ASÍ-UNG ályktar um áherslur ungs fólks í aðdraganda kjaraviðræðna

Á nýafstöðnu þingi ASÍ-UNG mátti greina mikinn samhug og baráttuvilja hjá ungu fólki innan verkalýðshreyfingarinnar. Málþing um hlutverk stéttarfélaga og þær áherslur sem ungt fólk vill sjá í komandi kjarasamningum bar einna hæst á þinginu. Framsýn átti þrjá fulltrúa á þinginu sem fór vel fram.

Meðfylgjandi ályktun var samþykkt í lok þingsins en hún sýnir ágætlega hvar áherslur ungs fólks innan verkalýðshreyfingarinnar liggja í komandi kjaraviðræðum.

  • Þing ASÍ-UNG ályktar um nauðsyn þess marka skýra stefnu í húsnæðismálum til þess að tryggja ungu fólki húsnæði við hæfi. ASÍ-UNG telur það vera grundvallaratriði að allir hafi möguleika á öruggu búsetuformi sem hentar á viðráðanlegum kjörum.
  • ASÍ-UNG krefst þess að persónuafsláttur verði hækkaður þannig að lágmarkslaun verði skattlaus.

  • ASÍ-UNG krefst þess einnig að aldurstengd launamismunun verði afnumin með öllu enda er hún klárt brot á mannréttindum. Jafnframt gerir ASÍ-UNG kröfu um að ungt fólk eigi sæti við samningaborðið til þess að tryggja hagsmuni þess.

  • ASÍ-UNG leggur ríka áherslu á að vinnueftirlit verði aukið og viðurlög vegna brota á vinnustað verði hert.

  • Þing ASÍ-UNG leggur áherslu á jafnvægi milli einkalífs og vinnu. Brúa þarf bil milli fæðingarorlofs og leikskóla og auka orlofsrétt vegna vetrarfría í skólum.

 

 

Deila á