83% hlynnt skatta­lækk­un­um tekju­lægri

Sam­kvæmt nýrri skoðana­könn­un sem Gallup gerði fyr­ir Alþýðusam­band Íslands eru 83% Íslend­inga hlynnt því að launa­fólk með heild­ar­tekj­ur und­ir 500 þúsund krón­um á mánuði fyr­ir skatt fái meiri skatta­lækk­an­ir en aðrir.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá ASÍ. „At­hygli vek­ur að stuðning­ur við slíka skatt­kerf­is­breyt­ingu er mik­ill í öll­um ald­urs- og tekju­hóp­um þó vissu­lega sé hann mest­ur hjá þeim tekju­lægstu.“

„Þessi niðurstaða rím­ar vel við þær hug­mynd­ir um skatt­kerf­is­breyt­ing­ar sem ASÍ kynnti í lok janú­ar. Mark­mið þeirra til­lagna var að létta byrðum af fólki með lág­ar og milli­tekj­ur, auka jafn­rétti og koma á sann­gjarn­ari skatt­heimtu,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Þegar rík­is­stjórn­in hafi kynnt sín­ar skatta­lækk­un­ar­hug­mynd­ir hafi komið í ljós að sama skatta­lækk­un ætti að ganga upp all­an tekju­stig­ann.

„Rann­sókn hag­deild­ar ASÍ frá 2017 sýn­ir að skatt­byrði hinna tekju­lægstu hef­ur hækkað mest á und­an­förn­um árum og dregið hef­ur úr jöfn­un­ar­hlut­verki skatt­kerf­is­ins. Mun­ar þar mestu að skatt­leys­is­mörk hafa ekki fylgt launaþróun og vaxta- og barna­bóta­kerf­in hafa mark­visst verið veikt og eru nú í skötu­líki miðað við það sem áður var.“ (mbl.is)

 

Deila á