Laganefnd ASÍ og miðstjórn ASÍ á villigötum í skipulagsmálum – Þingiðn hafnað um stækkun á félagssvæði

Á undanförnum árum hefur borið á því að stéttarfélög innan ASÍ hafi útvíkkað sín félagssvæði, það er yfir félagssvæði annarra stéttarfélaga. Það á m.a. við um félagssvæði Þingiðnar þar sem töluverður uppgangur hefur verið á síðustu árum.

Meðal þessara félaga er Félag málmiðnarmanna Akureyri sem samþykkti að gera verulegar breytingar á sínu félagssvæði og útvíka það yfir önnur stéttarfélög iðnaðarmanna á Norðurlandi. Áður náði félagssvæðið yfir Akureyri og nærsveitir. Eftir breytinguna stendur í lögum félagsins, 1. gr: Félagssvæði þess er, Norðurland frá og með Húnaþingi vestra til og með Langanesbyggð.“

Félagið fór í kjölfarið í mikla auglýsingaherferð til að auglýsa nýja félagssvæðið.

Þessi ákvörðun Málmiðnaðarmanna vakti upp mikla reiði og óánægju meðal félagsmanna Þingiðnar sem töldu að með þessu væri félagið að valta yfir félagssvæði Þingiðnar. Gerðar voru athugasemdir við þessi vinnubrögð félagsins sem gáfu þá skýringu að þeir væru að bregðast við þróun skipulagsmála innan iðnaðarmannafélaga, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu.

Lagabreyting Félags málmiðnarmanna fór í gegnum Laganefnd ASÍ, ekki var leitað álits iðnaðarmannafélaga á Norðurlandi við þessari breytingu á félagslögum Félags málmiðnarmanna. Stjórn Þingiðnar fundaði með forsvarsmönnum Samiðnar sem sögðu ekkert vera því til fyrirstöðu að Þingiðn stækkaði sitt félagssvæði. Reyndar er það staðfest í umsögn sambandsins til Laganefndar ASÍ sem gerir ekki athugasemdir við stækkandi félagssvæði Þingiðnar. Svo virðist sem það hafi farist fyrir hjá Samiðn að veita umsögn um breytingarnar á lögum Félags málmiðnarmanna áður en að þær fóru í gegnum ASÍ.

Til að verjast þessum yfirgangi og til að tryggja stöðu félagsins samþykkti Þingiðn að gera breytingar á 1. gr. félagslaga á síðasta aðalfundi. Það er að stækka félagssvæðið með því að starfssvæði félagsins verði allt Ísland. Hugmyndin hjá Þingiðn er sú sama og er hjá FIT og Félagi Málmiðnarmanna á Akureyri sem Laganefnd ASÍ hefur þegar samþykkt í þeirra tilvikum. Það er að einbeita sér að núverandi félagssvæði og gera samstarfssamninga við þau félög innan Samiðnar þar sem félagssvæðin skarast.

Félagssvæði Þingiðnar náði áður yfir sveitarfélög í Suður og Norður Þingeyjarsýslu. Þá er vitað að FIT og VM starfa á landsvísu. FIT var t.d. heimilað að gerast landsfélag árið 2011. Laganefnd ASÍ og miðstjórn ASÍ á þeim tíma heimilaði það. Nú ber svo við að sömu aðilar fallast ekki á að Þingiðn stækki félagssvæðið. Skrýtið ekki satt!

Því miður er ekki annað að sjá en að Laganefnd ASÍ og þar með miðstjórn ASÍ sé á algjörum villigötum hvað skipulagsmálin varðar.

Að mati Þingiðnar er Laganefnd ASÍ eða miðstjórn ASÍ ekki stætt á því að heimila FIT, VM  að vera landsfélög og hafna öðrum, hvað þá að heimila Félagi Málmiðnarmanna á Akureyri að valta yfir félagssvæði annarra félaga á sama tíma og Þingiðn er meinað að stækka sitt félagssvæði. Slík ákvörðun stenst ekki skoðun.

Til viðbótar má geta þess að Framsýn spurðist fyrir um það fyrir nokkrum árum hjá Alþýðusambandinu hvort félagið gæti stækkað félagssvæðið og haft landið allt sem félagssvæði. Það stóð ekki á svarinu,“ Framsýn getur haft landið allt sem félagssvæði án þess það skarist við lög ASÍ ef það hefur eða nær kjarasamningum um störf á landinu öllu.“

Það má alltaf deila um skipulagsmál og hvernig þeim verður best háttað innan verkalýðshreyfingarinnar til að tryggja stöðu félagsmanna og árangur í kjarabaráttu en það verður hins vegar ekki gert með mismununn eða tilviljunarkenndum afgreiðslum hjá Laganefnd ASÍ eða miðstjórn ASÍ.

Þingiðn hefur þegar falið lögmönnum félagsins að skoða málið og skila félaginu áliti áður en næstu skref verða ákveðin. Við þetta verður ekki unað.

 

 

Deila á