Framsýn á fjöllum

Fulltrúar frá Framsýn fóru í vinnustaðaheimsóknir í gær. Farið var frá Húsavík upp í Mývatnssveit og þaðan í Grímsstaði á Fjöllum þar sem rekin er öflug ferðaþjónusta á vegum tveggja heimaaðila á Grímsstöðum og í Hólseli. Þaðan var farið að Dettifossi og hitt á leiðsögumenn sem þar voru við störf á vegum SBA en mikið fjölmenni var við fossinn í gær. Síðan var staðan tekin á framkvæmdunum á Dettifossvegi niður í Kelduhverfi sem ganga vel og vonandi tekst að klára þessar mikilvægu framkvæmdir á allra næstu árum. Gríðarleg umferð hefur verið um veginn, sem reyndar á köflum telst varla vegur. Þess vegna ekki síst er mikilvægt að framkvæmdir við hann klárist sem fyrst. Að lokum var síðan heilsað upp á starfsmenn í Vatnajökulsþjóðgarði og í versluninni í Ásbyrgi áður en haldið var heim til Húsavíkur. Ekki þarf að taka fram að starfsmönnum Framsýnar var alls staðar vel tekið og fengu góðar mjög góðar móttökur.

Á Grímsstöðum eru tveir aðilar sem reka ferðaþjónustu, annar þeirra er einnig með ferðaþjónustu í Hólseli.

Þær voru ánægðar með lífið og tilveruna á fjöllum, starfsmenn ferðaþjónustunnar á Grímsstöðum sem voru við störf í Hólseli. Hér eru þær ásamt eftirlitsfulltrúa stéttarfélaganna Aðalsteini J. Halldórssyni.

Heilsað var upp á heiðurshjónin á Grímsstöðum, þau Sigríði Hallgrímsdóttir og Braga Benediktsson. Þau sýsla við ýmislegt s.s. veðurathuganir, eftirlit með vegum og þá eru þau með ferðaþjónustu.

Það var mikið um að vera við Dettifoss, fullt af fólki og bílastæðin full.

Tekið var tal við leiðsögumennina Óskar Halldórsson og Ingibjörgu Elínu Jónasdóttir. Þau starfa fyrir SBA og voru með hóp af ferðamönnum við fossinn á leið sinni um Norðurland.

Miklar framkvæmdir eiga sér nú stað á Dettifossvegi og var mikið um vinnuvélar á svæðinu enda styttist í veturinn og því mikilvægt að klára sem mest áður en vetur konungur tekur völdinn.

Starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs eru ávallt í góðu skapi og voru ánægðir með lífið og tilveruna. Bjartey Unnur Stefánsdóttir og Rakel Anna Boulter eru hér á mynd með formanni Framsýnar, Aðalsteini Árna.

Fullt var í versluninni í Ásbyrgi í gær enda mikið um ferðamenn á svæðinu.

Deila á