Vikan með formanni

Vikan byrjaði á mánudagsmorgun með fundi í stjórn sjúkrasjóðs félagsins en stjórn sjóðsins kemur saman mánaðarlega og úthlutar sjúkrastyrkjum og sjúkradagpeningum til félagsmanna í samræmi við lög sjóðsins. Úthlutuð var um 5 milljónum til 150 félagsmanna.

Fyrirtæki hafa verið í sambandi þar sem vöntun er á starfsfólki til starfa á félagssvæði stéttarfélaganna og reyndar austur á firði einnig. Illa gengur að fá fólk til að taka þessum störfum sem er umhugsunarefni á sama tíma og fjöldi fólks er á atvinnuleysisbótum. Mikilvægt er að efla vinnumiðlun á vegum Vinnumálastofnunnar.

Því miður eru kjarasamningsbrot of algeng í ferðaþjónustunni. Framsýn vinnur að því að stefna ákveðnu fyrirtæki í ferðaþjónustu sem er fyrirmunað að virða ákvæði kjarasamninga.

Fundaði með stjórn, trúnaðarráði og stjórn Framsýn-ung síðasta miðvikudag. Fjörugur og upplýsandi fundur þar sem Lífskjarasamningurinn, uppsagnir á kjörum hjá ákveðnum hópi hjá Norðurþingi, atvinnuástandið, verðkannanir og önnur mikilvæg mál voru til umræðu. Það er hreint út frábært að starfa með öllu því góða fólki sem gefur sig fram í þessi mikilvægu störf fyrir félagið. Eintaklega samhentur og góður hópur.

Gáfum út Fréttabréf í vikunni með helstu fréttum úr starfsemi stéttarfélaganna undanfarna mánuði. Ómissandi þáttur í starfi félaganna sem félagsmenn kunna vel að meta.

Góður samstarfsfélagi lét af störfum um síðustu mánaðamót, Huld Aðalbjarnardóttir fjármála- og skrifstofustjóri stéttarfélaganna.  Huld hefur verið góður samstarfsfélagi í gegnum tíðina og það hefur bæði verið gefandi og eins skemmtilegt að starfa með henni að málefnum stéttarfélaganna. Elísabet Gunnarsdóttir hefur tekið við starfi hennar sem fjármálastjóri stéttarfélaganna. Lísa hefur víðtæka reynslu og menntun er viðkemur bókhaldi og fjármálastjórnun. Lísa er með BS í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og MS í fjármálum fyrirtækja frá Háskóla Íslands. Hún hefur undanfarin ár starfað hjá Norðursiglingu og þar áður hjá endurskoðunarfyrirtækjunum ENOR og PwC. Um leið og Huld eru þökkuð vel unnin störf í þágu stéttarfélaganna er Elísabet boðin velkomin til starfa.

Sagði frá því á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar í vikunni að ég hefði ákveðið að gefa ekki kost á mér í miðstjórn eða varamiðstjórn ASÍ. Hef undanfarið setið í varamiðstjórn. Tilnefningar í miðstjórn ASÍ voru nýlega til umræðu á formannafundi Starfsgreinasambands sem á rétt á 6 fulltrúum í miðstjórn og 6 mönnum í varastjórn samkvæmt ákveðnu fyrrikomulagi. Óánægja með núverandi forystusveit ASÍ hafði þar úrslitaráhrif. Sambandsleysi milli ASÍ, SA og stjórnvalda er aldrei vænlegt til árangurs eins og bergmálað hefur í fjölmiðlum undanfarið og  fyrrverandi forseti ASÍ kom inn á í fjölmiðlum í vikunni. Þá er ólíðandi að ný störf og önnur störf á skrifstofu ASÍ séu ekki auglýst laus til umsóknar en núverandi forysta hefur handvalið í störfin sem hafa losnað, það á ekki að líðast hjá hreyfingu sem kennir sig við jafnrétti, jöfnuð og virkt lýðræði.

Skrifaði Sigurði Inga ráðherra bréf í vikunni varðandi áætlunarflug um Húsavíkurflugvöll sem er okkur Þingeyingum afar mikilvægt. Kom nokkrum ábendingum á framfæri við hann sem betur mega fara.

Var einnig í sambandi við stjórnendur Flugfélagsins Ernis um stöðuna og áframhaldandi flug til Húsavíkur í vetur. Átti góðar samræður við þá enda höfum við verið í góðu sambandi við þá með samningi um ákveðin kjör fyrir félagsmenn sem gildir vel fram á næsta ár enda verði ekki breytingar á flugi til Húsavíkur á þessum undarlegu tímum.

Gerðum samkomulag við PCC um vinnutímastyttingu hjá starfsmönnum. Afar gott mál og einfalt í framkvæmt. Starfsmenn koma til með að fá 6 daga auka frí á ári án þess að skerðast í launum. Það er 48 dagvinnustundir.

Óánægja meðal starfsmanna Norðurþings. Stjórnendur Norðurþings hafa ráðist í miklar aðhaldsaðgerðir sem beinast m.a. að kjörum starfsmanna sveitarfélagsins. Vitað er að búið er að boða breytingar hjá Orkuveitunni og á leikskólanum Grænuvöllum. Hvað starfsmenn Grænuvalla varðar er um að ræða boðaðar breytingar á kjörum starfsmanna sem koma mjög illa við starfsmenn, það er um er að ræða töluverðar kjaraskerðingar fyrir starfsmenn gangi tillögur Norðurþings að fullu eftir. Félag leikskólakennara hefur óskað eftir samstarfi við Framsýn varðandi þetta mál sem er í skoðun. Fundað verður með starfsmönnum Grænuvalla næstkomandi þriðjudag um málið.

Átti samtal við einstakling sem óskaði eftir fundi með mér og varðar málefni eldri borgara og öryrkja, það er störfum þeirra á vinnumarkaði. Áhugavert mál sem full ástæða er til að skoða betur.

Félagi Jónas Kristjánsson formaður Þingiðnar fagnar 60 ára afmæli í dag. Að sjálfsögðu komum við honum á óvart í morgun og buðum honum í morgunkaffi með starfsmönnum stéttarfélaganna. Hamingjuóskir til Jónasar og fjölskyldu með afmælisbarnið.

Hef unnið að mikilvægu máli sem vonandi er í höfn og kallar á aukna starfsemi á vegum stéttarfélaganna. Þar sem málið er á viðkvæmu stigi get ég ekki sagt meira að sinni.  Vonandi verður hægt að sjá frétt um málið á heimasíðunni í næstu viku. Þangað til er það trúnaðarmál.

Annars góður og góða helgi ágætu fjölmörgu lesendur heimasíðu stéttarfélaganna. Lífið er núna eins og maðurinn sagði!

Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar

(Skrifa þennan pistil til fróðleiks fyrir félagsmenn, hugsanlega vikulega gefist tími til þess)

 

 

 

Deila á