Mikil ánægja með sérkjarasamning PCC BakkiSilikon og stéttarfélaganna – Samþykktur 100%

Atkvæðagreiðslu um sérkjarasamning PCC BakkiSilikon og Framsýnar/Þingiðnar er lokið. Um 111 starfsmenn koma til með að starfa hjá fyrirtækinu og er mikill meirihluti þeirra í Framsýn. Samningurinn sem nær til framleiðslustarfsmanna og iðnaðarstarfsmanna var samþykktur samhljóða. Gildistími samningsins er út árið 2018 en þá losna jafnframt kjarasamningar á almenna vinnumarkaðinum. Starfsmönnum bauðst að fara á tvo kynningarfundi um samninginn áður en þeir greiddu atkvæði um hann.

Niðurstaðan úr atkvæðagreiðslunni var þessi:

Framsýn:

Á kjörskrá voru 52 framleiðslustarfsmenn, atkvæði greiddu 38 starfsmenn eða 73% starfsmanna. Gildir seðlar voru 37. Miðað við gild atkvæði samþykktu 100% þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni samninginn.

Þingiðn:

Á kjörskrá voru 10 iðnaðarmenn, atkvæði greiddu 5 eða 50% starfsmanna. Gildir seðlar voru 5. Já sögðu 5 eða 100% starfsmanna sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni.

Sérkjarasamningur Samtaka atvinnulífsins v/ PCC BakkiSilikon hf. annars vegar og Framsýnar/Þingiðnar hins vegar skoðast því samþykktur.

Samningurinn felur í sér að iðnaðarmönnum er raðað í launatöflu samkvæmt kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar sem Þingiðn á aðild að með 10% álagi á laun. Þá munu iðnaðarmenn fá sérstaka eingreiðslu í desember enda hafi þeir starfað í 20 vikur eða meira á árinu. Eingreiðslan nemur einum mánaðarlaunum. Orlofs- og desemberuppbót verður síðan eftir gildandi kjarasamningum. Í samningnum er einnig tilvísun um að starfsmenn á skrifstofu PCC muni taka kjör eftir persónubundnum samningum sem taka mið af ákvæðum kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Landssambands ísl, verslunarmanna sem Framsýn á aðild að.

Framleiðslustarfsmönnum innan Framsýnar verður raðað í 17 launaflokk samkvæmt launatöflu Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands. Um er að ræða hæsta launaflokk sem störfum er raðað eftir í kjarasamningi SA og SGS fyrir almennt verkafólk á Íslandi. Auk þess munu starfsmenn fá metna 5 ára starfsreynslu til viðbótar sem gera grunnlaun upp á kr. 300.680,-. Til fróðleiks má geta þess að starfsfólk í ferðaþjónustu raðast hæst í 6 launaflokk og fiskvinnslufólk hæst í 11 flokk.  Samningurinn felur einnig í sér að allir starfsmenn fá 45% vaktaálag á alla unna tíma upp að 173,33 tímum. Tími umfram það í hverjum mánuði greiðist sem yfirvinna. Þá munu framleiðslumenn líkt og iðnaðarmenn fá sérstaka eingreiðslu í desember sem nemur einum mánaðarlaunum enda hafi þeir starfað í 20 vikur eða meira á árinu. Orlofs- og desemberuppbót verður síðan eftir gildandi kjarasamningum. Veikindaréttur vegna slysa verða 12 mánuðir á fullum launum í stað 3 mánaða á dagvinnulaunum eins og er í almennum kjarasamningum SA og SGS.

Í samningnum er m.a. tekið á orlofsmálum, fæðismálum, starfsmenntamálum, umhverfismálum, öryggismálum, heilsuvernd starfsmanna, forgangsréttarmálum og  þóknun vegna starfsmannafunda.

Þá liggur fyrir samþykki beggja samningsaðila að hefja viðræður í september um endurnýjaðan samning enda renna kjarasamningar almennt út um næstu áramót. Framsýn og Þingiðn hafa þegar gengið frá samninganefnd félaganna fyrir komandi viðræður, nefndin verður skipuð trúnaðarmönnum og formanni Framsýnar, Aðalsteini Árna Baldurssyni, sem jafnframt verður formaður nefndarinnar f.h. Framsýnar og starfsmanna.

Aðalsteinn segist mjög ánægður með þetta skref, það er að starfsmenn hafi samþykkt samninginn. Þegar verksmiðjan verði kominn í gang eftir nokkrar vikur gefist tími til að þróa nýtt launakerfi í verksmiðjunni sem byggi á ákveðnum grunnlaunum, starfsaldri, vaktaálagi, bónuskerfi og þóknun vegna menntunar.  Mikil vinna sé því framundan að ná þessu fram fyrir hönd starfsmanna.

Meðfylgjandi myndir eru teknar frá kjörfundinum í gær.

 

 

 

 

Deila á