Góður gangur í viðræðum

Fulltrúar frá Starfsgreinasambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins hittust á fundi í gær til að ræða kjarasamning sem nær til starfsmanna í ferðaþjónustu innan sambandsins. Viðræðurnar fóru fram í húsnæði Ríkissáttasemjara. Að sögn formanns Framsýnar, Aðalsteins Árna Baldurssonar sem fer fyrir samninganefndinni er viðkemur samningnum fyrir hönd SGS, ganga viðræðurnar vel og verður fram haldið í næstu viku. Viðræðurnar snúast um að yfirfara þá kjarasamninga sem gilda fyrir starfsmenn í ferðaþjónustu og við bensínafgreiðslustörf, það er sérákvæði. Þá er vilji til þess að sameina kjarasamninga í ferðaþjónustu sem gilt hafa annars vegar fyrir stéttarfélögin innan Flóabandalagsins og hins vegar landsbyggðarfélaganna innan SGS sem og mismunandi bensínafgreiðslusamninga. Launaliður samningsins er inn á öðru borði enda markmiðið að samræma launabreytingar milli þeirra kjarasamninga sem Starfsgreinasambandið og Samtök atvinnulífsins eiga aðild að og falla úr gildi um áramótin.

Viðræður milli SGS og SA um kjarasamning starfsfólks í ferðaþjónustu ganga vel. Markmiðið er að klára sérmálin á næstu vikum. Launaliðurinn verður svo tekinn sérstaklega fyrir á sameinginlegu borði samninganefnda samningsaðila.

Deila á