Samstarfssamningur undirritaður

Framsýn, stéttarfélag og Verkalýðsfélag Þórshafnar hafa endurnýjað samstarfssamning félaganna. Samningurinn er ólíkur þeim fyrri. Sá samningur fól í sér að Verkalýðsfélag Þórshafnar greiddi ákveðna upphæð á mánuði til Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík gegn ákveðinni þjónustu við félagið og félagsmenn. Nú færist sú þjónusta til Verkalýðsfélags Þórshafnar og falla því niður fastar greiðslur til skrifstofunnar á Húsavík. Komi til þess að Verkalýðsfélag Þórshafnar þurfi á þjónustu að halda mun félagið greiða sérstakt gjald fyrir þá þjónustu til Skrifstofu stéttarfélaganna. Við það er miðað að félagsmenn Verkalýðsfélags Þórshafnar leiti fyrst til skrifstofu félagsins á Þórshöfn sem síðan ákveður hvort þörf sé á aðkomu Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík að málinu.
Samkvæmt samkomulaginu ætla félögin einnig að vinna sameiginlega að málefnum félagsmanna, atvinnulífs og byggðarlagsins í heild sinni með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi. Þá ætla félögin að vinna sameiginlega að orlofsmálum félagsmanna, vinnustaðaeftirliti og upplýsingamálum í gegnum fréttabréf og heimasíðu stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum.

Deila á