Kallað eftir upplýsingum um starfsemi SSNE

Framsýn hefur ákveðið að kalla eftir frekari upplýsingum frá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, SSNE. Þrátt fyrir loforð um að aðalstöðvar samtakanna yrðu á Húsavík virðist sem tekin hafi verið ákvörðun um að þær verði á Akureyri, ekki er vitað hvar sú ákvörðun var tekin sem er auk þess á skjön við yfirlýsingar sveitarstjórnarmanna í Þingeyjarsýslum og samþykktir Eyþings sem staðfestar eru í fundargerðum. Þá hefur fyrrverandi framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga sagt upp störfum, ekki er vitað til þess að auglýst hafi verið eftir nýjum starfsmanni sem komi til með að starfa á Húsavík. Við þessa sameiningu leggst starf framkvæmdastjóra af hjá AÞ og færist til Akureyrar þar sem nýr framkvæmdastjóri verður með aðsetur hjá nýrri sameiginlegri stofnun.  Bréfið er svohljóðandi: 

Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, SSNE
Bt. Hilda Jana Gísladóttir stjórnarformaður
Hafnarstræti 91
600 Akureyri 

Húsavík 22. apríl 2020

 Varðar starfsemi SSNE
Fyrir liggur að búið er að sameina þrjú félög/stofnanir á Norðurlandi  í ein samtök undir merkjum Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, SSNE. Þar á meðal Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga.

Framsýn stéttarfélag hefur frá upphafi verið hluthafi í Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga og tekið virkan þátt í starfsemi félagsins m.a. með stjórnarsetu. Að mati Framsýnar hefur starfsemi Atvinnuþróunarfélagsins í gegnum tíðina skilað góðum árangri. Tilgangur AÞ hefur verið að vinna að hagsmunamálum íbúa, sveitarfélaga og fyrirtækja á starfssvæðinu. Með það að markmiði að stuðla að jákvæðri þróun atvinnulífs og bæta almenn búsetuskilyrði í Þingeyjarsýsum.

Síðan þekkja menn söguna, Framsýn hefur komið óánægju sinni vel á framfæri varðandi sameiningu þessara stofnana við sveitarstjórnarmenn og hugmyndafræðinganna að baki sameiningunni. Reyndar er afar lítill hljómgrunnur fyrir þessari sameiningu meðal Þingeyinga.

Í sameiningarferlinu hafa margar spurningar vaknað sem sumum hefur verið svarað meðan öðrum viðkvæmum spurningum hefur ekki verið svarað þrátt fyrir ítrekanir þess efnis.

Tilgangurinn með þessu bréfi er ekki síst að kalla eftir svörum varðandi aðalstöðvar SSNE og hvort búið sé að auglýsa starf Reinhards Reynissonar laust til umsóknar.

Í fundargerðum Eyþings má sjá að samþykki liggur fyrir því að aðalstöðvar nýju samtakanna verði á Húsavík. Síðar er farið að tala um á fundum innan Eyþings að lögheimili og varnarþing samtakanna verði á Húsavík. Þarna er strax byrjað að gefa eftir fyrri samþykkt Eyþings og áfram er haldið á þessari braut, því samkvæmt upplýsingum sem fram koma á vef Ríkisskattstjóra er starfsemi samtakanna skráð til heimilis á Akureyri.

Því er spurt, er endanlega búið að ákveða að aðalstöðvar SSNE verði á Akureyri?

Voru sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum höfð með í ráðum þegar þetta var samþykkt?

  • Þess ber að geta að talsmenn sveitarfélaganna í Þingeyjarsýslum töluðu fyrir því að aðalstöðvarnar yrðu á Húsavík. Sögðu reyndar við formann Framsýnar, að hann þyrfti ekki að óttast neitt, það væri búið að ganga frá því að aðalstöðvarnar yrðu á Húsavík og vísuðu í fundargerðir Eyþings máli sínu til stuðnings.

Nú liggur fyrir að Reinhard Reynisson fyrrverandi framkvæmdastjóri AÞ er að láta af störfum hjá SSNE/Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga. Er búið að auglýsa starf hans laust til umsóknar?

Er búið að skilgreina hvar starfstöðvarnar verða á þjónustusvæði SSNE?

  • Talað hefur verið um að þær verði fjórar ef eitthvað er að marka fyrri ákvarðanir.

Er búið að ákveða fjölda starfa hjá hverri starfstöð?

  • Framsýn hefur talað fyrir því að ákveðin starfsmannafjöldi verði á bak við hverja starfsstöð. Verði það ekki gert er ekki ólíklegt að störfin færist á eina starfsstöð, það er til Akureyrar.

Þess er vænst að stjórnendur SSNE svari þessum spurningum við fyrsta tækifæri.

Virðingarfyllst

 Fh. Framsýnar stéttarfélags

____________________________
Aðalsteinn Árni Baldursson

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila á