Kynningarfundur um breytingar á framlögum í lífeyrissjóði

Á dögunum boðuðu Framsýn og Þingiðn til opins fundar um samþykktar breytingar á framlögum atvinnurekenda í lífeyrissjóði. Fundurinn var haldinn í fundarsal stéttarfélaganna á Húsavík.

Huld Aðalbjarnardóttir setti fund og bauð fundarmenn velkomna til fundarins, sérstaklega bauð hún starfsmenn Lsj. Stapa velkomna til fundarins. Þær voru Jóna Finndís Jónsdóttir, Kristín Hilmarsdóttir og Fanney Þórarinsdóttir. Huld tók að sér fundarstjórn.

Huld sagði að þann 1. júlí 2017 tækju gildi nýjar reglur um framlög atvinnurekenda í lífeyrissjóði.  Hún fór yfir helstu breytingarnar en sagði að Jóna Finndís Jónsdóttir áhættustjóri Lsj. Stapa væri hingað komin til að gera fundarmönnum grein fyrir helstu breytingum á kerfinu. Stjórnir Þingiðnar og Framsýnar hefðu talið mikilvægt að standa fyrir kynningarfundi sem þessum til að fræða félagsmenn um nýja kerfið.

Jóna Finndís tók við keflinu og sagðist ánægð með að vera komin til Húsavíkur til að fara yfir þessi mál með sjóðfélögum Lsj. Stapa.  Nýlega hefði sjóðurinn staðið fyrir aukaársfundi sjóðsins á Akureyri til að fara yfir tillögur að breytingum á reglugerð sjóðsins til að geta tekið við viðbótar hækkununum. Tillögurnar hefðu verið samþykktar. Þá stæði til að kynna breytingarnar fyrir sjóðfélögum með ýmsum hætti á komandi mánuðum. Jóna Finndís kom víða við í máli sínu. Meðal annars kom fram að í síðustu kjarasamningum við Samtök atvinnulífsins í maí 2015 hefði verið samið um hækkun á mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóð sem kemur inn í áföngum á samningstímanum. 0,5% kom til framkvæmda 1. júlí í fyrra, 1,5% kemur til framkvæmda 1. júlí 2017 og 1,5% kemur til framkvæmda þann 1. júlí 2018. Frá þeim tíma verður mótframlag orðið 11,5% eða það sama og á opinbera markaðnum. Framlag launamanns verður áfram 4%. Dregist hefur hjá Alþingi að koma saman lögum sem gilda um þetta viðbótarframlag sem kallast ,,tilgreind séreign“. Ástæðan fyrir nafngiftinni er, að launamaður þarf að tilgreina að hann óski eftir að viðbótin renni inn í lífeyrissjóðinn með þessum hætti. Jóna Finndís sagði mikilvægt að rugla henni ekki saman við hina hefðbundnu séreign sem verið hefur inni í kjarasamningum um nokkurt skeið. Þótt að lögin um tilgreinda séreign séu ekki klár liggur nú loksins fyrir með hvaða hætti þetta verður og því hafa lífeyrissjóðirnir undirbúið jarðveginn og stofnuðu á dögunum á aukaársfundum nýja deild inni í sjóðunum fyrir tilgreinda séreign. Atvinnurekendur skila viðbótarframlaginu inn í lífeyrissjóðina sem hækkun á mótframlagi. Þeir launamenn sem vilja láta viðbótina renna inn í sameignina þurfa ekki að gera neinar ráðstafanir. Þeir launamenn sem vilja að viðbótin fari inn í tilgreinda séreign þurfa sjálfir að gera ráðstafanir til þess. Það er gert með því að fara inn á heimasíðu sjóðsins www.stapi.is fyrir þá sem eru í Stapa lífeyrissjóði og fylla út eyðublað til að óska eftir að viðbótin fari inn á tilgreinda séreign. Þeir sem kunna að vera í öðrum lífeyrissjóðum fara með sama hætti inn á heimasíðu síns sjóðs. Mikilvægt er að launafólk átti sig á því, að sé valið að ráðstafa viðbótinni í tilgreinda séreign, að hún veitir ekki aukinn rétt í áfallatryggingum (örorkulífeyri, makalífeyri og barnalífeyri) heldur safnast tilgreinda séreignin upp með sama hætti og hinn hefðbundni séreignarsparnaður. Inni á heimasíðum sjóðanna er að finna frekari upplýsingar og von er á reiknivél til að auðvelda fólki að átta sig á þeim mismun á réttindum sem viðbótin veitir eftir því hvort hún er sett í sameignina eða tilgreindu séreignina.

Eftir yfirferð Jónu Finndísar var orðið gefið frjálst. Töluverðar umræður urðu um málefni fundarins og fjölmargar spurningar komu fram. Þá urðu umræður um mikilvægi þess að kynna málið vel fyrir sjóðfélögum svo þeir geti tekið vel upplýsta ákvörðun.

 

Deila á