Round Table í heimsókn hjá Framsýn

Round Table er alþjóðlegur félagsskapur ungra manna á aldrinum 20 – 45 ára. Félagar eru úr hinum ýmsu starfsstéttum þjóðfélagsins. Tilgangur Round Table er að sameina unga menn úr mismunandi starfsgreinum til að öðlast betri skilning á þjóðfélaginu og stöðu einstaklingsins innan þess. Að lifa eftir einkunnarorðunum “Í vináttu og samvinnu”. Að auka alþjóðaskilning og vináttu með aðild að Round Table International. Einkunnarorð Round Table eru: Tileinka – Aðlaga – Bæta.

Fundir á vegum RT eru mismunandi en þeim er ýmist blandað saman við skemmtun, heimsóknir, kynningar og í raun allt það sem félögum dettur í hug á hverjum tíma. Á dögunum óskuðu félagar í RT-4 á Húsavík eftir kynningu á starfsemi Framsýnar. Að sjálfsögðu var orðið við þeirri ósk og tók formaður Framsýnar á móti hópnum og gerði líflegum gestum grein fyrir starfsemi stéttarfélaga og svaraði fjölmörgum spurningum. Eftir kynninguna fékk Aðalsteinn Árni fána RT-4 að gjöf. Það var formaður RT-4 á Húsavík, Sveinn Veigar Hreinsson sem afhendi Aðalsteini fánann frá félaginu um leið og hann þakkaði fyrir kynninguna og móttökurnar. Tæplega 30 manns tóku þátt í fundinum.

 

Deila á