Trúnaðarmannanámskeið framundan

Framsýn og Þingiðn standa fyrir tveggja daga trúnaðarmannanámskeiði í byrjun mars í samstarfi við Félagsmálaskóla alþýðu. Um er að ræða kjarasamningsbundið námskeið sem er þátttakendum að kostnaðarlausu. Þá eiga trúnaðarmenn rétt á að halda dagvinnulaunum meðan á námskeiðinu stendur. Kennt verður frá kl. 09:00 báða daganna til kl. 16.00 í fundarsal stéttarfélaganna. Að þessu sinni verður farið yfir starf og stöðu trúnaðarmannsins, þjóðfélagið og vinnumarkaðinn. Trúnaðarmenn sem búa utan Húsavíkur býðst að gista á Fosshótel Húsavík meðan á námskeiðinu stendur. Eins og kunnugt er eiga trúnaðarmenn rétt á því að sækja trúnaðarmannanámskeið á vinnutíma án skerðingar á dagvinnulaunum. Rétt er að hafa í huga að ákveðið hefur verið að draga úr pappírsnotkun á trúnaðarmannanámskeiðum. Þess vegna þurfa menn að hafa með sér fartölvu, síma eða ipad á námskeiðið þar sem námsefnið verður rafrænt. Gerist þess þörf mun Framsýn útvega þátttakendum þennan búnað. Í þeim tilfellum eru þátttakendur beðnir um að láta skrifstofuna vita í tíma. Skráning á námskeiðið er hafin og stendur hún yfir til 15. febrúar. Hægt er að gera það símleiðis á Skrifstofu stéttarfélaganna eða með því að senda netpóst á netfangið kuti@framsyn.is.