Minning – Jóna Ingvars Jónsdóttir frá Daðastöðum

Jóna Ingvars Jónsdóttir húsfreyja á Daðastöðum í Reykjadal lést þann 7. september síðastliðinn. Útför Jónu fer fram frá Einarsstaðakirkju í Reykjadal í dag kl. 14:00, laugardaginn 14. september.

Hjá Framsýn stéttarfélagi minnumst við látinnar vinkonu úr verkalýðsstarfinu með virðingu og þakklæti, en Jóna starfaði lengi sem trúnaðarmaður starfsmanna í Framhaldsskólanum á Laugum. Við sem vinnum að félagsstörfum hjá stéttarfélögum vitum að góðir trúnaðarmenn eru gulls ígildi og ákaflega mikilvægir hlekkir í starfi stéttarfélaga, en Jóna sinnti starfi trúnaðarmanns að heilindum og fann sig vel í því hlutverki. Hún var ein af þessum þöglu hetjum hversdagslífsins, var ekki þeirrar gerðar að trana sér fram eða láta á sér bera, en hafði sannarlega skoðanir og var ófeimin að láta þær í ljósi, ef svo bar undir. Að leiðarlokum þakka félagar í Framsýn stéttarfélagi fyrir samfylgd góðs félaga og votta fjölskyldu Jónu dýpstu samúð.

 

 

 

Deila á