Nýtt – Nýtt Ferðaávísanir komnar í sölu

Stéttarfélögin; Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur hafa stóraukið aðgengi félagsmanna að gistingu víða um land með samningi við fjölmörg ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi. Þannig vilja stéttarfélögin efla innlenda ferðaþjónustu á þessum sérstöku tímum. Fyrirtækið Dorado hefur verið í forsvari í málinu fh. stéttarfélaganna. Nú geta félagsmenn stéttarfélaganna farið inn á orlofsvef félaganna sem er til staðar á framsyn.is. Í boði er að kaupa ferðaávísun sem er inneign, sem félagsmenn geta notað til að greiða fyrir gistingu hjá einhverjum af fjölmörgum samstarfsaðilum stéttarfélaganna. Félagsmenn eru ekki skuldbundnir til að nota ávísunina á tilteknu hóteli/gistiheimili, eftir að hún hefur verið keypt. Upphæðina geta menn notað hjá hvaða samstarfsaðila okkar sem er. Nota þarf rafræn skilríki eða íslykil. Þegar innskráningu er lokið velur viðkomandi félagsmaður „FERÐAÁVÍSUN“ og „Kaupa ferðaávísun“. Þar inni geta menn síðan skoðað úrvalið og keypt ferðaávísun með því að smella á þrjú strik efst í vinstra horni. ATHUGIÐ! Nauðsynlegt er að kanna hvort það séu laus herbergi á réttum tíma og réttum stað og bóka gistingu.

Stéttarfélögin ábyrgst ekki að gistirými sé laust þegar félagsmaður hyggst nota ávísunina. Handhafi ávísunar þarf sjálfur að bóka herbergi og gangast undir bókunarskilmála hvers samstarfsaðila. Komi upp ágreiningur vegna veittrar þjónustu skal beina því erindi til viðkomandi samstarfsaðila. Seljandi ferðaávísunar ábyrgist ekki gæði þjónustu samstarfsaðilanna.  Niðurgreiðsla til félagsmanna nemur 20% þó að hámarki kr. 15.000 á árinu 2020. Niðurgreiðslan verður svo endurskoðuð um næstu áramót þegar reynsla verður komin á þessar nýjungar sem fjölmargir félagsmenn eiga örugglega eftir að nýta sér. Nánari upplýsingar er hægt að fá á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Deila á