Fyrirtæki misnota orlofsrétt starfsmanna

Framsýn, stéttarfélag hefur óskað eftir áliti lögmanns á því hvort atvinnurekanda sé heimilt að ákveða einhliða að starfsfólk hans taki orlof meðan fyrirtæki er lokað yfir jól- og áramót. Dæmi eru um að fyrirtæki þrýsti á starfsmenn að taka sér orlof á þessum tíma til að losa sig undan launagreiðslum. Samkvæmt umsögn lögmanna félagsins er slíkt óheimilt, sjá meðfylgjandi umsögn:

„Samkvæmt orlofslögum nr. 30/1987 skal veita orlof á tímabilinu frá 2. maí til 15. september. Það er þannig meginregla að orlof skuli veitt að sumri til.  Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekandi skuli ákveða í samráði við starfsmenn hvenær orlofið skuli veitt. Atvinnurekanda ber að verða við óskum einstakra starfsmanna í því efni eftir því sem honum er unnt vegna starfseminnar. Að lokinni þessari könnun er atvinnurekanda skylt að tilkynna starfsmönnum um tilhögun orlofstöku, svo fljótt sem verða má og aldrei seinna en mánuði fyrir töku þess.

Atvinnurekanda er heimilt að loka fyrirtæki sínu meðan starfsmenn eru í orlofi. Æskilegt er að ákvörðun um slíka lokun liggi fyrir eigi síðar en 1. apríl ár hvert þannig að öllum starfsmönnum sé kunnugt um hana áður en að orlofstímabili kemur.  Ákvörðun atvinnurekanda um að loka í orlofi ber annars að tilkynna með sama hætti og tilkynningu um orlof endranær, þ.e. tilkynna ber um fyrirhugaða lokun með minnst eins mánaðar fyrirvara

Ef atvinnurekandi hyggst flytja hluta orlofs yfir á vetrartímann verður hann að færa fyrir því sérstök rök sem byggja á rekstrarástæðum fyrirtækis, enda er meginreglan sú sem fyrr greinir að sumarið sé tími orlofstöku og af þeirri ástæðu hefur einnig verið samið um sérstakar skorður í þessu efni í kjarasamningum, þannig að sumarorlof sé ekki skert nema að vissu marki.

Telji atvinnurekandi nauðsynlegt að loka fyrirtæki yfir hátíðir, eins og um var spurt, ber honum í ljósi fyrrgreindra reglna að gera ráð fyrir því þegar við skipulagningu orlofs að vori þannig að starfsmenn geri sér grein fyrir því fyrirfram að orlof þeirra verði skipt í sumar og vetrarorlof og með þeim fyrirvara sem áður var lýst. Undir engum kringumstæðum standa rök til þess að atvinnurekanda sé tækt að ákveða undir lok árs að fyrirtæki loki yfir hátíðir og starfsmenn hefji þá orlofstöku, sem þeir ella hefðu átt að taka á næsta sumri eftir lokunina.“

 

Deila á