Konur taka af skarið

„Konur taka af skarið“ eru námskeið/samtalsfundir sem AkureyrarAkademían, Jafnréttisstofa, Starfsgreinasambandið og JCI Sproti standa fyrir. Síðastliðinn laugardag var fyrsta námskeiðið af sex haldið í sal Einingar Iðju á Akureyri, en samskonar námskeið verða haldin á Egilsstöðum, Selfossi, Reykjavík, Ísafirði og Borgarnesi á næstunni. Það er Jafnréttissjóður Íslands sem styrkir þetta verkefni, en markmið þess er að hvetja konur til þátttöku og áhrifa innan verkalýðshreyfingarinnar. Vel var mætt á þetta fyrsta námskeið og norðlenskar konur höfðu gaman saman og áttu ekki einungis skemmtilegan, heldur ekki síður fróðlegan dag þar sem dagskráin var sérlega áhugaverð.

Berglind Þrastardóttir stjórnarformaður AkureyrarAkademíunnar var fundarstjóri, bauð hún konur velkomnar og að því loknu var gengið til dagskrár. Katrín Björg Ríkharðsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, hélt erindi um kynjakerfið undir yfirskriftinni „Að bjóða kynjakerfinu birginn“ og að því loknu fjallaði Drífa Snædal, nýkjörinn forseti ASÍ, um stöðu verkalýðsbaráttunnar í dag og ræddi hún einnig um uppbyggingu verkalýðsfélaganna.

Viktor Ómarsson, hjá JCI Sprota, eini karlmaðurinn á fundinum, hélt erindi um leiðtogaþjálfun og leiðbeindi þátttakendum um hvernig hægt er að hafa áhrif og koma sínu á framfæri. Fjallaði hann einnig um fundarsköp og fundarstjórnun og lagði fyrir nokkur verkefni af því tagi.

Að síðustu spjallaði Drífa Snædal um reynslu sína og upplifun af því að vera kona starfandi innan verkalýðshreyfingarinnar.

Námskeiðin „Konur taka af skarið“ eru opið öllum félagskonum í Starfsgreinasambandi Íslands og starfsmannafélögum sveitarfélaganna, þeim að kostnaðarlausu.

Þrjár konur sem jafnframt eru félagsmenn í Framsýn tóku þátt í námskeiðinu.

 

Deila á