Elva nýr formaður deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar var haldinn í gær í fundarsal félagsins. Elva Héðinsdóttir var kjörin formaður deildarinnar. Elva er 28 ára gömul og starfar hjá endurskoðunarfyrirtækinu PwC á Húsavík. Elva er boðin velkomin til starfa en markmið Framsýnar hefur verið að bjóða ungu og efnilegu fólki að taka að sér krefjandi störf fyrir félagið enda framtíðin þeirra. Aðrir í stjórn verða Trausti Aðalsteinsson varaformaður, Karl Hreiðarsson ritari og í varastjórn Anna Brynjarsdóttir og Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir. Fyrir var Jónína Hermannsdóttir formaður en hún tók við tímabundið eftir að kjörin formaður, Jóna Matthíasdóttir, hætti sem formaður þar sem hún starfaði ekki lengur undir samningssviði deildarinnar. Á fundinum voru Jónínu og Jónu þökkuð vel unnin störf í þágu deildarinnar.

Á fundinum urðu góðar umræður um kjaramál og lélega þátttöku almennt hjá fólki að taka þátt í atkvæðagreiðslum um kjarasamninga. Fundarmenn voru sammála um að það væri mikið áhyggjuefni, það er þátttökuleysið. Opnunartími verslana var ræddur, vinnutímastyttingar samkvæmt ákvæðum kjarasamninga og íbúðakaup Framsýnar á Akureyri fyrir félagsmenn sem almenn ánægja er með.

Jónína Hermannsdóttir fráfarandi formaður deildarinnar gerði grein fyrir skýslur stjórnar:

Skýrsla stjórnar:
Fyrir hönd stjórnar Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar stéttarfélags býð ég ykkur öll velkomin til aðalfundar deildarinnar. Innan Framsýnar tvær sjálfstæðar deildir, Sjómannadeild og Deild verslunar- og skrifstofufólks. Á síðasta starfsári var stjórn deildarinnar þannig skipuð; Jónína Hermannsdóttir formaður, Trausti Aðalsteinsson varaformaður, Karl Hreiðarsson ritari og í varastjórn sátu Anna Brynjarsdóttir og Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir. Varðandi starfsemina þá var lítið um formleg fundarhöld hjá stjórn deildarinnar á síðasta starfsári. Einn stjórnarfundur var skráður. Samkvæmt félagslögum er formaður deildarinnar einnig tilnefndur í aðalstjórn Framsýnar á hverjum tíma til tveggja ára í senn. Núverandi kjörtímabil er 2018-2020. Aðalstjórn fundar reglulega eða að jafnaði einu sinni í mánuði. Um þessar mundir er verið að stilla upp í trúnaðarstöður á vegum Framsýnar stéttarfélags fyrir næsta kjörtímabil, það er 2020-2022. Tillaga kjörnefndar verður auglýst í febrúar. Jónína Hermannsdóttir fór á 31. þing LIV sem haldið var á Akureyri dagana 18 – 19 október 2019. Hún var kjörin í varastjórn og kjörnefnd LÍV. Þá hefur hún verið virk, hvað varðar, að sækja fundi á vegum LÍV á starfsárinu. Ástæða er til að þakka aðalstjórn, trúnaðarráði og starfsmönnum félagsins fyrir gott og árangursríkt samstarf auk veittrar þjónustu til stjórnar deildarinnar og félagsmanna. Eðli málsins samkvæmt leita félagsmenn í flestum tilfellum beint til Skrifstofu stéttarfélaganna með sín mál.

Félagatal:
Á árinu 2019 greiddu 386 manns til deildarinnar, þar af voru konur 247 á móti 139 körlum. Félagsmönnum fjölgaði milli ára, það er úr 344 í 386 greiðendur. Árið 2018 var skiptingin eftirfarandi, konur 179 á móti 165 körlum samtals 344.

Fjármál:
Skrifstofa stéttarfélaganna er rekin sameiginlega af stéttarfélögunum; Framsýn, Þingiðn og STH. Rekstur skrifstofunnar hefur gengið vel.  Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma. Með auknum fjölda vinnandi fólks á svæðinu hefur fjöldi félagsmanna og greiðenda aukist með auknum tekjum til félagsins. Endurskoðaður ársreikningur Framsýnar verður lagður fram á aðalfundi félagsins sem væntanlega verður haldinn með vorinu. Stjórn Framsýnar og starfsmenn kappkosta að gæta hagsmuna félagsins og þar með félagsmanna með því að standa vörð um fjármuni þess hér eftir sem hingað til.

Kjara og samningamál:
Eins og kunnugt er var gengið frá nýjum kjarasamningum vorið 2019 sem nefndir hafa verið Lífskjarasamningarnir. Í kjölfarið stóð Framsýn fyrir félagsfundi 12. apríl um nýgerðan kjarasamning félagsins/LÍV og Samtaka atvinnulífsins. Fundurinn var haldinn í fundarsal félagsins. Alls mætu 9 félagsmenn á fundinn. Á kjörskrá Framsýnar vegna kjarasamningsins LÍV og Samtaka atvinnulífsins voru 189 félagsmenn. Alls greiddu 20 félagsmenn atkvæði eða 10,58%. Já sögðu 19 eða 95%. Nei sagði 1 félagsmaður eða 5%. Auðir og ógildir 0. Kjarasamningurinn var því samþykktur meðal félagsmanna Framsýnar. Því miður var þátttakan í atkvæðagreiðslunni mjög léleg þrátt fyrir að hún hafi verið rafræn. Almennt áhugaleysi fólks að taka þátt í atkvæðagreiðslum um kjarasamninga er mikið áhyggjuefni sem þyrfti að skoða sérstaklega, það er hvað veldur þessu mikla áhugaleysi. Þess ber að geta að kjarasamningarnir eru um margt mjög merkilegir. Samningurinn byggir ekki síst á launahækkunum til félagsmanna, útspili stjórnvalda í skatta- og velferðarmálum og aðhaldi varðandi almennar hækkanir á gjaldskrám opinberra aðila. Nýmæli er í samningunum varðandi vinnutímabreytingar. Það er, nú eiga allir þeir sem falla undir kjarasamning LÍV og Samtaka atvinnulífsins rétt á 9 mín, styttingu á vinnutíma á dag m.v. fullt starf. Þessar 9 mínútur jafngilda 45 mínútum á viku eða 3. klst og 15 mínútum á mánuði, án skerðingar launa. Markmiðið er að gera vinnumarkaðinn fjölskylduvænni. Framkvæmd styttingarinnar er samkomulag félagsmanna og atvinnurekenda á hverjum vinnustað fyrir sig. Samkvæmt ákvæðum kjarasamningsins áttu atvinnurekendur og starfsfólk að hafa komist að samkomulagi um hvernig styttingunni verði háttað fyrir 1. desember 2019. Komist atvinnurekendur og starfsmenn ekki að niðurstöðu verður hver vinnudagur sjálfkrafa 9 mínútum styttri frá og með 1. janúar 2020. Ekki er annað að heyra en að vinnutímabreytingarnar hafi gengið eftir á félagssvæði Framsýnar, í það minnsta hefur skrifstofunni ekki borist kvartanir frá félagsmönnum um að svo hafi ekki verið.

Orlofsmál:
Líkt og fyrri ár hafa aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna með sér gott samstarf í orlofsmálum sem eru sem fyrr mikilvægur þáttur í starfi félagsins. Boðið er upp á fjölmarga kosti; m.a. orlofshús, gistiávísanir á hótelum og farfuglaheimilum auk endurgreiðslu á gistikostnaði á tjaldsvæðum og vegna kaupa á útilegukortum. Jöfn og góð nýting er á íbúðum stéttarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og er það vel. Leitast er við að sem flestir félagsmenn sem sækja um orlofshús fái úthlutun. Ekkert punktakerfi er við lýði hjá stéttarfélögunum sem aðild eiga að skrifstofu stéttarfélaganna. Framsýn bætti við sig sjúkra- og orlofsíbúð á Akureyri á árinu 2019. Íbúðin sem er í raðhúsi að Furulundi 11 á örugglega eftir að nýttast félagsmönnum vel á komandi árum. Þá undirritaði félagið á dögunum nýjan samning við Flugfélagið Erni sem tryggir félagsmönnum áframhaldandi afsláttarkjör á flugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur á árinu 2020. Fargjaldið verður áfram kr. 10.300 fram eftir ári. Síðar á árinu eða í haust hækkar verðið í kr. 10.900,-. Þannig tryggir Framsýn félagsmönnum áfram fargjald sem er aðeins hluti af fullu flugfargjaldi á flugleiðinni, Húsavík – Reykjavík. Óhætt er að segja að með samningi þessum séu Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslu að styrkja við og stuðla að frekari flugsamgöngum um Húsavíkurflugvöll. Reiknað er með að stéttarfélögin selji félagsmönnum á hverju ári um fjögur til fimm þúsund flugmiða. Samningurinn um flumiðakaupin sem var undirritaður í lok síðasta árs hljóðar upp á kaup á 4.800 flugmiðum sem ætlað er að endast út árið 2020.

Fræðslumál:
Félagið er aðili að Starfsmenntunarsjóði verslunar og skrifstofufólks. Umsækjendum um styrki fækkaði aðeins milli ára. Á árinu 2019 fengu 33 félagsmenn starfsmenntastyrki, alls að upphæð kr. 2.027.445,-. Árið áður fengu 38 félagsmenn styrki samtals kr. 2.680.362.–.

Kynningarmál, fréttabréf og heimasíða:
S
töðugt birtast fréttir á vefsíðu Framsýnar www.framsyn.is úr starfi félagsins og aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélagana auk þess sem fréttir um málefni líðandi stundar í samfélaginu slæðist stundum með. Á um tveggja mánaða fresti er gefið út Fréttabréf stéttarfélaganna sem dreift er frítt til allra heimila á félagssvæðinu.  Fréttabréfið tekur á helstu málefnum úr starfi stéttarfélaganna. Þar koma m.a. fram upplýsingar til félagsmanna varðandi kjör og starfsemi stéttarfélaganna auk úrdráttur helstu frétta sem birtast á heimasíðunni. Þá hefur félagið staðið fyrir heimsóknum í skóla með fræðslu um starfsemi stéttarfélaga og staðið reglulega fyrir trúnaðarmannanámskeiðum.

Starfsemi og málefni skrifstofunnar:
Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Þar starfa 5 starfsmenn í fullu starfi með starfsmanni Virk starfsendurhæfingarsjóðs, einn starfsmaður er í 50% starfi við vinnustaðaeftirlit og einn starfsmaður er í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru 5 starfsmenn í hlutastörfum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Á undanförnum árum hefur mikið verið lagt upp úr því að efla trúnaðarmannakerfið með góðum árangri. Í dag eru víða starfandi öflugir trúnaðarmenn á vinnustöðum. Reglulega eru haldinn trúnaðarmannanámskeið fyrir starfandi trúnaðarmenn á vinnustöðum. Sömuleiðis er starfandi ungliðaráð sem skipað er ungu og kraftmiklu fólki sem vonandi kemur til með að taka við keflingu og leiða verkalýðsbaráttuna áfram um ókomna tíð.

Viðburðir á árinu:
Framsýn kom að nokkrum stórum sem smáum viðburðum á árinu. Hátíðarhöldin 1. maí voru haldinn í Íþróttahúsinu á Húsavík og fóru vel fram enda mikið fjölmenni samankomið í höllinni. Föstudaginn fyrir sjómannadag stóð félagið fyrir kaffiboði á Raufarhöfn fyrir gesti og gangandi. Þá kom Sjómannadeild félagsins að því að heiðra sjómenn á sjómannadaginn á Húsavík. Heiðraðir voru tveir sjómenn fyrir vel unninn störf. Í desember stóðu svo stéttarfélögin fyrir aðventukaffi í fundarsal stéttarfélaganna.

Lokaorð:
Með þessari stuttu samantekt hefur verið gert grein fyrir því helsta úr starfsemi deildarinnar frá síðasta aðalfundi. Starf deildarinnar sem slíkt, er ekki kraftmikið eða viðburðaríkt en við erum ómissandi í starfi félagsins.  Ég vil hvetja ykkur öll til þess að taka þátt í starfsemi félagsins, láta ykkur umræðu um kjaramál og velferð í starfi máli skipta og koma tillögum og hugmyndum um úrbætur eða fræðslu á framfæri við félagið.  Stjórn deildarinnar vill þakka öllum þeim félagsmönnum sem hafa gengt trúnaðarstörfum fyrir félagið, félagsmönnum okkar og starfsmönnum skrifstofu fyrir vel unnin störf og gott samstarf á árinu.

Setið yfir skýrslu stjórnar á fundinum.

Mjög góðar umræður urðu á fundinum um málefni deildarinnar og Framsýnar. Almenn ánægja kom fram með starfsemi félagsins.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila á