Ernir og Framsýn sammála um að halda samstarfinu áfram – miðar hækka í verði

Forsvarsmenn Framsýnar og Flugfélagsins Ernis gengu frá áframhaldandi samstarfi fyrir helgina varðandi sölu farmiða á sérstökum kjörum fyrir félagsmenn á flugleggnum Reykjavík – Húsavík / Húsavík – Reykjavík. Samningurinn gildir jafnframt fyrir önnur aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna.

Fram að þessu hefur verðið verið kr. 15.000,- per flugmiða. Vegna kostnaðarhækkana hjá flugfélaginu hækka miðarnir til Framsýnar í kr. 17.500,-. Framsýn mun áfram selja miðana á kostnaðarverði. Hækkunin tekur gildi 1. febrúar 2024.

Samningsaðilar eru sammála um að halda áfram samstarfi sem byggir á því að tryggja og efla flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur um ókomna tíð. Eins og kunnugt er hefur ríkt ákveðin óvissa um framtíð flugs milli þessara áfangastaða. Aðilar binda vonir við að hægt verði að tryggja flugið með samstilltu átaki hagsmunaaðila.

Merki Framsýnar stéttarfélags táknar framsýni og skarpskyggni

Árið 2008 lauk sameiningu stéttarfélaga í Þingeyjarsýslum innan ASÍ, reyndar hefur Verkalýðsfélag Þórshafnar staðið utan við þessa sameiningu fram að þessu en starfar mjög náið með Framsýn stéttarfélagi. Félögin sem sameinuðust á sínum tíma voru Verkalýðsfélag Húsavíkur, Verslunarmannafélag Húsavíkur, Verkalýðsfélag Raufarhafnar og Verkalýðsfélag Öxarfjarðar. Sameinuðust þau undir nafninu Framsýn stéttarfélag. Fengin var grafískur hönnuður til að hanna merki fyrir félagið. Í umfjöllun um merkið segir:

Merki Framsýnar stéttarfélags táknar framsýni og skarpskyggni.

Merkið er að mestu í rauðum lit sem er traustur litur og heitur sem hæfir vel stéttarfélagi sem vill njóta virðingar og trausts meðal félagsmanna og landsmanna allra. Merkið er víkinga segl en markmið félagsins verður að gefa fólki byr í seglin með því að sækja fram í réttindabaráttu félagsmanna og þar með samfélagsins í heild. Víkingaseglið hefur einnig með upprunann okkar að gera. Seglið hefur ákveðna merkingu um sameiningu, þar sem marga þarf til að sigla víkinga skipum. Formin eru mjúk og hvöss. Þá er skriftin glaðleg og nútímaleg.

Merkið er hannað af Bjarka Lúðvíkssyni. Bjarki  er þekktur grafískur hönnuður sem útskrifaðist frá Myndlistaskólanum á Akureyri árið 1999. Frá þeim tíma hefur hann starfað sem grafískur hönnuður. Bjarki hefur hannað mörg þekkt merki sem m.a. hafa hlotið íslensku markaðsverðlaunin. Þá hafa merki sem hann hefur hannað komist í bók sem gefin er út í Evrópu sem tekur á bestu merkjum sem gerð eru í Evrópu ár hvert.  Meðal merkja sem hann hefur hannað eru merki Glitnis, Samtakana 78, Landic, Actavis og nú Framsýnar.

Að sjálfsögðu er Framsýn stéttarfélag krúttlegsta stéttarfélagið á Íslandi.

Hvatning til samstöðuaðgerða með Palestínu 15. janúar 2024

Mánudaginn 15. janúar nk. verða 100 dagar liðnir frá upphafi núverandi árásarstríðs Ísraela á
hendur Palestínufólki á Gaza. Ísraelar hafa um langt skeið farið fram með grófum hernaði gegn
almenningi á Gaza. Stríðsrekstur þeirra hefur nú tekið á sig breytta og verri mynd og berast
þaðan daglega fréttir af líklegum stríðsglæpum og öðrum brotum gegn alþjóðasáttmálum.
Alþýðusambandið og fleiri heildarsamtök innan alþjóðlegu verkalýðshreyfingarinnar hafa árum
saman bent á það grófa misrétti sem verkafólk og almenningur allur í Palestínu býr við. Þar að
auki hafa þessi samtök sent frá sér fjölda ályktana í gegnum tíðina um stríðsrekstur Ísraela gegn
íbúum Palestínu.


Ekkert útlit er fyrir hlé á núverandi árásum á Gaza, auk þess sem Ísraelsher og landtökufólk á
Vesturbakkanum er farið að beita kröftum sínum þar og eykst spennan þar dag frá degi. Við
hvetjum því öll verkalýðsfélög til að sýna táknrænan stuðning og flagga palestínska fánanum á
hádegi þann 15. janúar nk., þegar 100 dagar eru liðnir frá upphafi árásanna, og leyfa þeim að
vera sýnilegir í nokkra daga hið minnsta.


Hægt er að nálgast fána hjá ASÍ í Guðrúnartúni 1, 105 Rvk.


Frekari upplýsingar veitir Andri varaformaður RSÍ í símanr 8533383 eða andri@fir.is.


f/h Fagfélaganna Stórhöfða 31 Rvk
Kristján Þórður Snæbjarnarso

Unnið að uppstillingu í Þingiðn

Kjörnefnd Þingiðnar kom saman til fundar í fundarsal stéttarfélaganna í gær til að raða félagsmönnum upp í trúnaðarstöður fyrir næsta kjörtímabil sem er 2024-2026, það er milli aðalfunda. Kjörnefnd er skipuð þeim Davíð Þórólfssyni, Kristjáni Gíslasyni og Gunnólfi Sveinssyni.

Kjörnefnd er ætlað að ljúka störfum í lok janúar og auglýsa sína tillögu um félagsmenn í trúnaðarstöður á vegum félagsins fyrir komandi kjörtímabil.

Samkvæmt félagslögum ber félagsmönnum að taka að sér trúnaðarstörf fyrir félagið. Í 10. gr. c-liðar er eftirfarandi tiltekið;

„c) Að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið, nema einhver sú ástæða hamli, sem félagsfundur tekur gilda. Enginn getur, nema af frambornum ástæðum sem félagsfundur tekur gilda, skorast undan að taka kosningu í stjórn eða útnefningu til annarra starfa í þágu félagsins. Þó getur starfandi stjórnarmaður, sem verið hefur þrjú ár samfellt í stjórn félagsins, skorast undan stjórnarstörfum í jafnlangan tíma. Sama gildir um önnur trúnaðarstörf í þágu félagsins.“

Á fundinum var farið yfir núverandi uppstillingu. Fyrir liggur að gera þarf nokkrar breytingar þar sem dæmi eru um að félagsmenn séu hættir á vinnumarkaði og því ekki lengur kjörgengir. Þá hefur Vigfús Þór Leifsson varaformaður félagsins beðist undan frekari störfum fyrir félagið eftir áratuga setu í stjórn félagsins. Velt var upp nokkrum nöfnum sem kæmu til greina inn í stjórn félagsins og í önnur embætti. Eftir góðar umræður var samþykkt að hafa samband við ákveðna menn með það að markmiði að fá þá inn í stjórn og varastjórn. Stillt verður upp í aðrar stjórnir og ráð eins og verið hefur enda skylda félagsmanna að gegna störfum í þágu félagsins. Skorað er á áhugasama félagsmenn Þingiðnar sem vilja taka þátt í störfum félagsins að hafa samband við Kjörnefnd sem fyrst þar sem nefndin reiknar með að klára sína vinnu í næstu viku.

Skrifað formlega undir kaupsamning

Í vikunni var formlega gengið frá kaupum Framsýnar og Þingiðnar á tveimur orlofsíbúðum sem eru í byggingu í Hraunholtinu á Húsavík. Áður höfðu kaupin verið handsöluð. Það voru formenn félaganna, Jónas og Aðalsteinn Árni sem undirrituðu kaupin fh. félaganna, ásamt verktakanum Ragnari Hjaltested. Með kaupunum vilja félögin auka enn frekar þjónustu við félagsmenn sem starfa víða um land en um 60% félagsmanna Framsýnar búa utan Húsavíkur eða tæplega 2.000 félagsmenn af 3.500 félagsmönnum. Þá eru félagsmenn Þingiðnar einnig dreifir um landið. Ákvörðunin um kaupin var tekin á sameiginlegum félagsfundi stéttarfélaganna 21. nóvember 2023 þar sem tillaga um kaup á íbúðunum var samþykkt samhljóða með lófaklappi.

Um er að ræða 118 m2. íbúðir með geymslu.  Íbúðirnar verða full frágengnar með lóð og upphituðu bílastæði. Verðmatið per íbúð er 69.350.000,-. Áætlað er að íbúðirnar verði klárar 1. ágúst 2024.

Jafnframt er til skoðunar að nota íbúðirnar í skiptum yfir sumarið fyrir orlofshús í eigu annarra stéttarfélaga víða um land. Slík skipti opna á nýja og áhugaverða möguleika fyrir félagsmenn Þingiðnar og Framsýnar, þannig fengju þér aðgengi að orlofshúsum s.s. á Vestfjörðum, Vesturlandi og á Suðurlandinu í staðin fyrir orlofsíbúðirnar á Húsavík. Þá geta íbúðirnar einnig gagnast félagsmönnum sem búa utan Húsavíkur og aðstandendum þeirra þurfi þeir að dvelja á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga um tíma vegna veikinda.

Um er að ræða sögulega stund. Víða um land eiga stéttarfélög og starfsmannafélög orlofsíbúðir í þéttbýli s.s. á Akureyri.  Fram að þessu hefur það ekki þekkst að slíkar íbúðir væru í boði á Húsavík. Með kaupum Framsýnar og Þingiðnar á tveimur orlofsíbúðum verður þar breyting á hvað félagsmenn þessara félaga varðar. 

Ríkasta 0,1 prósent landsmanna eignaðist 28 nýja milljarða í fyrra – það er greinilega eitthvað til skiptanna

Heimildin fjallar um misskiptinguna sem hefur verið að aukast í þjóðfélaginu með hverju árinu. Miðað við ofsagróða 0,1% þjóðarinnar ætti ekki að vera erfitt að gera góða kjarasamninga í yfirstandandi kjaraviðræðum SA og aðildarfélaga ASÍ sem standa yfir um þessar mundir. Heimildin skrifar:

„Þær 242 fjöl­skyld­ur lands­ins sem þén­uðu mest í fyrra áttu sam­tals 353 millj­arða króna um síð­ustu ára­mót og skuld­uðu lít­ið sem ekk­ert. Næst­um þrjár af hverj­um fjór­um krón­um sem hóp­ur­inn þén­ar eru fjár­magn­s­tekj­ur. Eign­ir hans eru van­metn­ar þar sem verð­bréf eru met­in á nafn­virði, ekki á því virði sem hægt væri að selja þau á.

Ríkasta 0,1 prósent landsmanna – hópur sem telur alls 242 heimili – átti alls 353 milljarða króna í eigin fé í lok síðasta árs. Auður hópsins jókst um 28 milljarða króna á árinu 2022. Að meðaltali jókst eigið fé hvers og eins heimilis innan hópsins um tæplega 116 milljónir króna á einu ári. 

Þessi hópur skuldar lítið sem ekkert. Eiginfjárhlutfall hans er 98,4 prósent. Hver fjölskylda innan hópsins átti að meðaltali 1,5 milljarð króna í eignum í lok síðasta árs en skuldaði að meðaltali 23 milljónir króna. Ljóst má vera að sumir innan hópsins eru miklu ríkari en aðrir og því lýsir meðaltalseignin einungis hluta af stöðunni eins og hún er.

Þetta kemur fram í svari Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Loga Einarssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, sem birt var á vef Alþingis á síðasta degi fyrir þinglok. Þar var spurt hvernig eignir og skuldir heimila landsins skiptust …“

Dregið úr styrkveitingum til sveitarfélaga og stofnanna vegna BSRB aðildarfélaga

Það tilkynnist hér með að stjórnir Mannauðssjóðs Kjalar, Mannauðssjóðs Samflots bæjarstarfsmanna og Mannauðssjóðs KSG hafa tekið sameiginlega ákvörðun um að loka á styrkveitingar vegna ferðakostnaðar og gistingar í náms- og kynnisferðum í styrk til sveitarfélaga/stofnana. Ákvörðunin kemur til vegna bágrar fjárhagsstöðu sjóðanna í kjölfar mikillar aukningar á umsóknum í náms- og kynnisferðir. Lokunin tekur gildi frá 24. desember 2023. Þessar reglur gilda m.a. fyrir félagsmenn í Starfsmannafélagi Húsavíkur enda er félagið innan BSRB.

Við minnum á aðalfund Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar verður haldinn fimmtudaginn 11. janúar kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna.

Dagskrá:

1. Venjuleg aðalfundarstörf
– Kosning starfsmanna fundarins
– Skýrsla stjórnar
– Stjórnarkjör

2. Önnur mál

Skorað er á félagsmenn deildarinnar sem falla undir deildina að mæta á fundinn og taka þátt í líflegum umræðum, ekki síst um kjaramál. Það er félagsmenn Framsýnar sem starfa við verslun, þjónustu og skrifstofustörf.

Stjórn deildarinnar

Við gerum enn betur við félagsmenn – Teknir upp 100% styrkir og tveggja ára geymdur réttur.

Fræðslusjóðirnir Sveitamennt og Ríkismennt sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn hafa samþykkt að einstaklingur geti átt uppsafnaðan rétt til tveggja ára eins og til þriggja ára.  Sú regla tók gildi þann 1. janúar 2024. Það er ánægjulegt að kynna þessa  breytingu sem gerð er á reglum sjóðanna en með þessu er leitast við að mæta þörfum þeirra félagsmanna sem vilja bæta þekkingu, ná í aukin réttindi og mæta morgundeginum með þá hæfni sem nauðsynleg er. Þessi breyting mun vonandi verða til þess að enn fleiri geti sótt og  greitt fyrir nám eða námskeið sem teljast til starfsmenntunar.

Ný regla hljóðar þá samanber eftirfarandi;

Félagsmenn sem ekki hafa nýtt sér rétt sinn síðustu tvö ár eiga rétt á styrk allt að kr. 260,000,-  eða síðustu þrjú ár eiga rétt á allt að kr. 390.000,-  fyrir eitt samfellt nám eða námskeið samkvæmt nánari reglum sjóðsins. Uppsafnaður réttur skerðist ekki hafi félagsmaður fengið styrk undir kr. 50.000 á tíma uppsöfnunar. Sá styrkur kæmi þó til frádráttar.

Þá var einnig tekin ákvörðun í stjórnum þessara tveggja sjóða að falla frá hlutfallsstyrkjum til einstaklinga og veita alltaf 100% styrki, þó að hámarki kr. 130.000.- á ári. Þetta mun einnig koma verulega til móts við þá einstaklinga sem nýta sjóðina til að niðurgreiða námskeið og nám sem þeir kunna að sækja og stunda.

Sem sagt, áður voru greiddir 80% styrkir en f.o.m. 1. janúar 2024 verða greiddir 100% styrkir en að hámarki eins og áður kr. 130.000.- á ári.

Báðar þessar breytingar á reglum taka gildi 1.janúar 2024 gilda gagnvart námi og námskeiðum sem hefjast eftir þann tíma.

Misnotkun á fræðslusjóði og viðurlög / Misuse of educational funds and sanctions

Að gefnu tilefni hafa stjórnir fræðslusjóðanna Landsmenntar, Sveitamenntar, Ríkismenntar og Sjómenntar samþykkt nýja reglu til að bregðast við misnotkun á fræðslusjóðunum.

Reglan tekur til misnotkunar á sjóðunum og viðurlög við slíkri misnotkun, samanber eftirfarandi:

Misnotkun á fræðslusjóði og viðurlög

Umsækjandi sem reynist hafa gefið rangar eða villandi upplýsingar og eða notar fölsuð gögn við styrkumsókn, missir rétt sinn til styrks í 36 mánuði. Hafi umsækjandi fengið greidda styrkupphæð á grundvelli falsaðra og eða rangra gagna, er heimilt að krefja viðkomandi um endurgreiðslu á heildarupphæð styrks auk dráttarvaxta. Stjórn sjóðsins áskilur sér rétt til að kæra til lögreglu brot af þessu tagi.

_________________

On occasion, the boards of the education funds;  Landsmennt, Sveitamennt, Ríkismennt and Sjómennt,  have approved a new rule to respond to abuse of the education funds.

The rule covers abuse of the funds and sanctions for such abuse, compare the following:

Misuse of educational funds and sanctions
An applicant who is found to have given false or misleading information and or uses fake data when applying for a grant, loses his right to a grant for 36 months. If the applicant has been paid a grant amount on the basis of fake and/or incorrect information, the person may demand a refund of the total amount of the grant plus late interest. The board of the fund reserves the right to report this type of offense to the police.

Prís – Verðlagsapp ASÍ

Prís er nýtt smáforrit á vegum verðlagseftirlits ASÍ. Með smáforritinu geta notendur á augabragði skoðað mismunandi verðlagningu vara á milli verslana.

Forritið er kröftugt innlegg Alþýðusambandsins í baráttunni gegn þeirri verðbólgu sem nú leggst á íslenskt samfélag. Standa vonir til þess að forritið auðveldi neytendum að veita virkt aðhald með samkeppni á smásölumarkaði.

Forritið var unnið af Alþýðusambandi Íslands en ríkisstjórn Íslands styrkir verkefnið með 15 m.kr. framlagi. Er það sameiginlegt markmið beggja aðila með verkefninu að vinna gegn verðbólgu.

Með appinu er hægt að skanna strikamerki á vörum og fá í kjölfarið uppgefið hvað varan kostar í fjölda verslana.

Verðlagseftirlitið hyggst halda áfram þróun smáforritsins og gera verðsögu aðgengilega í því, ásamt fleiri viðbótum sem gagnast neytendum.

Smáforritið er aðgengilegt fyrir öll snjalltæki, bæði Android og iOS.

Prís í Apple App Store

Prís í Google Play Store

Malt og Appelsín

Snjókorn falla til jarðar á aðventunni og stjörnur á himni móta fallega umgjörð um jólahátíðina á Húsavík. Það er ekki laust við að það sé spenningur í loftinu hjá ungviðinu á Torginu enda draumur um hvít jól svo jólasveinarnir komist klakklaust til byggða með jólagjafirnar á sleðunum sínum.

Í þá daga var öllum gert að hjálpast að, ekki síst á stóru heimili þar sem fjölskylda mín bjó frekar þröngt miðað við þægindin í dag, enda margir í heimili. Ég og bróðir minn, tveimur árum eldri, höfðum ákveðið hlutverk í aðdraganda jólanna. Það var að sendast til Alla Geira sem hafði umboð fyrir Ölgerðina sunnar í bænum til að kaupa tvo kassa af malti og appelsíni í gleri, sem við drógum síðan heim í Iðavelli á snjóþotum, enda ekki til bíll á heimilinu.

Á heimleiðinni var komið við í versluninni Búrfelli til að eiga viðskipti við kaupmanninn á horninu. Við höfðum nefnilega fengið hvor um sig 10 kr. fyrir að sækja drykkina góðu til Alla Geira. Það var alltaf gott að koma við í Búrfelli hjá Óla og Ingu enda yndisleg hjón í alla staði, en þau ráku búðina. Þrátt fyrir að við kæmum reglulega til þeirra til að versla, þekkti Óli okkur sjaldan enda fór það orð af honum að hann væri ekki sérstaklega mannglöggur. Það kom fyrir að hann spurði hvort við værum nýfluttir í bæinn, en svo var að sjálfsögðu ekki, enda alltaf búið á Húsavík. Oftast versluðum við bræður möndlur fyrir peninginn sem við fengum fyrir að sendast fyrir mömmu í búðina. Í Búrfelli heyrði ég í fyrsta skipti talað um sparnað, frá afgreiðslumanni við búðarborðið. Reyndar gerðum við allt til að forðast þennan ákveðna afgreiðslumann, sem við misskildum á þeim tíma, auðvitað vildi hann okkur vel. Það var nefnilega þannig að þegar við komum að afgreiðsluborðinu til að greiða fyrir möndlurnar, þá setti hann upp svip og sagði okkur að spara krónurnar og setja þær í sparibaukana okkar. Þá yrðum við ríkir í stað þess að eyða krónunum í tóma vitleysu. Við bara skildum þetta ekki, möndlurnar væru örugglega miklu betri fjárfesting og þarfari en einhver sparnaður sem væri algjörlega óþarfur fyrir unga menn. Auk þess höfðum við bræður ekki hugmynd um hvað væri að vera ríkur. Við komum frá alþýðuheimili þar sem kærleikurinn réð ríkjum og því lítið talað um peninga hvað þá hlutafjárkaup við eldhúsborðið.

Blundað í kirkjunni

Hjá okkur bræðrum var aðfangadagurinn lengsti dagur ársins, enda biðu fallega skreytir jólapakkar við jólatréð í stofunni eftir því að komast í hendurnar á ungum drengjum og öðru heimilisfólki síðla dags. Við vöknuðum fyrir allar aldir og biðin eftir því að fá að taka upp pakkana var oft óbærileg.  Hefð var fyrir því á heimilinu að sækja kirkju á aðfangadag. Meðan mamma undirbjó hátíðarkvöldverð fór pabbi með okkur börnin í kirkju svo hún fengi frið fyrir okkur. Við bræður settum eitt skilyrði fyrir kirkjusókninni, það var að við fengjum að sitja á fremsta bekk á norðurlofti kirkjunnar þar sem við sáum vel yfir kirkjugestina. Við fórum nefnilega í smá keppni. Við veðjuðum um hver gestanna yrði fyrstur til að sofna í kirkjunni, sem var oftast full af fólki og því frekar lítið um súrefni. Þess vegna kom reglulega fyrir að sérstaklega eldri menn dottuðu í kirkjunni.  Spenningurinn var því oft mikill hjá okkur bræðrum yfir því hver sofnaði fyrstur í athöfninni, hvor okkar stæði uppi sem sigurvegari. Já, það var ýmislegt gert sér til skemmtunar í kirkjunni á aðfangadag áður en sest var niður við hátíðarkvöldverð á Iðavöllum. Þegar líða fór á kvöldið voru jólagjafirnar teknar upp. Það voru leikfangabílar og heilu dýragarðarnir sem voru heitustu gjafirnar á þeim tíma. Ríkidæmið var reyndar ekki fólgið í efnislegum gæðum, heldur samverustundum með fjölskyldunni og nægjuseminni sem gerði það að verkum að við og vorum þakklát fyrir það sem við fengum. Minningarnar frá bernskujólunum eru baðaðar miklum ljóma og gleði. Að lokum vil ég óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Lífið er núna.

Aðalsteinn Árni Baldursson

Við leitum að öflugu fólki í stjórnir, ráð og nefndir

Uppstillinganefnd Framsýnar fundar stíft um þessar mundir. Hlutverk nefndarinnar er að stilla upp í flestar trúnaðarstöður á vegum Framsýnar fyrir komandi kjörtímabil 2024-2026, það er í stjórnir, ráð og nefndir á vegum félagsins, samtals um 80 félagsmönnum. Þeirri vinnu skal lokið fyrir 31. janúar 2024 og skal hún þá auglýst eftir samþykki stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar. Hér með er skorað á áhugasama að hafa samband við formann nefndarinnar Ósk Helgadóttir vilji menn gefa kost á sér í trúnaðarstörf fyrir félagið sem er bæði gefandi og skemmtilegt starf í alla staði. Það er að taka þátt í að móta kjör félagsmanna og starf félagsins til framtíðar. Netfangið hjá formanni nefndarinnar er okkah@hotmail.com. Frestur til að gefa kost á sér er til 10. janúar 2024.

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar verður haldinn fimmtudaginn 11. janúar kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna.

Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
    Kosning starfsmanna fundarins
    Skýrsla stjórnar
    Stjórnarkjör
  2. Önnur mál

Skorað er á félagsmenn deildarinnar sem falla undir deildina að mæta á fundinn og taka þátt í líflegum umræðum, ekki síst um kjaramál. Það er félagsmenn Framsýnar sem starfa við verslun, þjónustu og skrifstofustörf.

Stjórn deildarinnar

Líflegur aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar var haldinn í gær. Miklar og góðar umræður urðu um um stöðu sjómanna sem hafa verið samningslausir á fimmta ár. Ályktað var um málið. Þá urðu jafnframt umræður um skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2023. Stjórnin var endurkjörin nema hvað Sigdór Jósefsson kemur nýr inn í stjórn deildarinnar. Jakob Gunnar Hjaltalín var endurkjörin sem formaður félagsins og Börkur Kjartansson sem varaformaður. Aðrir í stjórn eru Gunnar Sævarsson og Héðinn Jónasson. Meðfylgjandi fréttinni eru myndir frá fundinum og  skýrsla stjórnar sem formaður deildarinnar fylgdi eftir.

„Ég vil fyrir hönd stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar bjóða ykkur velkomna til fundarins um leið og ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra farsældar á árinu 2024. Skýrslunni er ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna varðandi starfsemi deildarinnar á umliðnu starfsári 2023, jafnframt því að svara spurningum fundarmanna um allt það sem viðkemur starfseminni á hverjum tíma og málefnum sjómanna. 

Fjöldi sjómanna í deildinni:

Varðandi fjölda sjómanna innan deildarinnar er ekki auðvelt að gefa upp nákvæma tölu um félagafjölda. Áætlaður fjöldi um þessar mundir með gjaldfrjálsum sjómönnum er um 90 sjómenn. Inn í þeirri tölu eru sjómenn sem starfa við hvalaskoðun enda tryggðir eftir kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og SFS. Auk þess sem grunnlaun sjómanna um borð í hvalaskoðunarbátum hafa tekið mið af kaupgjaldsská samtaka sjómanna og þeirra viðsemjenda. Þegar talað er um gjaldfrjálsa sjómenn er verið að tala um sjómenn sem hætt hafa störfum til sjós vegna aldurs eða örorku.

Kjaramál:

Núgildandi kjarasamningur Sjómannasambands Íslands og SFS rann út 1. desember 2019 og hafa sjómenn því verið samningslausir í rúmlega fjögur ár. Reyndar skrifuðu Sjómannafélag Íslands og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) undir kjarasamning, um kaup og kjör sjómanna á fiskiskipum 13. febrúar 2023, það er eftir að samningaviðræður höfðu staðið yfir um nokkurt skeið. Í kjölfarið fór fram atkvæðagreiðsla um samninginn. Öll aðildarfélög innan Sjómanna-sambandsins felldu kjarasamninginn með afgerandi hætti. Deilan er því áfram inn á borði ríkissáttasemjara. Samningsaðilar hittast annað slagið hjá ríkissáttasemjara og eru í reglulegu sambandi til að leita lausnar í deilunni. Fyrirhugað er að kalla saman fulltrúa frá aðildarfélögum Sjómannasambandsins eftir áramótin til að fara yfir stöðuna og ákveða næstu skref, það er hverju er hægt að breyta í þeim samningi sem var felldur svo sjómenn geti vel við unað og samþykkt nýjan kjarasamning. Það er sjómanna að ákveða hvort þeir verða samningslausir næstu árin eða eru tilbúnir að ljúka málinu með undirskrift nýrra samninga með fáeinum breytingum frá fellda samningnum eða verkfallsaðgerðum.

Eins og fram kemur í skýrslunni er staðan í kjaramálunum mjög þung.  Sjómenn innan Sjómannadeildar Framsýnar kalla eftir viðhorfsbreytingum hjá útgerðarmönnum svo hægt verði að ganga frá viðunandi kjarasamningi fyrir sjómenn sem fyrst á árinu 2024. Látum það ekki gerast að sjómenn verði samningslausir eitt árið í viðbót. Varðandi kjarasamning milli LS og SSÍ þá hefur sá samningur verið laus frá 1. febrúar 2014. Upp úr viðræðum við LS slitnaði á vormánuðum 2017 og hafa viðræður ekki farið af stað aftur milli aðila um endurnýjun kjarasamningsins.

Hvalaskoðun – kjarasamningar:
Sjómannadeild Framsýnar mun fara í viðræður við Samtök atvinnulífsins í byrjun næsta árs hvað varðar sérkjarasamning félagsins fyrir starfsmenn við hvalaskoðun innan deildarinnar. Afar mikilvægt er að viðhalda samningnum þar sem fjöldi fólks starfar við hvalaskoðun frá Húsavík.

Stjórnarmenn og fundir:

Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári: Jakob G. Hjaltalín formaður, Börkur Kjartansson varaformaður, Gunnar Sævarsson ritari og Aðalsteinn Steinþórsson og Héðinn Jónasson meðstjórnendur. Stjórnin hélt einn formlegan stjórnarfund milli aðalfunda auk þess sem stjórnarmenn voru í símasambandi þegar á þurfti að halda. Formaður deildarinnar situr í aðalstjórn Framsýnar sem og varaformaður deildarinnar sem fundar reglulega. Þar hafa þeir fylgt eftir málefnum sjómanna og átt gott samstarf við aðalstjórn félagsins. Formaður deildarinnar hefur verið virkur í starfi Sjómannasambandsins á árinu og tekið þátt í fundum á vegum sambandsins.

Þing SSÍ:

33. þing Sjómannasambands Íslands var haldið dagana 9. og 10. nóvember 2023 að Grand Hóteli í Reykjavík. Helstu málefni þingsins auk hefðbundinna þingstarfa voru öryggismál sjómanna, atvinnu- og kjaramál. Jakob Gunnar Hjaltalín og Börkur Kjartansson voru fulltrúar Framsýnar á þinginu. Ályktanir þingsins eru meðfylgjandi skýrslu stjórnar.

Sjómannadagurinn og heiðrun sjómanna:

Allt frá árinu 2010 hefur Sjómannadeild Framsýnar séð um heiðrun sjómanna á Sjómannadaginn á Húsavík. Heiðrun sjómanna féll niður árin 2020 og 2021 vegna Covid. Því miður kom ekki til þess að talin væri ástæða til að heiðra sjómenn sérstaklega á árinu 2023. Þar kemur til að Sjómannadagurinn var ekki haldinn hátíðlegur í ár, svo virðist sem hátíðarhöld sem fylgt hafa þessum degi séu því miður úr sögunni á Húsavík. Eins og fram hefur komið hefur Sjómannadeild Framsýnar séð um heiðrunina í umboði Sjómannadagsráðs undanfarin ár. Sjómannadeildin kom að því að styrkja hátíðarhöldin á Raufarhöfn auk þess að standa fyrir kaffiboði á Raufarhöfn í aðdraganda Sjómannadagsins. Heimamenn hafa lagt mikið upp úr því að viðhalda þessum sögulega degi með því að standa fyrir hátíðarhöldum á Raufarhöfn sem er vel.

Fræðslumál:

Sjómennt er fræðslusjóður sjómanna og útgerðarfyrirtækja. Markmið sjóðsins er að treysta stöðu sjómanna á vinnumarkaði með því að gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera þá hæfari til að takast á við ný og breytt verkefni. Helstu verkefni Sjómenntar eru m.a. að styrkja starfstengt nám og námskeið fyrir sjómenn. Á árinu sem er að líða fengu félagsmenn innan deildarinnar greiddar kr. 194.173,- í styrki vegna starfsmenntunar. Þá er rétt að taka fram að Fræðslusjóður Framsýnar hefur auk þess í gegnum tíðina komið að því að styðja aukalega við bakið á sjómönnum í kostnaðarsömu námi.

Kaup á orlofsíbúð:

Framsýn hefur samþykkt að kaupa eina orlofsíbúð að Hraunholti 22 á Húsavík. Þingiðn hefur jafnframt samþykkt að kaupa hina íbúðina í húsinu. Um er að ræða 4 herbergja íbúð á einni hæð í tvíbýli. Íbúðin sjálf er 105,7 m2 að stærð auk þess sem um 12 m2 garðskúr fylgir íbúðinni. Eignin afhendist fullbúin með lóð 1. ágúst 2024 eða eftir nánara samkomulagi. Kaupverð kr. 69.350.000,-. Ákvörðunin um kaupin var tekin á sameiginlegum félagsfundi 21. nóvember þar sem tillaga um kaup á íbúðinni var samþykkt samhljóða. Með þessum kaupum vill félagið auka enn frekar þjónustu við almenna félagsmenn. Jafnframt er til skoðunar að nota íbúðirnar í skiptum, hluta úr ári, fyrir önnur orlofshús í eigu annarra stéttarfélaga víða um land. Slík skipti opna á nýja og áhugaverða möguleika fyrir félagsmenn Þingiðnar og Framsýnar, þannig fengju þér aðgengi að orlofshúsum s.s. á Vestfjörðum, Vesturlandi og á Suðurlandinu í staðin fyrir orlofsíbúðirnar á Húsavík, sérstaklega yfir sumartímann. Félögin skoðuðu hvort þau ættu að fjárfesta í orlofshúsum í orlofsbyggðum t.d. á Suðurlandinu í stað þess að fjárfesta í orlofsíbúðum á Húsavík. Eftir skoðun var samþykkt samhljóða að fjárfesta frekar í íbúðum á Húsavík enda miklu betri nýting á slíkum íbúðum heldur en í orlofsbyggðum þar sem nýtingin á ársgrundvelli er um 12 vikur yfir sumarmánuðina. Auk þess sem það er miklu kostnaðarasamara að reka orlofshús í skipulögðum orlofsbyggðum en á Húsavík. Full ástæða er til að óska félagsmönnum Þingiðnar og Framsýnar til hamingju með kaupin á íbúðunum sem koma til með að fjölga orlofskostum félagsmanna umtalsvert á komandi árum.                                 

Félagsmönnum utan Húsavíkur sem þurfa á gistingu að halda vegna veikinda stendur einnig til boða að fá íbúðirnar leigðar þurfi þeir að vera tímabundið nálægt Heilbrigðisstofnun Þingeyinga af heilsufarsástæðum.

Skrifstofa stéttarfélaganna:

Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa sex starfsmenn á skrifstofunni. Til viðbótar er einn starfsmaður í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru sex starfsmenn í 0,25% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Af þeim sex starfsmönnum sem starfa á skrifstofunni er einn kostaður af VIRK starfsendurhæfingarsjóði. Sá starfsmaður mun flytjast alfarið til VIRK 1. maí 2024.

Öflugt starf og upplýsingamál:

Almennt gekk starfsemi Framsýnar vel á árinu 2023, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra, orlofs- og starfsmenntasjóðum. Hér  að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að félagsmenn séu nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is og Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna á hverjum tíma. Hvað Fréttabréfið og heimasíðuna varðar væri áhugavert að sjómenn sendi inn myndir og jafnvel fréttir af lífinu um borð til birtingar í miðlum Framsýnar. Það yrði vel þegið. Í lokin vil ég þakka sem formaður deildarinnar sjómönnum, meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári sem verið hefur með miklum ágætum.“

Ályktað um kjaramál – staðan óásættanleg með öllu

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar fór fram í gær, 27. desember. Miklar umræður urðu um stöðu sjómanna sem hafa verið samningslausir á fimmta ár. Krafa sjómanna á Húsavík er að gengið verði frá viðunandi kjarasamningi fyrir sjómenn á næstu vikum, ef ekki er þess krafist að aðildarfélög Sjómannasambands Íslands knýi á um lausn kjaradeilunnar með viðeigandi aðgerðum. Ályktun fundarins er eftirfarandi:

„Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar, haldinn 27. desember 2023 ítrekar kröfur félagsins um að þegar í stað verði gengið frá viðunandi kjarasamningi fyrir hönd sjómanna sem byggir á kröfugerð aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands. Svo það sé rifjað upp, þá hafa sjómenn verið samningslausir frá 1. desember 2019.

Aðalfundurinn skorar á samtök sjómanna að hefja undirbúning að aðgerðum gegn útgerðarfyrirtækjum í samráði við aðildarfélögin til að knýja á um lausn kjaradeilunnar, náist ekki kjarasamningar í ársbyrjun 2024. Núverandi ástand og samningsleysi sjómanna á fimmta ár er ólíðandi með öllu og útgerðarmönnum til skammar. Það er ekki í boði að láta enn eitt árið líða án þess að gengið verði frá kjarasamningi við samtök sjómanna.“

Ernir með aukaflug til Húsavíkur 2. janúar

Flugfélagið Ernir hefur ákveðið að bjóða upp á aukaflug til Húsavíkur þann 2. janúar næstkomandi sökum ákalls heimamanna um frekari þjónustu. Brottför frá Reykjavík er 12:00 og brottför frá Húsavík er 13:15.  Þetta var staðfest með samtali forsvarsmanna Framsýnar og flugfélagsins í dag. Að sjálfsögðu eru þetta ánægjulegar fréttir enda margir á ferðinni um og eftir áramótin.  

Sjómenn, munið aðalfundin í dag

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar fer fram í dag kl. 17:00. Skorað er á starfandi sjómenn að fjölmenna á fundinn. Auk venjulegra aðalfundarstarfa verður umræða um kjaramál og þá verður boðið upp á hefðbundnar veitingar í lok fundarins. Stjórnin.

Farþegum hvalaskoðunarferða fjölgar verulega milli ára

Á árinu 2023 fóru 131.000 manns í hvalaskoðunarferðir frá Húsavík sem er tæplega 24% aukning frá fyrra ári. Árið 2023 er þar með stærsta árið í hvalaskoðun til þessa en um 110.000 farþegar fóru í hvalaskoðunarferðir frá Húsavík á árunum 2016- 2018. Fjögur fyrirtæki hafa boðið uppá í hvalaskoðunarferðir á þessu ári. Þessa frétt er að finna inn á síðu Norðurþings.

Stærstu stéttarfélög og landssambönd á almennum vinnumarkaði taka höndum saman um nýja þjóðarsátt

Íslensk heimili hafa of lengi verið föst í spennitreyju ofurvaxta og óðaverðbólgu, en hætta er á að kjarabætur sem náðst hafa fram í kjarasamningum síðustu ára brenni upp og verði að engu. Það hvernig tekst til við endurnýjun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði eftir áramótin mun skera úr um þetta.

Fulltrúar stærstu landssambanda og stéttarfélaga landsins skynja ákall samfélagsins um farsæla kjarasamningagerð og átta sig á fordæmisgefandi hlutverki kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði.

Formenn Eflingar, Landsambands íslenzkra verzlunarmanna, Samiðnar – sambands iðnfélaga, Starfsgreinasambands Íslands og VR eru sammála um grundvallarnálgun í komandi kjarasamningagerð, en samanlagt fara þessi félög með samningsumboð fyrir rúmlega 115 þúsund manns eða um 93% launafólks innan vébanda ASÍ.

Í sameiginlegri grundvallarnálgun þessara félaga er horft til þess að hófsamar launahækkanir á formi krónutöluhækkana verði bundnar ströngum forsendum um lækkun verðbólgu og vaxta, með það að markmiði að verja og auka kaupmátt launa meirihluta alls launafólks. Nálgunin felur í sér að allir aðilar sem hafa áhrif á afkomu heimilanna axli ábyrgð – fyrirtæki, stjórnvöld og sveitarfélög.

Stjórnvöld verða að leiðrétta stórfellda rýrnun barnabóta, vaxtabóta og húsnæðisbóta síðustu áratugi, en þessar skattfrjálsu bætur eru líflína margra heimila í landinu. Einnig verður að gera löngu tímabærar ráðstafanir til að tryggja öryggi leigjenda og koma jafnvægi á húsnæðismarkaðinn í heild sinni.

Félögin munu skipa sameiginlega samninganefnd, sem verður falið að leiða viðræður við stjórnvöld og SA um heildstæðan langtímasamning byggðan á þessari grundvallarnálgun.

Á myndinni með fréttinni eru formenn félaganna sem sátu óformlegan fund með Samtökum atvinnulífsins í húsnæði Ríkissáttasemjara í dag. Á myndina vantar Eið Stefánsson frá Landssambandi íslenzkra verzlunarmanna.