Tæplega 600 manns tóku þátt í hátíðarhöldunum á Húsavík – Takk kærlega fyrir okkur

Mikil ánægja er með hátíðarhöldin sem stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum stóðu fyrir í Íþróttahöllinni á Húsavík í gær, 1. maí. Tæplega 600 manns komu í höllina til að hlýða á ræður og skemmtiatriði í boði félaganna. Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar startaði hátíðinni með mögnuðu ávarpi. Reynir Gunnarsson tók við og söng maístjöruna af miklum krafti áður en tungufoss, Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar, flutti kraftmikla hátíðarræðu sem féll í góðan jarðveg hjá hátíðargestum. Karlakórinn Hreimur söng undir stjórn  Steinþórs Þráinssonar og fór á kostum. Steinunn Halldórsdóttir sá um undirleik. Gísli Einarsson kom keyrandi frá Borgarnesi með grínið í ferðatösku og reyndar frumsaminn texta um Húsavík. Gísli klikkar ekki og sagðist næst koma með lag við textann sem er eftirfarandi:

Á Húsavík ég háttum næ,
hérna útvið bláan sæ.
Á vísan þó ég varla ræ
en vonandi er alltílæ.
Engu kastað er á glæ
enn á vorin spíra fræ.
Kleinur, te og kaffi fæ
á fyrsta maí
Ókey bæ!

Eftir allt grínið með Gísla tóku frábærir listamenn við og sungu falleg lög og sögðu skemmtilegar sögur. Þetta voru þau Guðrún Gunnarsdóttir, Sigríður Beinteinsdóttir, Jógvan Hansen og Karl Olgeirsson. Svo allt færi ekki úr böndunum var skólastjórinn til margra ára, Huld Aðalbjarnardóttir, fengin til að stjórna samkomunni, sem eins og fram hefur komið, gekk vonum framar. Fulltrúar og starfsmenn aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélaganna sáu síðan um að ganga milli borða og færa tæplega 600 veislugestum kaffi og tertu frá Heimabakaríi. Takk fyrir okkur

Deila á