Félagsliðar á Húsavík á fjarfundi

Það er synd að segja að ekki hafi verið góð nýting á fundarsölum stéttarfélaganna á Garðarsbrautinni í gær. Á meðan fundað var um fjármál við starfslok í fullum sal á neðri hæð hússins, sátu félagsliðar fjarfund í litla fundarsalum, Þröskuldi á efri hæðinni.

Í gær boðaði Starfsgreinasambandið til samráðsfundar með félagsliðum, en til fundarins var  boðað samkvæmt óskum félagsliða innan sambandsins og víðar og var hann opinn öllum félagsliðum.

Fyrir þá sem ekki vita eru félagsliðar sérmenntaðir til að veita þjónustu í formi aðstoðar og umönnunar einstaklinga á öllum aldri sem vegna félagslegra aðstæðna, líkamlegrar eða andlegra hömlunar eiga erfitt um vik að sjá um sig sjálfir. Félagsliðar eru vaxandi stétt sem mætir síaukinni þörf í samfélaginu fyrir sérþekkinguna sem námið veitir. Þeir hafa aðallega starfað með öldruðum og fötluðum, bæði á stofnunum og sem aðstoð í daglegu lífi, en eins og allir vita er sífellt meiri áhersla er á að sinna fólki heima hjá sér og veita því aðstoð við allar athafnir daglegs lífs.

Það var Drífa Snædal sem leiddi umræður um  helstu baráttumál félagsliða, svo sem kröfuna um að starfsheiti þeirra verði viðurkennt innan heilbrigðisþjónustunnar. Umræðan um löggildingu starfsheitis félagsliða er ekki ný af nálinni, en félagsliðar hafa barist fyrir því um árabil að verða löggilt heilbrigðisstétt, en orðið lítið ágengt. Löggilding félagsliða er ekki einungis mikilvæg fyrir framgang stéttarinnar, heldur ekki síst fyrir gæði þjónustu við þann vaxandi hóp sem þarf á aðstoð að halda.

Á fundinum í gær var ljóst að  krafan um löggildingu er mjög sterk innan stéttarinnar enda er það ólíðandi að félagsliðar sitji ekki við saman borð og sambærilegar stéttir. Fundurinn var haldinn í Guðrúnartúni 1, Reykjavík, auk þess var reynt að mæta þörfum félagsliða um land allt með fjarfundarbúnaði, en félagsliðar á Akureyri og Siglufirði tóku einnig þátt í gegnum fjarfundarbúnað.

 

Deila á