Verkalýðsforinginn Pétur Sigurðsson fallin frá

Fyrrverandi formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga Pétur Sigurðsson andaðist sunnudaginn 14. október, á áttugasta og sjöunda aldursári, en Pétur var fæddur 18. desember 1931. Pétur var af alþýðufólki kominn og hefur hann helgað íslenskri alþýðu starfskrafta sína óslitið megnið af starfsæfinni. Pétur stóð í fylkingarbrjósti fyrir vestfirskt Verkafólk í hartnær hálfa öld, sem forseti Alþýðusambands Vestfjarða frá 1970 – 2016, sem formaður Verkalýðsfélagsins Baldurs á Ísafirði frá árinu 1974 – 2002 og síðar í sameinuðu Verkalýðsfélagi Vestfirðinga frá 2002 – 2007. Við samingaborðið var hann óþrjótandi viskubrunnur um kjara- og réttindamál verkafólks og var ávallt fremstur í brjóstvörn fyrir þá sem minna máttu sín. Pétur var þekktur fyrir óbilandi baráttuþrek fyrir bættum kjörum verkafólks og setti Pétur sannarlega mark sitt á samningmál verkfólks. Verkalýðsforinginn Pétur var ekki tilbúinn að skrifa undir samninga sem innihéldu „ekki neitt“. Eitt af síðustu embættisverkum Péturs var að ljúka við sameiningu Alþýðusamband Vestfjarða inn í Verkalýðsfélag Vestfirðinga sem varð að veruleika í desember 2016. Hinn aldni höfðingi sem nú hefur kvatt sjónarsviðið var heiðursfulltrúi í trúnaðarráði Verkalýðsfélags Vestfirðinga til ársins 2017. Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar stéttarfélags sendir Hjördísi Hjartardóttur, eftirlifandi konu Péturs, börnum og fjölskyldum þeirra innilegustu samúðarkveðjur. (Ljósmynd og frásögn að mestu: Verkalýðsfélag Vestfirðinga)

Deila á