Fjallað um alþjóðaviðskiptasamninga á opnum fundi Framsýnar

Síðastliðinn föstudag efndi Framsýn til umræðufundar í fundarsal félagsins um alþjóðlega viðskiptasamninga og þá sérstaklega hvaða þýðingu þeir hefðu fyrir Ísland og íslenskt launafólk. Á fundinum flutti Ögmundur Jónasson, fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og formaður BSRB, fyrirlestur um efnið en í kjölfarið urðu líflegar umræður. Ögmundur þekkir vel til þessara mála, tók virkan þátt í átökum um þjónustutilskipun Evrópusambandsins sem síðar tók gildi á Íslandi með ákveðnum fyrirvörum þó. Ögmundur hefur einnig komið að þessum málum í gegnum stjórnmálin og flutt fjölda þingmála sem lúta að þessum málum.

Fram kom í erindi hans að alþjóðlegir viðskiptasamningar snerust nú orðið um annað og meira en tolla og almenn verslunarviðskipti. Í seinni tíð teygðu slíkir samningar anga sína inn í samfélögin með kröfu um markaðsvæðingu þeirra. Í skilmálum þeirra alþjóðaviðskiptasamninga sem nú væru á teikniboðinu eins og GATS og TiSA  væri að finna margvísleg skilyrði um hvernig samfélagið skuli skipulagt, hvað sé leyfilegt og hvað stríði gegn skilmálum samninganna. Allt þetta snertir launafólk, bæði beint og óbeint, vinnuumhverfið og velferðarþjónustuna sem við vildum geta reitt okkur á að væri alltaf til staðar óháð efnahag. Markaðsvæðing slíkrar þjónustu geti skipt sköpum um aðgang að slíkri þjónustu.

Ögmundur rakti sögu alþjóðaviðskiptasamninga allar götur frá því fulltrúar ríkja hins kapítaliska heims komu saman til fundar í Bretton Woods í New Hampshire í Bandaríkjunum árið 1944 eftir að seinna stríði lauk og lögðu grunninn að Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðunum, stofnunum sem ætlað var að halda utan um heimsviðskiptin. Í kjölfarið hafi verið hafist handa um víðtækt samningaferli til að örva heimsviðskipti með lækkun, og eftir atvikum, afnámi tolla. Umgjörðin um þetta ferli hafi verið GATT, General Agreement on Trade and Tariffs, Almennt samkomulag um verslun og tolla. Þegar þessu ferli lauk um miðjan tíunda áratug síðustu aldar hafi tekið við GATS, General Agreement on Trade in Servisces, (Almennt samkomulag um þjónustusamninga) og hafi utanumhaldið nú verið hjá nýrri stofnun, Alþjóðaviðskiptastofnuninni, World Trade Organization, WTO.

Um þetta leyti breytast áherslur í alþjóðavæðingu heimsviðskipta, í stað þess að snúast fyrst og fremst um lækkun og afnám tolla er nú farið að horfa inn í þjóðfélögin og markaðsvæða þau þannig að viðkiptaumhverfið verði alls staðar áþekkt. Nú var farið að takast á um hvaða “þjónustuviðskipti” skuli sett á markaðstorgið, hvort það til dæmis skyldi eiga við um heilbrigðisþjónustu og aðra velferðarþjónustu, vatnið raforkuna og svo framvegis.

Þessi átök færðust í vöxt innan Evrópusambandsins undir síðustu aldamót en árið 2006 var síðan þjónustutilskipun samþykkt á þingi Evrópusambandsins. Hún var mikið breytt frá upphaflegum drögum og lagði Ögmundur áherslu á að það væri vegna baráttu verkalýðshreyfingarinnar að svo hafi orðið. Þetta þyrftu menn að hafa í huga: “Barátta skilar árangri”, minnti hann á með áherslu!

Ögmundur rakti síðan hvernig alþjóðafjármagnið hefði reynt á undanförnum árum að umlykja þjónustusamningaviðræðurnar leyndarhjúpi. Þegar tekist hefði að rjúfa leyndina hefðu samningarnir jafnan siglt í strand svo mikil hefði andstaðan orðið. Sú hefði orðið raunin með GATS upp úr aldamótunum. Þá hafi 50 ríkustu þjóðir heimsins hins vegar, að áeggjan fjölþjóðlegra fjárfesta bundist samkomulagi um að ná saman um þjónustusamninga og stilla hinum snauðari hluta heimsins síðan upp við vegg og þröngva honum til að samþykkja. Þannig mætti fara bakdyramegin að því að ná markmiðum hinna strönduðu GATS samninga. Það hefðu einmitt verið fátæku ríkin sem hefðu verið afgerandi í því að stoppa GATS samningana með stuðningi róttækari hluta verkalýðshreyfingarinnar sem fannst GATS um of á forsendum fjölþjóðafjármagnsins.

Þessi nýja samningalota ríka heimsins væri kölluð TiSA , Trade in Services Agreement, (Samningar um þjónustuviðskipti). Íslendingar væru í þessum hópi og gagnrýndi Ögmundur að svo væri. Það væri ósiðlegt að þjóna alþjóðaauðvaldinu og ganga gegn hagsmunum hinna fátæku.

Hann sagði að eitt hið versta við TiSA samningsdrögin væru gerðardómar sem ætlað væri að leysa deilumál. Eðlilegra væri að dómstólar í þeim ríkjum sem deilur kæmu upp skæru úr um deilumál. Gerðardómarnir væru eins konar nýtt ólýðræðislegt dómsstig ótengdir lýðræðislegum ferlum réttarríkisins. Reynslan af slíku fyrirkomulagi væri afleit en gerðadómar væru ekki nýir af nálinni þótt nú stæði til að gera þá að hinni almennu reglu. Rakti Ögmundur nokkur dæmi um úrskurði gerðardóma fjárfestum í hag sem oft hefðu bitnað harkalega á skattgreiðendum. Þannig hefði gerðardómur til dæmis ákveðið að neyða Slóvakíu að greiða fyrirtæki sem fjárfest hefði í einkavæddri heilbrigðisþjónustu skaðabætur eftir að ný ríkisstjórn þar í landi hefði ákveðið að vinda ofan af einkavæðingunni. Þetta þótti óréttmætt gagnvart fjárfestum í heilbrigðisþjónustu en ekkert var gefið fyrir samfélagslega hagsmuni eða rétt skattgreiðenda sem urðu að borga skaðabætur.

Ögmundur Jónasson hvatti verkalýðshreyfinguna til að fylgjast vel með gangi þessara mála og láta stjórnvöld ekki komast upp með að skuldbinda okkur inn í framtíðina með samningum sem í reynd væru nánast óafturkræfir. Hann sagðist vera sammála því sem fram hefði komið í auglýsingu Framsýnar um fundinn að þessi mál kæmu okkur öllum við!

Að erindinu loknu urðu ágætar umræður þar sem fundarmenn spurðu nánar út í viðskiptasamningana og viðruðu eigin sjónarmið.  Framsýn þakkar Ögmundi fyrir fræðandi og skemmtilegan fund.

ogmundurkjot0417 012

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nokkrir fundarmanna á spjalli fyrir fundinn.

ogmundurkjot0417 017

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Líflegar umræður urðu um málefni fundarins og voru fundarmenn duglegir að blanda sér inn í umræðuna.

ogmundurkjot0417 031

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Erindi Ögmundar var mjög fræðandi og áhugavert enda Ögmundur vel inn í þessum málum sem fyrrverandi alþingismaður og formaður BSRB.

ogmundurkjot0417 002

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Félagarnir hittust á ný, þegar Ögmundur var formaður BSRB var Einar Jónassn formaður Starfsmannafélags Húsavíkur og því áttu þeir gott samstarf til fjölda ára. Það urðu því fagnaðarfundir þegar þeir sáust aftur eftir 20 ára fjarveru í fundarsal stéttarfélaganna.

 

Deila á