Kalla eftir upplýsingum frá sveitarfélögum varðandi AÞ

Framsýn hefur ákveðið að kalla eftir upplýsingum frá þeim sveitarfélögum í Þingeyjarsýslum sem eiga aðild að Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga varðandi ákvarðanatöku sveitarfélaganna að sameina félagið Eyþingi og Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar. Almenn óánægja er með þessa ákvörðun sveitarfélaganna. Þá telja stéttarfélögin að þau hafi verið svikin þar sem þau samþykktu að gefa eftir hlutafé í atvinnuþróunarfélaginu þegar sveitarfélögin lögðu til að formi atvinnuþróunarfélagsins yrði breytt  úr hlutafélagi í sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri í Þingeyjarsýslum. Megin rökin fyrir samþykktinni voru þau að þannig stuðlaði starfsemin að þéttara samstarfi sveitarfélaganna á starfssvæðinu og kjörnir sveitarstjórnarmenn fengju meiri innsýn varðandi starfsemina í Þingeyjarsýslum. Eftir þessa samþykkt, sem menn héldu að væri komin til að vera, gengu sveitarfélögin enn lengra með því að sameina atvinnuþróunarfélagið, Eyþingi og Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar í andstöðu við stéttarfélögin.

Í bréfi stéttarfélaganna til sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum kemur fram:

Stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum hefur lengi verið umhugað um byggða- og atvinnumál í Þingeyjarsýslum. Liður í því hefur verið virk þátttaka í starfi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga.

Á sínum tíma var lagt að stéttarfélögunum að koma að starfseminni með hlutafé sem þau og gerðu ásamt sveitarfélögum, einstaklingum og öðrum félagasamtökum.

Á grundvelli samþykktar fulltrúaráðs Héraðsnefndar Þingeyinga bs. 8. nóv. 2017 var formi atvinnuþróunarfélagsins breytt  úr hlutafélagi í sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri. Megin rökin fyrir samþykktinni voru þau að þannig stuðlaði starfsemin að þéttara samstarfi sveitarfélaganna á starfssvæðinu og kjörnir sveitarstjórnarmenn fengju meiri innsýn varðandi starfsemina. Þrátt fyrir að stéttarfélögin væru þeirrar skoðunar á þeim tíma, að halda ætti starfsemi atvinnuþróunarfélagsins í óbreyttu formi, féllust þau á að fara þessa leið. Enda markmiðið með breytingunum ekki síst að efla starfsemina í heimabyggð svo vitnað sé í umræðuna sem átti sér stað innan byggðaráðs Norðurþings, sameining til Eyjarfjarðar var ekki talin vænlegur kostur:

Ekki síst í ljósi þessar umræðu töldu stéttarfélögin rétt að gefa eftir sitt hlutafé og ganga þessa vegferð með sveitarfélögunum sem vissulega bera ábyrgð á starfsemi Atvinnu-þróunarfélagsins umfram aðra enda að mestu eigendur félagsins. Reyndar hafa sveitarfélögin alltaf lagt mikið upp úr góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins á svæðinu er varðar starfsemi AÞ.

Eins og fram hefur komið tóku sveitarfélögin hins vegar u beygju í málinu og ákváðu að fara leiðina sem varað var við á fundi byggðaráðs Norðurþings og vitnað er til í bréfi þessu, það er að sameinast Eyþingi og Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar.

Því má segja að sveitarfélögunum hafi tekist að leika á stéttarfélögin sem í góðri trú lögðu í þessa vegferð með því að gefa eftir sitt hlutafé enda stefnan tekin á að efla starfsemina í heimabyggð en ekki að sameina hana öðrum stofnunum á Norðurlandi.

Með þessu bréfi kallar Framsýn stéttarfélag eftir fundargerðum þeirra sveitarfélaga sem tengjast málinu sem varðar ákvörðun þess efnis að leggja af starfsemi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga í þeirri mynd sem verið hefur og sameinast Eyþingi og Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar.

Þetta eru sveitarfélögin; Norðurþing, Skútustaðahreppur, Þingeyjarsveit, Langanesbyggð, Tjörneshreppur og Svalbarðshreppur.

Beðið er um staðfestingu á því að sameining AÞ við Eyþing og AE hafi verið formlega tekin fyrir í viðkomandi sveitarstjórn og samþykkt með formlegum hætti enda um grundvallar ákvörðun að ræða sem fellur undir ákvarðanatöku sveitarstjórna.

Þess er vænst að bréflegt svar við fyrirspurninni liggi fyrir í síðasta lagi 31. mars 2020.

 

 

 

Deila á