Viðtöl og kjarabarátta

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að kjaraviðræður standa yfir um þessar mundir. Samningsaðilar sitja flesta daga yfir kröfugerðum verkalýðshreyfingarinnar og þá má það ekki gleymast að Samtök atvinnulífsins hafa einnig lagt fram kröfugerð gagnvart verkalýðsfélögunum sbr. þeirra áherslur varðandi neysluhlé, fleytingu á yfirvinnu milli mánaða og lengingu á daglegum dagvinnutíma. Þá hefur verkalýðshreyfingin verið með kröfur á stjórnvöld um breytingar á skattkerfinu, húsnæðismálum og nokkrum öðrum atriðum sem skipta máli fyrir velferð verkafólks. Öllu þessu fylgir síðan töluverð fjölmiðlaumræða sem aðilar vinnumarkaðarins taka þátt í því. Hvað það varðar er formaður Framsýnar oft kallaður í viðtöl í fjölmiðlum til að tjá sig um stöðuna og næstu skref. Um er að ræða mikilvægan þátt í starfseminni, það er að forystumenn stéttarfélaga komi skoðunum félagsmanna á framfæri á hverjum tíma. Vissulega er það þannig að fjölmiðlar taka mismunandi á umræðunni. Athygli hefur t.d. vakið meðal verkafólks í landinu hvernig Morgunblaðið og Fréttablaðið hafa fjallað um málið, hér er sérstaklega átt við um leiðara blaðanna sem leyfa sér að kalla talsmenn verkafólks m.a. öfgamenn fyrir það eitt að berjast fyrir bættum kjörum verkafólks. Innan þessara og annara miðla eru hins vegar mikið af hæfum og góðum blaðamönnum sem leitast við að leggja hlutlaust mat á umræðuna sem er vel.

Alls konar fyrirsögnum er slegið upp þessa dagana um stöðuna í kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins og verkalýðsfélaganna, nú síðast á mánudaginn. Formaður Framsýnar átti samverustund með formönnum VR og Eflingar á laugardaginn þar sem fram kom að mikil og góð samstaða er innan þessara beggja félaga að ná viðunandi kjarasamningi fyrir félagsmenn. Mikil og góð samstaða er innan þessara félaga að vinna saman að því markmiði og undir það hefur tekið Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Þátturinn Vinnuskúrinn tók fyrir verkalýðsmál og málefni öryrkja síðasta laugardag. Viðmælendur voru; Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar, Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalagsins. Eins og við var að búast voru umræðurnar hressilegar. Fjölmiðlamaðurinn Gunnar Smári Egilsson er þáttastjórnandi þessa vinsæla útvarpsþáttar á laugardögum fyrir hádegi.

Deila á