Getum við lækkað vextina? Ari Teitsson og Helgi Héðinsson tjá sig um málið

Þung umræða um háa vexti hefur verið viðvarandi hérlendis  alla þessa öld. Sú umræða hefur fengið aukið vægi nú þegar  vaxtakostnaður heimila ógnar mögulegu Salek samkomulagi og gæti ásamt fleiru valdið erfiðleikum í þjóðfélaginu sem brýnt er að komast hjá.

Verðbólga, rekstrarárangur fjámálafyrirtækja og starfsumhverfi þeirra veldur mestu um vaxtastig.

Ekki verður hér fjallað um fyrri þættina tvo en bent á hnökra í starfsumhverfi sem valda viðskiptavinum fjármálafyrirtækja meiri vaxtakostnaði en þörf er á.

Fjármálafyrirtæki greiða 3,3 milljarða á ári í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Framtíðarstarfsemi sjóðsins mun byggja á sameiginlegum evrópureglum sem lögfestar verða hér innan tveggja ára. Samanburður við stöðu tryggingarsjóða evrópuríkja er því raunhæfur og leiðir í ljós að íslenski sjóðurinn er hlutfallslega fjórum sinnum stærri en meðaltal 30 evrópuríkja og iðgjaldið er ferfalt. Raunar þyrfti ekki að greiða í sjóðinn næstu ár og lækka mætti vexti á móti.

Kostnaður við upplýsingatækni fjármálafyrirtækja er hér mun hærri en í samanburðarlöndum. Þar veldur smæð eininga en einnig að samstarf um upplýsingatækni, sem augljóslega er hagkvæmt og raunar nauðsyn, er mjög torveldað af þröngum reglum Samkeppniseftirlits. Hér mætti spara milljarða með skynsamlegu samstarfi.

Eiginfjárkröfur íslenskra fjármálafyrirtækja byggja á evrópureglum, en eru hér útfærðar með öðrum og strangari hætti en í flestum Evrópuríkjum. Þannig þurfa íslensk fjármálafyrirtæki að  eiga eigið fé sem nemur minnst 15% af efnahag meðan sænskum bönkum sem starfa undir sama regluverki duga 5%. Þessar háu eiginfjárkröfur valda verulegum kostnaði.

Rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins sem greiddur er af fjármálafyrirtækjum hefur meir en tvöfaldast á undanförnum 8 árum og nemur nú 1,5 milljörðum. Verra er þó að breyttar áherslur og verulega auknar kröfur um skýrslugerð og gagnaskil frá fjármálafyrirtækjum  valda fyrirtækjunum ómældum kostnaði. Hér gildir enginn Salek samanburður um hógværð og jöfnuð milli landa.

Kostnaður við Umboðsmann skuldara nam á árinu 2017 um 700 milljónum, sá kostnaður er greiddur af  fjármálafyrirtækjum þó viðfangsefni embættisins séu nú að meirihluta tengd vafasamri smálánastarfsemi sem á lítið skylt við bankarekstur og greiðir ekki áfallinn kostnað.

Sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki námu á árinu 2017 um 11,7 milljörðum. Þær álögur styrkja ríkissjóð, en hafa um leið óhjákvæmilega áhrif á vaxtastig.

Svo sem fram kemur hér að framan eru háir vextir hérlendis að hluta sjálfskaparvíti sem gæti átt þátt í erfiðleikum komandi mánaða. Ætla má að með sameiginlegu átaki mætti lækka vexti um eitt prósentustig (100 punkta) og fara þá íslenskir vextir að nálgast vexti í okkar samanburðarlöndum að teknu tilliti til verðbólgu. Breytingar í þá veru eru sannarlega mögulegar. Þær koma að hluta niður á ríkissjóði en eru þó að mestu spurning um skynsamleg vinnubrögð og að við sníðum okkur, ekki bara sum heldur öll, stakk eftir vexti.

Höfundar starfa í stjórn Sparisjóðs Suður-Þingeyinga

 

Deila á