Ályktun- Framsýn fagnar nýjum straumum í íslenskri verkalýðsbaráttu

Stjórn Framsýnar kom saman til fundar í gær og samþykkti að álykta um stöðuna í verkalýðshreyfingunni, lífeyrissjóðsmál og sjálftökuliðið í þjóðfélaginu.  Um er að ræða harðorða ályktun.

 Ályktun
Um vorið í íslenskri verkalýðshreyfingu

„Framsýn, stéttarfélag fagnar nýjum straumum í íslenskri verkalýðsbaráttu. Með kjöri á nýrri forystu í stærstu stéttarfélögum innan Alþýðusambands Íslands, er að verða til ný sýn á baráttu verkafólks. Þar er meðal annars talað fyrir löngu tímabærum breytingum á lífeyrissjóðakerfinu.

Framsýn lýsir sig reiðubúið til að starfa með nýju fólki að málefnum verkafólks, enda hefur félagið lengi kallað eftir breytingum sem þessum innan verkalýðshreyfingarinnar. Sameining  og gagnsæi lífeyrissjóða, reglur um hámarks stjórnarsetu innan þeirra, ásamt siðferði í fjárfestingum lífeyrissjóða eru atriði sem meðal annars hafa verið félaginu hugleikin. Það er til að mynda siðlaust að forstjóri olíufélags fái greiddar bónusgreiðslur og hagnist með því  persónulega á að halda niðri launum annarra starfsmanna, það gerist í skjóli lífeyrissjóða sem eru í eigu viðkomandi starfsmanna. Sjóða sem eru kjölfestufjárfestar í íslensku atvinnulífi. Hvaða vitleysa er þetta eiginlega!

Það verður ekki síst verkefni nýrrar verkalýðshreyfingar að vinna á móti siðleysi af þessu tagi og skera upp lífeyrissjóðakerfið, þá með hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi.

Framsýn hefur ítrekað ályktað um stöðuna í kjaramálum og kallað eftir öflugri verkalýðsbaráttu. Félagið lagðist á árar með þeim stéttarfélögum innan ASÍ sem vildu að samningunum yrði sagt upp nú í febrúar enda allar forsendur kolfallnar.

 Það er ekki hlutverk verkalýðsfélaga að gelta. Það er einnig tilgangslaust að glefsa með því að álykta um málefni verkafólks ef hugur fylgir ekki máli og menn slái undan þegar taka þarf stórar ákvarðanir eins og að segja upp kjarasamningum.

Samtök atvinnurekenda óttast breytingarnar sem framundan eru með nýju fólki í brúnni hjá öflugustu stéttarfélögum landsins. Það er vel, enda löngu tímabært að íslenska verkalýðshreyfingin hristi af sér doðann og bíti hraustlega frá sér.  Látum þá skjálfa!“

 

!

Deila á