagsmanna er:

 • Eins manns herbergi með morgunverði kr. 8.000,- pr.nótt.
 • Tveggja manna herbergi með morgunverði kr. 9.000,- pr.nótt.

Greiða þarf aukalega ef menn eru þrír í herbergi.

Hótel KEA

Hótel Kea

Félagsmönnum býðst ódýr gisting og morgunverður á Hótel KEA, sem er góður kostur fyrir þá sem dvelja tímabundið á Akureyri.  Félagsmenn kaupa gistiávísun á skrifstofu stéttarfélaganna og bóka gistingu á hótelinu.  Í boði er einmennings- og tveggja manna herbergi.  Nánari upplýsingar á www.keahotels.is.

 • Vetrarverð 1. september 2014 – 31. maí 2015:
  Eins manns herbergi með morgunverði kr. 11.000,- pr.nótt.
  Tveggja manna herbergi með morgunverði kr. 15.000,- pr.nótt.
 • 1. júní-31. ágúst 2015:
  Eins manns herbergi með morgunverði kr. 19.000,- pr.nótt.
  Tveggja manna herbergi með morgunverði kr. 25.000,- pr.nótt.

Reykjavík Lights í Reykjavík

Félagsmönnum býðst  gisting og morgunverður á Reykjavík Lights í Reykjavík, sem er góður kostur fyrir þá sem dvelja tímabundið á höfuðborgarsvæðinu.  Félagsmenn kaupa gistiávísun á skrifstofu stéttarfélaganna og bóka gistingu á hótelinu.  Í boði er einmennings- og tveggja manna herbergi.  Nánari upplýsingar á www.keahotels.is.

 • Vetrarverð 1. sept 2014 til 31. maí 2015:
  Eins manns herbergi með morgunverði kr. 9.000,- pr.nótt.
  Tveggja manna herbergi með morgunverði kr. 12.000,- pr.nótt.
 • 1. júní-31. ágúst 2015:
  Eins manns herbergi með morgunverði kr. 20.000,- pr.nótt.
  Tveggja manna herbergi með morgunverði kr. 24.000,- pr.nótt.

Gistiheimili Keflavíkur, staðsett á móti Hótel Keflavík

Stéttarfélögin hafa samið við Gistiheimili Keflavíkur um ódýra gistingu fyrir félagsmenn sem ferðast milli landa. Gistiheimilið er í eigu sömu aðila og reka Hótel Keflavík. Gestir þurfa að deila snyrtingu með öðrum gestum en tvö baðherbergi fylgja sex herbergjum.    Innifalið í verðinu er einnig geymsla á bíl. Gistiheimilið er við Vatnsnesveg 9 í Keflavík, það er á móti Hótel Keflavík. Innritun gesta á Gistiheimili Keflavíkur fer fram á Hótel Keflavík. Þar geta gestir einnig gengið að góðum morgunverði og annarri þjónustu á vegum hótelsins. Verðin sem gefin eru upp í þessari lýsingu eru eftir niðurgreiðslur stéttarfélaganna og afsláttarkjör sem félögin sömdu um við Gistiheimili Keflavíkur. Það er endanlegt verð.

Vetrarverð: Eins manns herbergi með morgunverði kr. 3.800,- pr.nótt.
Tveggja manna herbergi með morgunverði kr. 5.800,- pr.nótt.

Verð 1. maí – 15. sept. 2014: Eins manns herbergi með morgunverði kr. 5.800,- pr.nótt.
Tveggja manna herbergi með morgunverði kr. 7.800,- pr.nótt.

Gisting í farfuglaheimilum

Félagsmönnum og fjölskyldum þeirra býðst gistingu á farfuglaheimilum en þau eru 36 og staðsett um allt land. Þeir sem kjósa að gista á farfuglaheimilum fá aðgang að rúmi, sæng kodda, snyrtingu, baðaðstöðu og gestaeldhúsi. Algengast er að ferðamenn hafi með sér sængurföt eða svefnpoka. Víða er hægt að leigja sængurföt og kaupa morgunverð. Yfirleitt er aukagjald fyrir þá sem vilja sér herbergi. Gistiávísanir fyrir farfuglaheimili er hægt að fá á Skrifstofu stéttarfélaganna. Gistiávísun fyrir einn einstakling í eina nótt er seld á 1.500 kr. Allar nánari upplýsingar eru veittar þar eða á heimasíðu farfugla www.hostel.is eða á skrifstofu þeirra í síma 553-8110.

Útilega í boði þíns stéttarfélags

Félagsmenn geta sótt um styrk vegna gistingar á tjaldstæðum og við kaup á útilegukortinu. Það gerist þannig að félagsmenn og fjölskyldur þeirra fara með sitt tjald, tjaldvagn, fellihýsi, hjólhýsi eða annan búnað á tjaldsvæði innanlands, fá löglegan reikning (númeraður reikningur með kennitölu söluaðila og kaupanda þjónustu), framvísa síðan reikningnum á Skrifstofu stéttarfélaganna og fá endurgreiðslu fyrir hluta upphæðarinnar eða allt að kr. 18.000. Skilyrði fyrir þessari greiðslu er að félagsmaður hafi greitt félagsgjöld í a.m.k. 6 mánuði.

Umsóknarfrestur og úthlutun

Umsóknareyðublað fyrir orlofshúsin og íbúðirnar er ofarlega á þessari síðu. Umsóknum skal skila til Skrifstofu stéttarfélaganna í síðasta lagi 2. apríl nk. Úthlutun fer svo fram næstu daga þar á eftir.

Veruleg niðurgreiðsla

Þess má geta að félögin taka á leigu orlofshús víða um land til að koma til móts við þarfir félagsmanna. Leiguverðið í sumar til félagsmanna verður kr. 24.000. Félagsmenn greiða aðeins hluta að því sem það kostar að hafa húsin á leigu. Þannig niðurgreiða stéttarfélögin hverja viku niður fyrir félagsmenn um tugi þúsunda kr. per. viku.

Orlofshús fyrir félagsmenn

Rétt er að vekja athygli á því að orlofshús stéttarfélaganna eru aðeins fyrir félagsmenn og fjölskyldur þeirra. Það þýðir að félagsmönnum er óheimilt með öllu að taka á leigu hús fyrir aðra en þá sjálfa.

15% afsláttur í Jarðböðin

Samkvæmt samkomulagi eiga félagsmenn stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum rétt á 15% afslætti fari þeir í Jarðböðin í Mývatnssveit. Áður er farið er, þurfa félagsmenn að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna og fá sérstök afsláttarkort.

Miðar í Hvalfjarðargöng til sölu

Stéttarfélögin hafa til sölu miða í Hvalfjarðargöngin fyrir félagsmenn. Verðið per. miða er kr. 650,-. Félagsmenn í Verkalýðsfélagi Þórshafnar fá miðana á sama verði hjá skrifstofu félagsins á Þórshöfn.

Afsláttarkjör á bílaleigubílum

Stéttarfélögin hafa samið við Bílaleigu Húsavíkur um afsláttarkjör fyrir félagsmenn á bílaleigubílum fyrirtækisins í Reykjavík. Um er að ræða 15% afslátt frá listaverði. Stéttarfélögin og Bílaleiga Húsavíkur gerðu þennan samning til að auðvelda fólki sem nýtir sér flug frá Húsavík eða Akureyri að ferðast um höfuðborgarsvæðið í þægilegum bílum frá bílaleigunni. Þegar menn panta bíla hjá Bílaleigu Húsavíkur er nóg að þeir gefi upp að þeir séu félagsmenn í Framsýn, Þingiðn, Starfsmannafélagi Húsavíkur eða Verkalýðsfélagi Þórshafnar. Þá er þessi góði afsláttur í boði fyrir félagsmenn.

Comments are closed.